Raunfærnimat veitir staðfestingu á færni einstaklinga óháð því hvernig hennar hefur verið aflað. Niðurstöður raunfærnimats eru nýttar til að stytta nám eða sýna fram á og auka færni á vinnumarkaði. Raunfærnimat er öflugur hvati fyrir einstaklinga til enn frekari hæfniþróunar í starfi og/eða til áframhaldandi náms.
Raunfærnimat og atvinnulífið
Sýnileiki á færni er mikilvæg fyrir atvinnulíf, bæði fyrir stjórnendur fyrirtækja og starfsmenn og leiðir til:
- Markvissari uppbyggingu á færni takt við þarfir, bæði utan og innan skólakerfa
- Að horft sé til staðfestrar færni vegna starfsþróunar, launaákvarðana og við ráðningar í störf
- Að störfum sé sinnt af starfsfólki með færni við hæfi sem hefur áhrif á gæði og framleiðni
- Aukinnar getu til að takast á við breytingar á vinnumarkaði
Mat á raunfærni byggir á þeirri hugmynd að nám fari fram við margs konar aðstæður og í ólíku samhengi en ekki eingöngu í skóla. Raunfærnimat er víða notað í heiminum en íslenska módelið byggir á áherslum frá Evrópu.
Hlutverk Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins er að móta aðferðafræði og gæðaviðmið fyrir framkvæmd, halda utan um tölfræði og veita ráðgjöf og fræðslu fyrir framkvæmdaraðila. Framkvæmd raunfærnimats er í höndum viðurkenndra fræðsluaðila um allt land. Við framkvæmd er krafist að beitt sé aðferðafræði sem á sér stoð í reglugerð og framkvæmd er gæðavottuð.
Tvær meginleiðir í framkvæmd:
Til styttingar á námi
Metið er á móti námskrám framhaldsfræðslu, framhaldsskóla eða háskóla og hæfniviðmið áfanga lögð til grundvallar. Áfangar sem lokið er með raunfærnimati hafa sama gildi og áföngum sem lokið er með námi.
Að loknu raunfærnimati eru metnir áfangar skráðir í INNU en þátttakandi líkur þeim áföngum sem ekki voru metnir í skóla. Þegar öllum áföngum sem eftir standa er lokið, fær þátttakandi staðfest námslok á hæfniþrepi.
Vottun á hæfni í starfi
Metið er á móti hæfnikröfum starfs, sem byggjast á hæfnigreiningu.
Að loknu raunfærnimati kemur fram hvaða hæfniviðmið fást metin og hvar þörf er fyrir starfsþjálfun. Niðurstaða matsins er skráð í INNU. Að lokinni starfsþjálfun er hæfni í starfi vottuð með fagbréfi með tilvísun í hæfniþrep.
Myndir sýnir dæmi um fimm ólík hæfniviðmið sem
tiltekin námskrá eða starf gerir kröfu um. Niðurstaða raunfærnimats
leiðir í ljós hver þeirra fást metin. Í framhaldi er því, sem ekki fæst metið,
náð með námi eða starfsþjálfun og að lokum er hæfni staðfest með námslokum
eða fagbréfi.
Áttu erindi í raunfærnimat?
Nánari upplýsingar má einnig nálgast hjá frae@frae.is
Ef vitnað er í prentað efni eða efni af heimasíðu Fræðslumiðstöðvarinnar ber að geta heimilda