Næsta skref lokar

Upplýsinga- og ráðgjafarvefnum Næsta skref (www.naestaskref.is) verður lokað þann 1. apríl næstkomandi. Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, sem hefur staðið ein að kostnaði við vefinn síðan 2021, hefur leitað allra leiða til að halda rekstri hans áfram en án árangurs. Viðræður við Menntamálastofnun og áköll til mennta- og barnamálaráðuneytis, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis auk félagsmála- og vinnumarkaðsráðuneytis hafa ekki skilað árangri.

Auknum kröfum um þjónustu við sístækkandi og fjölbreyttari hóp notenda fylgir kostnaður vegna reksturs, viðhalds og þróunar. Sem dæmi þá hefur fjöldi notenda vaxið úr um 20.000 á ári í tæplega 70.000.

Næsta skref hefur gegnt veigamiklu hlutverki í að miðla upplýsingum um störf og námsleiðir og fest sig í sessi. Vefurinn hefur vakið athygli út fyrir landsteinana og hafa komið fyrirspurnir erlendis frá um hvernig svo vel hafi tekist að ná til almennra notenda. Sambærileg vefsvæði er að finna í flestum löndum OECD í anda þeirrar áherslu að hafa aðgengilegar stafrænar veitur á netinu til stuðnings upplýstu náms- og starfsvali. Slík vefsvæði eru einn hornsteinn jafnra tækifæra fólks til þátttöku í flóknu samfélagi 21. aldar.

Við hvetjum stjórnvöld til að tryggja aðgengi að réttum og viðeigandi upplýsingum um nám og störf og að þær verði áfram til staðar fyrir nemendur, foreldra, náms- og starfsráðgjafa í grunn-, framhalds-, háskólum og framhaldsfræðslunni. Það má gera annað hvort með áframhaldandi rekstri og þróun Næsta skrefs eða með því að leita annarra sambærilegra leiða. 

Skráðu þig á póstlista Fræðslumiðstöðvarinnar