Smiðjunámskrár – vinnustofa með símenntunarstöðvum 

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins (FA) hélt vinnustofu fyrir starfsfólk símenntunarmiðstöðva, þann 11. janúar 2024. Verkefni vinnustofunnar var nokkurs konar framhald af kynningu á þremur námskrám, Smiðja 1-1, Smiðja 1-2 og Smiðja 2-1 þar sem tvær fyrri eru á hæfniþrepi eitt og sú síðasta á hæfniþrepi tvö. 

Verkefni vinnustofunnar var að fjalla um og gera grein fyrir hvernig fólk sem vill keyra einhverja framangreindra námskráa skrifi (náms)lýsingu fyrir verkefni í tengslum við þá smiðjunámskrá. 

Þessar námskrár eru vel til þess fallnar að hanna námskeið/verkefni sem geta hentað geta einni eða öllum þremur smiðjunámskránum, þar sem það sem greinir námskrárnar fyrst og síðast í sundur er hæfniþrep og það sem fram kemur í lýsingu hverrar námskrár fyrir sig.  

Mikil þátttaka var á fundinum þar sem yfir 20 voru ýmist á staðnum eða á línunni og tóku öll virkan þátt í umræðum og því samtali sem m.a. var fléttað upp á um samvinnu og samstarf milli fólks um skrif á verkefnalýsingum fyrir ákveðnar námskrár. Hugnaðist þátttakendum það vel, létu vel af og ætla sér að vinna saman að hönnun námskeiða fyrir Smiðju í náinni framtíð. 

Mikið var rætt um Leikskólasmiðju og Umönnunarsmiðju sem Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum (MSS) hefur unnið að hönnun og prufukeyrslu á í samstarfi við FA. Þau verkefni (fyrir Smiðju 2-1) hafa verið keyrð fyrir innflytjendur á Suðurnesjum þar sem námskeiðum í íslensku er fléttað inn í námskrána. Slíkt hefur gefist afar vel og ekki síst hvað varðar aukinn áhuga nema á að tileinka sér tungumálið. Fyrst læra þátttakendur um helstu hugtök og störf í viðkomandi starfsstétt, læra að beita íslensku í tengslum við störfin, fara á vettvang í skoðunarferð og einnig í stutt starfsnám þar sem mögulegt er.  

Skráðu þig á póstlista Fræðslumiðstöðvarinnar