Select Page

Náms- og starfsráðgjöf

Náms- og starfsráðgjöf í fullorðinsfræðslu

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins (FA) vinnur að þróun náms- og starfsráðgjafar fyrir fullorðna á vinnumarkaði sem hafa stutta formlega menntun. Lögð er áhersla á að efla sérfræðiþekkingu í náms- og starfsráðgjöf og veita faglegan stuðning í samræmi við viðhorf, hugmyndir og gæðakröfur í framhaldsfræðslu. FA leggur áherslu á að þróa  náms- og starfsráðgjöf fyrir markhópinn þar sem horft er til þess að mæta þörfum hvers og eins,  leitað  leiða til að ná til sem flestra, veita upplýsingar um möguleika og hvetja til náms. Jafnframt  er aflað upplýsinga um þarfir markhópsins og þeim miðlað áfram inn á vettvang framhaldsfræðslunnar.

FA stýrir samstarfsneti ráðgjafa símenntunarmiðstöðva ásamt því að leita leiða til að efla gæði þjónustunnar með þróun aðferðafræði og endurgjafar frá notendum. Unnið er eftir árangursviðmiðum og haldið utan um tölfræði ráðgjafarinnar. Haldnir eru 2 -3 samráðsfundir á ári með samstarfsnetinu þar sem upplýsingum og fræðslu er miðlað.

Ráðgjöfin er lykill að því að ná til markhópa framhaldsfræðslunnar og tengja þá við viðeigandi tækifæri í námi og starfi. Í því skyni er unnið að uppbyggingu upplýsinga- og ráðgjafavefjar þar sem margvíslegar upplýsingar um nám og störf verða aðgengilegar á einum stað – sjá Næstaskref.is Þjónusta náms- og starfsráðgjafa er í boði á símenntunarmiðstöðvum og er markhópnum að kostnaðarlausu.