Samtal og samstarf um framtíð framhaldsfræðslunnar – fimmtu stoðar menntakerfisins

Ársfundur Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins (FA) var haldinn 14. nóvember s.l. og tóku yfir 140 manns þátt í fundinum á staðnum og í streymi. Fundurinn var haldinn í samstarfi við NVL – Norrænt tengslanet um nám fullorðinna, undir yfirskriftinni Rík af reynslu – lærum hvert af öðru.   

Aðaláhersla fundarins var að draga fram stöðu framhaldfræðslunnar, fá innsýn í þróun mála hjá tveimur öðrum Norðurlöndum og eiga samtal um framtíðarsýnina.  Ljóst er að margt hefur tekist vel til í því samstarfi sem lög um framhaldsfræðslu (2010) kveða á um og því mikilvægt að byggja áfram á því við aðlögun að breytingum á vinnumarkaði og samfélaginu. 

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra talaði um að mikilvægi þess að hafa inngildingu að leiðarljósi, þá sérstaklega fyrir innflytjendur og fatlað fólk. Guðmundur minntist á aukið samstarf Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins og Fjölmenntar, fræðsluaðila sem fá úthlutað úr Fræðslusjóði og Vinnumálastofnunar til að efla aðgengi fatlaðs fólks. Víðtæk stefnumótun er í gangi varðandi endurskoðun laga um framhaldsfræðslu sem miðar að því að efla þjónustuna í átt að réttlátara samfélagi. En nýtt frumvarp til laga verður mótað út frá ráðgjöf 25 hagsmunaaðila sem eru í skipuðum starfshópi.  

ársfundur3

Maj-Britt Hjördís Briem, stjórnarformaður FA og lögmaður SA fór yfir þann grunn sem FA byggir á. En FA var stofnuð með það að markmiði að vera vettvangur um bætta menntun og möguleika fyrir einstaklinga á vinnumarkaði með litla grunnmenntun, innflytjendur og sambærilega hópa. FA er í eigu allra aðila atvinnulífsins, er öflugur samtarfsvettvangur þeirra og þjónar öllum vinnumarkaðnum. Fram kom að af þeim sem nýta verkfæri framhaldsfræðslunnar eru 62% í starfi. Mikil þörf er á að þróaðar séu sérstakar leiðir fyrir fólk sem stendur fyrir utan formlega menntakerfið, í samstarfi við atvinnulífið og með svigrúmi til að aðlaga verkfæri framhaldsfræðslunnar ákveðnum hópum (inngilding). 
Á mynd: Maj-Britt Hjördís Briem talar á ársfundi.

Berglind Rós Magnúsdóttir, prófessor hjá HÍ, leiðir vinnu við endurskoðun laga um framhaldsfræðslu. Berglind lýsti ferlinu og þeim áskorunum sem felast í því. Fram kom að afar fá stefnuskjöl um menntamál á Íslandi eru með heimildaskrá sem getur sagt til um hvaðan þekkingin kemur og ógagnsætt hvort skýrslur séu í raun nýttar í sjálfri stefnumótuninni. Fimm rannsóknarverkefni voru sett af stað í janúar sem tengjast endurskoðun laga og lesa má um á vef Stjórnarráðsins og 22 kynningar um tengd mál á 14 fundum starfshópsins. Á vorönn 2024 verður unnið að Hvítbók og lagafrumvarpi. 
Á mynd: Berglind Rós Magnúsdóttir talar á ársfundi.

ársfundur4
ársfundur5

Elisabeth Bøe og Anna Kahlson, norrænir sérfræðingar í menntamálum, töluðu báðar um aukna áherslu á að mæta þörfum atvinnulífsins með sveigjanlegra menntakerfi vegna mikils skorts á réttri hæfni sem formlega skólakerfið næði ekki utan um eitt og sér. Þörf er á víðtæku samstarfi hagaðila. Litið er á raunfærnimat sem lykilverkfæri í báðum löndum og að nám þurfi í auknum mæli að fara fram á vinnustað. Í Noregi er horft er til módúlaskipts starfsnáms fyrir fullorðið fólk frá 19 ára aldri, á vinnustað, sem fólk getur tekið á sínum hraða og raunfærnimat innbyggt í þá leið. Þá sýnir reynsla Norðmanna að þörf er á aukinni miðlægni í raunfærnimatskerfi innan formlega kerfisins þar sem lítil framkvæmd hefur átt sér stað hingað til bæði á framhaldsskóla- og háskólastiginu. Rannsóknir sýna að ástæðan er litill skilningur á raunfærnimati, skortur á stýringu og aðgengi að verkfærum. Miðlægt kerfi verður lagt til, í því skyni að auka þátttöku. Á mynd Elisabeth Bøe talar á ársundi.

Í pallborði komu saman fulltrúar frá Samtökum atvinnulífsins, ASÍ, BSRB, félags- og vinnumarkaðsráðuneyti og mennta- og barnamálaráðuneyti. Fram kom að aðilar atvinnulífsins vilja byggja á því starfi sem Fræðslumiðstöð atvinnulífsins hefur unnið, sem er mjög í takt við áherslur í Evrópu og þarfir á vinnumarkaði. Rætt var um mikilvægi þess að kerfi vinni saman í þágu markhópa og út frá hæfnistefnu. Horfa þarf sérstaklega til markhópa sem standa fyrir utan vinnumarkaðinn. Samlegð kerfa skiptir máli með áherslu á inngildingu og jafnrétti. Þá þarf að eiga samtal um fjármögnun sem jafnar og tryggir aðgengi hópa að námi og færniþróun og endurskoða umgjörð Fræðslusjóðs. Jón Torfi Jónasson, prófessor emeritus leiddi umræður í pallborði. 
Á mynd: f.v. Jón Torfi Jónasson, Maj-Britt Hjördís Briem, Berglind Rós Magnúsdóttir, Eyrún Valsdóttir, Ragnhildur Bolladóttir og Arna Jakobína Björnsdóttir í pallborði.

Fyrirmyndir sem fengu viðurkenningu voru þrjú að þessu sinni, öll vel að henni komin með árangri sínum í gegnum verkfæri framhaldsfræðslunnar. Sjá nánar sérstaka frétt um þær hér. 

Horfið á upptöku af fundinum:

Myndir frá fundinum:

Skráðu þig á póstlista Fræðslumiðstöðvarinnar