Þrír nýir starfsmenn hjá FA

Í byrjun árs 2024 hófu þrír nýjir starfsmenn störf hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins.

Helgi Þ. Svavarsson tekur við starfi umsjónarmanns NVL, Norræns tengslanets um nám fullorðinna í hálfu starfi en hann starfar einnig hjá SÍMEY, Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar. Helgi hefur starfað sem verkefnastjóri hjá SÍMEY síðan 2009. Þar hefur hann komið að flestum þeim verkefnum símenntunarmiðstöðva, svo sem framkvæmd náms, þarfagreiningu innan fyrirtækja, innleiðingu og þróun kennsluhátta, raunfærnimati, ráðgjöf og fleira.  Helgi hefur verið virkur innan Leiknar, samtaka aðila í fullorðinsfræðslu sl. 5 ár og er nú formaður. Helgi er sem stendur í doktorsnámi við Háskóla Íslands þar sem hann kennir einnig við deild menntunar og margbreytileika. Helgi er tónlistarmaður og stundar mikið gönguskíði og hefur áhuga á mannkynssögunni, útiveru og veiðum.

Hrannar Baldursson tekur við starfi í hæfniteymi FA í hæfnigreiningum, námskrágerð og kennslufræði. Hrannar hefur unnið sem verkefnastjóri hjá MSS síðustu þrjú ár, þar sem hann skipulagði námsleiðir og tók þátt í fjölmörgum þróunarverkefnum, meðal annars hjá Erasmus+, EEA og Fræðslusjóði. Hann starfaði 10 ár í Noregi sem kennslufræðingur í olíuiðnaðinum,  kennir kennslufræði við Háskóla Íslands, hefur kennt heimspeki í Bandaríkjunum, Mexíkó og Íslandi, hefur mikinn áhuga á heimspeki, skák, skáldskap og kvikmyndum, og reynir að spyrja minnst einnar góðrar spurningar hvern einasta dag.

Nichole Leigh Mosty tekur við hlutastarfi hjá Hæfnisetri ferðaþjónustunnar. Nichole er fædd í Bandaríkjunum en hefur dvalið og starfað á Íslandi í yfir 20 ár. Nichole er með B.Ed – próf í leikskólakennarafræðum og M.Ed próf í náms og kennslufræði. Hún hefur starfað sem Leikskólastjóri, Aþingiskona, Forstöðumaður Fjölmenningarseturs, Forkona hjá Samtökum kvenna af erlendum uppruna á Íslandi og hefur setið í ýmsum nefndum og ráðum á sviði samfélagsþróunar og menntunar. Nichole mun hefja doktorsnám í haust 2024 og rannsaka hlutverk símenntun í inngildingu. 

Skráðu þig á póstlista Fræðslumiðstöðvarinnar