Fræðslumiðstöð atvinnulífsins hefur skilgreint 11 hæfniþætti sem saman mynda almenna starfshæfni á íslenskum vinnumarkaði. Þeir eru þrepaskiptir í samræmi við hæfniramma um íslenska menntun.
Þeir hæfniþættir sem mynda almenna starfshæfni eru úr hæfnigrunni FA.
Aðlögunarhæfni
Lagar sig að aðstæðum eftir þörfum til að ná árangri í síbreytilegum aðstæðum og í vinnu með mismunandi einstaklingum og hópum.
Ábyrg nýting
Nýtir verðmæti á hagkvæman og skynsamlegan hátt til að ná markmiðum.
Árangursrík samskipti
Hlustar á aðra, tjáir sig skýrt og stuðlar að opnum samskiptum.
Jafnréttisvitund
Nýtir eigin gildi og þekkingu til að vinna á árangursríkan hátt með ólíkum einstaklingum með fjölbreyttan bakgrunn við margskonar aðstæður
Mat og lausnir
Vegur og metur hugmyndir og upplýsingar á hlutlægan hátt við ákvarðanatöku.
Notkun upplýsingatækni
Notar upplýsingatækni/tölvutækni til að framkvæma verk sín.
Skipulag og áætlanir
Þróar, innleiðir, metur og aðlagar áætlanir til að ná settum markmiðum.
Samvinna
Vinnur með öðrum til að ná markmiðum fyrirtækis.
Starfsþróun og færniefling
Greinir og tekur á eigin þörf fyrir símenntun og þróun til að bæta eigin frammistöðu í starfi.
Söfnun og úrvinnsla upplýsinga
Finnur og dregur saman upplýsingar frá viðeigandi aðilum/heimildum og kynnir sér þær í þeim tilgangi að geta greint frá þeim á skilmerkilegan hátt.
Vinnusiðferði og gildi
Fer eftir og styður starfs- og siðareglur vinnustaðarins.
Almenn starfshæfni er:
- Sú hæfni sem einstaklingur þarf að búa yfir eða tileinka sér til þess að taka á virkan hátt þátt í samfélaginu, vera á vinnumarkaði og þróast í starfi.
- Mikilvæg í öllum störfum vinnumarkaðarins.
- Yfirfæranleg og má flytja í annað samhengi og milli mismunandi starfa og starfsgreina.
Fyrir hin ýmsu störf eru að auki aðrar hæfnikröfur sem eru sértækar.
Nýting almennrar starfshæfni
Almenn starfshæfni kemur við sögu í öllum nýjum starfstengdum námskrám FA og unnin hafa verið raunfærnimatsverkefni þar sem starfshæfni fólks er metin. Sjá nánar á næstaskref.is
Með því að skilgreina almenna starfshæfni á hlutlægan hátt og gera hana mælanlega verður umræðan og notkunin gagnlegri fyrir einstaklinga, atvinnulíf og fræðslustofnanir.
Skilgreining viðmiða fyrir almenna starfshæfni var upphaflega unnin í samráði við aðila frá samtökum launafólks, stéttarfélögum, fyrirtækjum, Vinnumálastofnun, Kvasi og FA. Viðmiðin eru endurskoðuð reglulega og núverandi skilgreining var unnin í apríl 2021.
Fjöldi fólks hefur fengið almenna starfshæfni sína metna með raunfærnimati.