Raunfærnimat í atvinnulífinu – fagbréf

Sýnileiki og formleg staðfesting á hæfni skiptir máli fyrir alla, einstaklinga og atvinnurekendur.

Í raunfærnimati á móti starfi er hæfni starfsmanns metin á móti hæfniviðmiðum tiltekins starfs. Hæfniviðmiðin byggjast á hæfnigreiningu sem er unnin samkvæmt vel skilgreindri aðferðafræði þróaðri hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins (FA).

Með því að meta með formlegum hætti þá færni sem starfsmaður hefur aflað sér í starfi, verður hæfnin sýnileg. Ef starfsmaður uppfyllir allar hæfnikröfur starfsins fær hann staðfestingu á hæfni sinni með fagbréfi.

Framkvæmd matsferlisins er í höndum aðila (fræðsluaðila eða fyrirtækja) sem hafa staðfesta þekkingu á aðferðafræði og uppfylla kröfur um gæði framkvæmdar.

Fagbréf

Í fagbréfi er tilgreint á hvaða þrepi íslenska hæfnirammans hæfnin er staðfest. Ef starfsmaður hefur ekki full tök á einhverri færni sem gerð er krafa um í starfi, tekur í kjölfarið við starfsþjálfun innan fyrirtækis þar til hann hefur náð að uppfylla allar hæfnikröfur.

Fagbréf getur auðveldað starfsmanni að sýna fram á hæfni sína þegar kemur að þróun í starfi eða ef hann hefur hug á að sækja sér frekara nám.

Ávinningur
Ferlið

Með því að gera hæfni sýnilega er með markvissu hætti hægt að byggja ofan á færni starfsmanna og auka þannig enn frekar gæði í starfi.

Raunfærnimat á móti viðmiðum starfs er afrakstur tilraunaverkefnis sem var unnið í samstarfi FA, SA og ASÍ.

Frekari upplýsingar má finna í lokaskýrslu tilraunaverkefnis.

Nánari upplýsingar má nálgast hér.

Skráðu þig á póstlista Fræðslumiðstöðvarinnar