Select Page

Raunfærnimat

Raunfærni og raunfærnimat

Mat á raunfærni byggist á þeirri hugmynd að nám fari fram við margs konar aðstæður og í alls konar samhengi. Allt nám er verðmætt og því mikilvægt að það sé skjalfest óháð hvar þess hefur verið aflað. Raunfærni er samanlögð færni sem náð er með ýmsum hætti í námi, starfi eða einkalífi.

Raunfærnimat er staðfesting og mat á raunfærni. Markmiðið er að viðurkenna þá færni sem raunverulega er til staðar og þannig stytta nám og styðja við framgang fólks í starfi.

Raunfærnimat hefur sífellt fengið meira vægi með opnara aðgengi að þekkingu, sveigjanleika á vinnumarkaði og þörf fyrir sýnileika hæfni. Einfalt er að tengja verkfærið við hugtakið símenntun. Eigindlegar rannsóknir sýna að þátttaka í raunfærnimati er öflugur hvati til náms og hæfniþróunar.

Frá árinu 2007 hafa yfir 6500 einstaklingar lokið raunfærnimati á Íslandi á vettvangi framhaldsfræðslunnar.

Raunfærnimat – til styttingar á námi

Metið á móti námskrá og hæfniviðmið áfanga lögð til  grundvallar.

Að loknu raunfærnimatsferli kemur fram hvaða áfangar eru metnir og hverjir eru eftir. Metnir áfangar eru skráðir í INNU í formi metinna áfanga / eininga.

Með því að ljúka þeim áföngum sem eftir standa fær þátttakandi staðfest námslok á hæfniþrepi.

 

Raunfærnimat – vottun á hæfni í starfi

Metið á móti hæfnikröfum starfs, sem byggjast á hæfnigreiningu.

Að loknu raunfærnimatsferli kemur fram hvaða hæfniviðmið fást metin og hvar þörf er fyrir starfsþjálfun. Niðurstaða matsins er skráð í INNU.

Að lokinni starfsþjálfun er hæfni í starfi vottuð með Fagbréfi með tilvísun í hæfniþrep.

 

Nánari upplýsingar veita: Lilja Rós Óskarsdóttir, lilja (hjá) frae.is og Haukur Harðarsson, haukur (hjá) frae.is