Fræðslumiðstöð atvinnulífsins (FA) hefur þróað aðferð við að greina lykilhæfni starfa.

Slík greining kallast hæfnigreining og myndar hún starfaprófíl sem er grunnur að uppbyggingu náms eða raunfærnimats.

Hæfnigreiningar og atvinnulífið

Hæfnigreiningar FA hafa reynst vel þar sem aðkoma atvinnulífs er hluti af ferlinu. Lögð er áhersla á að ná samnefnara fyrir störf á vinnumarkaði, innan starfsgreinar en ekki eins fyrirtækis. Með hæfnigreiningu starfa verða hæfnikröfur starfanna sýnilegar og geta þar með stutt við (a) ráðningar og starfsþróun (b) starfstengdar námskrár sem FA skrifar, og (c) raunfærnimat á móti viðmiðum starfa.

Framkvæmd hæfnigreininga

Hæfnigreiningar eru ýmist unnar af sérfræðingum FA eða samstarfsaðilum sem sótt hafa viðeigandi þjálfun og fræðslu. Sérþjálfaður umsjónarmaður undirbýr og skipuleggur greiningarvinnuna ásamt stýrihópi sem samanstendur af 5 til 6 lykilaðilum úr viðkomandi starfsgrein. Til þátttöku á greiningarfundum er kallaður til stærri hópur, 10 til 20 manns.

Hæfni starfs sem greint er skiptist í almenna starfshæfni og sértæka hæfni sem þarf til að sinna starfinu.

Unnið er með hæfniþætti sem skilgreina á hlutlægan hátt þá persónulegu og faglegu hæfni sem máli skiptir á vinnumarkaði. Hæfniþættirnir eru þrepaskiptir og lýsa stíganda í ábyrgð, sjálfstæði og hæfni sem þarf til að gegna starfinu.  Þrepaskiptingin byggir á hæfniramma um íslenska menntun.

Nánari upplýsingar má finna í kynningarbæklingum FA:

Bæklingur – íslenska
Bæklingur – enska

Áhugasömum er bent á að hafa samband við FA frae@frae.is | Beiðni um hæfnigreiningu – smellið hér.

Ef vitnað er í prentað efni eða efni af heimasíðu Fræðslumiðstöðvarinnar ber að geta heimilda

Skráðu þig á póstlista Fræðslumiðstöðvarinnar