Fyrirmyndir í námi fullorðinna á ársfundi FA

Pétur Erlingsson, Beata Justyna Bistula og Ómar Farooq Ahmed hljóta viðurkenninguna fyrirmyndir í námi fullorðinna á þessu ári. Viðurkenningarnar voru veittar við hátíðlega athöfn á ársfundi Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins (FA) sem fram fór í gær. Viðurkenningin er veitt árlega þeim einstaklingum sem hafa bætt stöðu sína eftir þátttöku í leiðum framhaldsfræðslunnar og sýnt framúrskarandi árangur. Fyrirmyndirnar fengu veglega gjöf frá Advania.

Pétur Erlingsson

Pétur Erlingsson er fyrirmynd í námi fullorðinna, tilnefndur af Farskólanum – miðstöð símenntunar á Norðurlandi vestra. Pétur fór snemma á vinnumarkaðinn, hóf starf sem sjómaður þegar hann var 15 ára gamall. Hann ákvað að hefja nám að nýju sextugur og kláraði Grunnmennt. Í kjölfarið fór hann í Tækniskólann og náði réttindum til skipsstjórnar og hafnsögu. Hann getur núna lóðsað skemmtiferðaskip og aðra sjófarþjónustu. Pétur er enn að bæta við sig og er núna að taka Excel námskeið. Hann heimsækir Farskólann reglulega til að hvetja starfsfólk til að bjóða upp á fleiri námskeið fyrir fullorðna. Hann er dæmi um að aldrei sé of seint að læra og að nám sé skemmtilegt og gagnlegt á öllum æviskeiðum, sannkallað ævinám.

Beata Justyna Bistula

Beata Justyna Bistula  er 33 ára fjölskyldukona með háskólamenntun í kennslu frá Póllandi og sérhæfingu í útikennslu barna. Hún fór í Leikskólasmiðju, og fagnám fyrir starfsfólk í leikskóla hjá Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum (MSS), ásamt vettvangsnámi í 10 daga með íslensku þvert á faggreinar. Hún tók miklum framförum í íslensku á þessum tíma. Henni var lagið að tileinka sér námið varðandi yngsta skólastigið hér á landi og nýta menntunina úr kennaranáminu í Póllandi og heimfæra á þá hugmyndafræði sem er verið að vinna eftir hér á landi. Hún fékk stuðning og aðstoð náms- og starfsráðgjafa hjá MSS til að sækja um að fá menntun sína metna í gegnum Enic/Naric og gekk það mjög vel. Beata útskrifaðist úr náminu frá MSS þann 30. mars sl. Beata er núna komin með vinnu á leikskóla í Reykjanesbæ og fá leikskólabörn að njóta fagmennsku hennar og menntunar. Hún er dæmi um að með ákveðni, markmið og stuðningi er hægt að ná fram draumum sínum.

Ómar Farooq Ahmed

Ómar Farooq Ahmed er tuttugu og fjögurra ára gamall nemi. Eftir að hafa verið í Menntaskólanum í Kópavogi og Fjölbrautaskólanum í Breiðholti ákvað hann að skóli væri ekki fyrir hann og hóf störf sem stuðningsfulltrúi í Skóla Ísaks Jónssonar, ásamt öðrum hlutastörfum. Í fyrra kviknaði áhugi hans á að gerast kennari og með það markmið í huga skráði sig í fjarnám í Menntastoðum hjá Mími. Lotukerfið í fjarnáminu hentaði honum vel þar sem hann vann mikið, hann var fljótur að finna sig í náminu og útskrifaðist úr Menntastoðum vorið 2023. Einnig lauk Ómar raunfærnimati bóklegra greina sem og þjónustubrauta sem stuðningsfulltrúi og lauk þar með 70 einingum sem stytti leiðina að markmiði hans. Í dag stundar hann nám í Háskólabrú Keilis og stefnir á Kennaranám á Menntavísindasviði Háskóla Íslands.

Saga fyrirmyndanna endurspeglar upplifun fjölmarga fullorðinna sem sækja námsleiðir, raunfærnimat og önnur verkfæri framhaldsfræðslunnar. Mikilvægt er að fullorðnir eigi möguleika á að hefja nám að nýju og fái viðeigandi stuðning til þess að fá sína hæfni og reynslu metna.

Skráðu þig á póstlista Fræðslumiðstöðvarinnar