Nýjum áskorunum á vinnumarkaði mætt með raunfærnimati

Alþjóðleg ráðstefna (VPLBiennale) um leiðir til að gera hæfni sýnilega og raunfærnimat fór fram í Reykjavík dagana 19. og 20. maí sl. Mikil aðsókn var í ráðstefnuna þar sem um 250 þátttakendur frá 27 löndum komu saman  til að fá innblástur af erindum og taka þátt í umræðum um þróun raunfærnimats. Um 50 manns fylgdust með ráðstefnunni í streymi. Þetta er fjórða alþjóðlega ráðstefnan sem haldin hefur verið um raunfærnimat.  

Þróun raunfærnimats á Íslandi  

Hingað til hefur mest verið horft til þess að nýta raunfærnimat til styttingar á formlegu námi. Með örum breytingum á vinnumarkaði vegna fjórðu iðnbyltingarinnar og aukinni þörf á símenntun hefur áherslan, sérstaklega í Norður-Evrópu, á að nýta raunfærnimat til að takast á við þessar breytingar aukist. Svíþjóð hefur verið leiðandi á þessu sviði og á Íslandi hafa SA og ASÍ komið að tilraunaverkefnum um raunfærnimat á móti hæfniviðmiðum starfa. Niðurstöður ráðstefnunnar verða nýttar til að hafa enn  frekari áhrif á framþróun raunfærnimats hér á landi.  

Að byggja sameiginlegan grunn  

Til að það náist sem mestur árangur af raunfærnimati þarf samstaða að ríkja á milli menntakerfis, atvinnulífs og yfirvalda og nauðsynlegt er að allir hagaðilar séu meðvitaðir um mikilvægi raunfærnimats. Þannig næst sem mestur árangur fyrir samfélagið.  

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra, tók undir þetta í erindi sínu á ráðstefnunni og talaði fyrir mikilvægi raunfærnimats til að bregðast við áskorunum á vinnumarkaði. Jafnframt væri hægt að raunfærnimeta fjölbreyttari hópa innan markhópsins og þannig gætum við stuðlað að jöfnum tækifærum fyrir alla.   

Árangursrík verkefni verðlaunuð 

Fjögur árangursrík verkefni í raunfærnimati hlutu viðurkenningu á ráðstefnunni og var einn íslenskur fræðsluaðili þar á meðal. Verðlaunahafar eru: (1) Dr. Rekha Rambharose, fyrir stuðning við nema sem sækja raunfærnimat í Suður-Afríku; (2) Aleksandra Panek, fyrir vottun á hæfni innflytjenda í Austurríki, (3) Ulrich Scharf, fyrir verkefni um starfsferilsráðgjöf með gervigreind og (4) Starfsmennt, fyrir verkefni í raunfærnimati með starfsfólki í úrvinnslu- og afgreiðslustörfum hjá hinu opinbera. Sjá nánar um verðlaunahafa og verkefnin. Jafnframt var Jens Bjornavold heiðraður fyrir hans framlag í þágu þróunar raunfærnimats.

Aleksandra Panek frá AST (ráðgjafamiðstöð fyrir innflytjendur í Vínarborg), Ulrich Scharf frá SkillLab í Hollandi, Guðfinna Harðardóttir, framkvæmdastjóri Starfsmenntar, Sólborg Alda Pétursdóttir, verkefnastjóri hjá Starfsmennt.
 „Þetta er frábært kerfi og gjörsamlega bjargaði mér“ 

Jón Gnarr, leikari, uppistandari og fyrrverandi borgarstjóri, flutti erindi á ráðstefnunni þar sem hann sagði frá persónulegri reynslu sinni af raunfærnimati og hvernig raunfærnimatið hefði verið valdeflandi fyrir hann. Jón Gnarr mætti í Síðdegisútvarpið eftir ráðstefnuna þar sem hann  hrósaði raunfærnimatskerfinu á Íslandi. Nálgast má viðtalið og lesa frétt um það á RÚV

Umsjón og styrktaraðilar  

Ráðstefnan var í umsjón Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins (FA) í samstarfi við Norræna tengslanetið um nám fullorðinna (NVL) og CEDEFOP. Fulltrúar EC-VPL, Evrópusambandsins, UNESCO, GLOBEDU og Sænska landsskrifstofan fyrir fagháskóla (MYh) tóku einnig þátt í stýrihópi til að undirbúa ráðstefnuna og styðja við árangursríkar niðurstöður. EPALE, innlendir starfsmenntasjóðir og félagsmála- og vinnumarkaðsráðuneytið styrktu  ráðstefnuna með fjárframlögum. FA þakkar styrktaraðilum kærlega fyrir þennan ómetanlega stuðning. 

EPALE segir gestum frá starfsemi sinni og fulltrúar NVL gera hið sama á næsta bás.
Þátttakendur styrkja tengslanet sitt.
Það var ljóst að mörgum fannst gott að hittast á ný.
Dr. Nan Travers, einn af aðalfyrirlesurum á ráðstefnunni. Kynningarmyndband af erindi hennar má nálgast hér.
Mikil orka myndaðist í hópnum.
Gestir gátu setið fjölbreyttar vinnustofur á ráðstefnunni.

Efni af ráðstefnunni er væntanlegt á heimasíðu Biennale s.s. kynningarglærur, upplýsingar um fyrirlesara, upptökur af kynningum aðalfyrirlesara. Nálgast má greinar um raunfærnimat í veftímaritinu Gátt.

Ljósmyndir frá ráðstefnunni.

Skráðu þig á póstlista Fræðslumiðstöðvarinnar