Árið 2019 kom út skýrslan Hæfni er grunnur að gæðum á vegum Hæfniseturs ferðaþjónustunnar og Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins. Í skýrslunni var birt niðurstaða greiningar á námsþörfum fyrir starfsfólk í ferðaþjónustu, í takti við þá staðreynd að framboð á viðurkenndu og hagnýtu starfsnámi (sem fram fer á vinnustað og í skóla) þarf að aukast til muna. Frá því greiningin fór fram hafa Hæfnisetrið og FA unnið að því að koma á slíku námi. Svo fór að menntamálaráðuneytið gerði samning við Fjölbrautaskóla Austur-Skaftafellssýslu um gerð námskrár, meðal annars í samstarfi við FA.
Samstarfið leiddi af sér að skrifuð var námskrá sem byggir á sameiginlegum grunni auk sérhæfingar. Lagt var upp með þrenns konar sérhæfingu en FA hefur nú þegar skrifað þá fjórðu. Sérhæfing í boði er: Móttaka – Veitingar – Fjallamennska – Böð, lindir, lón.
Samstarfið sem nú er komið á snýst um að ákveðnir framhaldsskólar, gjarnan í samstarfi við símenntunarmiðstöð, vinni að framkvæmd námsins. Gert er ráð fyrir að mestur hluti námsins fari fram með rafrænum hætti en þó verði um staðlotur að ræða innan hverrar sérhæfingar. Grunnurinn er 40 einingar og sérhæfing 50, svo fyrsta mögulega útskrift er á hæfniþrepi 2, alls 90 einingar. Gert er ráð fyrir að fólk geti að því loknu haldið áfram störfum eða hafið störf í ferðaþjónustu. Einnig er fyrir hendi að halda áfram námi og þá er möguleiki á útskrift af hæfniþrepi 3, alls 160 einingar. Frekara framhald er svo fyrirhugað í tengslum við (fag)háskólastig.
Nú er nánast allt til reiðu og komið á samstarf milli FA, nokkurra framhaldsskóla innan og utan höfuðborgarsvæðis ásamt nokkrum símenntunarmiðstöðvum. Það samstarf felur í sér keyrslu á náminu sem heild.