Hugtakalisti

Evrópski tungumálaramminn
Skiptir nemum á þrjú svið (A, B, C) sem svo er skipti á sex stig (A1, A2; B1, B2; C1, C2 – A er byrjandi, B er sjálfstæður, C er fær notandi). Hvert stig lýsir hvað nemi á að geta gert í lestri, hlustun, tali og ritun. Stigunum er lýst í töflu þar sem hverju sviði er lýst.

Hæfniviðmið
Skulu vera mælanleg og mæla þá hæfni sem nemar þurfa að búa yfir að námi loknu, þau lýsa færni/stöðu námsfólks við námslok.

Lokaverkefni
Er mögulega hluti af því að ljúka námi sem lýst er í námskrá.

Matsblöð
Eru fyrir hvern námsþátt í námskeiði, við mat á hæfniþáttum náms.

Námsdagbók
Er til að skipuleggja nám og störf og til að meta aðferðir og árangur náms jafnóðum. Nemi skrifar reglulega (daglega) eigin túlkun á því sem fram fer í náminu og þess á milli til íhugunar og upprifjunar.

Námskeið
Er að lágmarki 40 klst. vinnuframlag námsmanns. Hægt er að skipta námskeiði í minni einingar en staðfest námslok fyrir námskeið fást ekki fyrr en því er að fullu lokið.

Námskrá
Er yfirlit yfir tímalengd náms, námsþætti og samsetningu ásamt lýsingu á náminu og skipulagi þess. Tilgreint er hvort og að hve stórum hluta ef um starfsnám er að ræða.

Námsleið
Inniheldur námsþætti úr staðfestri/vottaðri námskrá sem hefur verið brotin upp svo aðeins hluti námsþátta úr námskrá er notaður sem sérstök námsleið. Námsþættir úr námskrá sem brotin er upp á þann hátt verður ekki breytt, hvorki að lengd, innihaldi eða hæfniviðmiðum.

Námslok
Skipulag náms sem tengt er við hæfniþrep, fagbréf eða álíka.

Námslýsing
Samanstendur af námskeiðum og er dæmi um útfærslu námskrár. Getur einnig innihaldið ítarlegri upplýsingar og leiðbeiningar um námsmat. Gera má fleiri en eina námslýsingu við sömu námskrá.

Námsmat
Er kerfisbundið ferli við að finna út hvort og að hvaða marki nemar hafa náð markmiðum náms (námsárangri sem að er stefnt). Námsmatsferlið felur í sér mælingar og matsaðferðir sem ekki flokkast undir mælingar (t.d. óformlegar vettvangsathuganir). Við námsmat er þessum aðferðum beitt til að lýsa breytingum sem verða á nemum og til að meta hve æskilegar þær eru.

Námsstaður
Er þar sem kennsla á námskeiði fer fram s.s. hjá:

  • viðurkenndum fræðsluaðila í hefðbundnu námsumhverfi og rafrænu námsumhverfi
  • í bland hjá viðurkenndum fræðsluaðila og í starfi á vinnustað (sem vinnustaðanám/starfsþjálfun/námstími)
  • alfarið í starfi á vinnustað (sem vinnustaðanám)
  • í hefðbundnu/rafrænu námsumhverfi en hjá öðrum en þeim fræðsluaðila sem stýrir náminu.

Námstími
Er heildar vinnuframlag sem nemi ver í nám sitt. Námstíma er skipt milli tíma í fræðslu og viðbótar framlag utan kennslu (sjálfstætt nám/heimavinna).

Námsþáttur
Er heildstæð lýsing á innihaldi (áfanga) eins og fram kemur í námskrá.

Starfsnám
Er þjálfun til virkni og ábyrgðar sem fagfólk, stuðlar að og eykur fagmennsku í starfi.
– Starfsþjálfun: nemi fær tækifæri til að þjálfa verkþætti og verkferla sem hafa verið kenndir. Nemi á að geta sýnt meiri ábyrgð og sjálfstæði í vinnubrögðum en þegar um vinnustaðanám er að ræða.
– Vinnustaðanám: [efla, þekkingu, færni og skilning] nám og vinna með markvissri, skipulagðri fræðslu, leiðsögn og eftirliti. Auknar kröfur eru um markvissa, skipulagða fræðslu, leiðsögn og eftirlit en þegar um starfsþjálfun er að ræða.
Vinnustaðanám og starfsþjálfun á vinnustað snýst um þjálfun í að beita aðferðum og verklagi sem kennt hefur verið.

Starfsreynsla
Er staðfestur tími sem hlutaðeigandi hefur sinnt starfinu sem námið undirbýr fyrir eða starfi sem telst vera „undanfari“ þess starfs.

Starfsþjálfi
Er aðili skipaður á vinnustað sem styður við nám/þjálfun nema á vinnustað með markvissum hætti í samstarfi/samráði við skipuleggjanda/ábyrgðaraðila náms. Starfsþjálfi fylgir skipulögðu ferli innan markmiða náms sem lýst er í námskrá eða í þjálfunaráætlun.

Verkdagbók
Er verkfæri til að meta eigin námsframvindu. Í verkdagbók safna nemar öllum gögnum úr náminu (m.a. námsdagbók, verkefnum og matsblöðum). Gerir nemum kleift að halda utan um þekkingu, leikni og hæfni sem ávinnst á námstíma og auðveldar nemum og leiðbeinendum að meta hvort námið skili tilætluðum árangri.

Viðurkenndur fræðsluaðili
Er aðili í framhaldsfræðslu sem hlotið hefur formlega viðurkenningu mennta- og menningarmálaráðuneytisins til að annast námskeiðahald, raunfærnimat, náms- og starfsráðgjöf.

Skráðu þig á póstlista Fræðslumiðstöðvarinnar