Samstarf Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins, Fjölmenntar og Vinnumálastofnunar

Undanfarin ár hefur verið mikil umræða um skort á starfstengdu námi fyrir fólk með þroskaröskun og aðrar skyldar raskanir. Haustið 2022 hófst samstarf Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins, Fjölmenntar og Vinnumálastofnunar (VMST) um hæfnigreiningu á þremur störfum sem það fólk starfar við í dag. Það eru störf fyrir fólk með skerta starfsgetu sem nýtur þjónustu VMST, atvinna með stuðningi. VMST leitar stöðugt að nýjum atvinnutækifærum fyrir þennan hóp sérstaklega m.t.t. nokkuð örrar þróunar á þeim störfum sem um ræðir en mörg störf hafa horfið vegna sjálfvirknivæðingar.

Hæfnigreining starfa felst í því að kortleggja og skilgreina þá hæfni sem mikilvægast er að starfsfólk búi yfir til að ná árangri í starfi og byggir aðferðafræðin á þátttöku fólks sem gegnir viðkomandi starfi.

Við val á störfum til hæfnigreiningar var fyrst litið til þess hvar fjöldinn væri mestur í starfi. Lokið hefur verið við hæfnigreiningu tveggja starfa; starfs á hjúkrunarheimili og starfs á lager/vöruhúsi. Þá er hæfnigreining á starfi við endurvinnslu langt komin um þessar mundir.

Niðurstöður úr hæfnigreiningunum verða nýttar við undirbúning og gerð á námskrám, námskeiðum og sjálfsmatslista fyrir raunfærnimat.

Á myndinni eru þátttakendur í hæfnigreiningu starfs á lager frá sl. vori ásamt starfsmönnum FA.