STAFRÆN ÞRÓUN
MENNTADAGUR ATVINNULÍFSINS 25. apríl 2022
Viltu efla hæfni þína eða starfsmanna þinna?
Fræðslumiðstöð atvinnulífsins (FA) þróar verkfæri sem nýtast atvinnulífinu við að:
- Greina hæfnikröfur starfa
- Meta færni starfsfólks í samræmi við hæfnikröfurnar
- Þjálfa og fræða starfsfólk út frá þörfum
- Hvetja og styðja starfsfólk til að afla sér símenntunar
Samstarfsaðilar FA eru fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar um land allt.
VERKFÆRI FRAMHALDSFRÆÐSLUNNAR
Hæfnigreiningar
Með hæfnigreiningu starfa verða hæfnikröfur starfanna sýnilegar og geta þar með stutt við:
- ráðningar og starfsþróun
- starfstengdar námsleiðir
- raunfærnimat
Þróuð hefur verið rafræn leið til hæfnigreiningar sem eykur möguleika á þátttöku óháð búsetu.
Senda inn beiðni um hæfnigreiningu
Raunfærnimat
Mat á raunfærni byggir á þeirri hugmynd að nám fari fram við margs konar aðstæður og í ólíku samhengi en ekki eingöngu í skóla. Raunfærnimat veitir staðfestingu á færni einstaklinga óháð því hvernig hennar hefur verið aflað. Niðurstöður raunfærnimats eru nýttar til að stytta nám eða sýna fram á og auka færni á vinnumarkaði. Raunfærnimat er öflugur hvati fyrir einstaklinga til enn frekari hæfniþróunar í starfi og/eða til áframhaldandi náms.
Sýnileiki á færni einstaklinga er mikilvæg fyrir atvinnulíf, bæði fyrir stjórnendur fyrirtækja og starfsmenn og leiðir til:
- Markvissari uppbyggingu á færni í takt við þarfir, bæði utan og innan skólakerfa
- Að horft sé til staðfestrar færni vegna starfsþróunar, launaákvarðana og við ráðningar í störf
- Að störfum sé sinnt af starfsfólki með færni við hæfi sem hefur áhrif á gæði og framleiðni
- Aukinnar getu til að takast á við breytingar á vinnumarkaði
FA hefur unnið að þróun rafræns umsýslukerfis um raunfærnimat í samvinnu við Advania og Iðuna, sem leiðir verkefnið. Þegar nýja kerfið verður tekið í notkun þá mun allt ferlið geta farið fram í stafrænu umhverfi þegar það á við.
Nánari upplýsingar um hvaða störf og nám er hægt að meta til raunfærnimats
Námsleiðir
Námsleiðunum er ætlað að koma til móts við og byggja upp hæfniþarfir sem skapast í atvinnulífinu. Þær eru unnar út frá hæfnigreiningum. Í námsleiðunum er lögð áhersla á persónubundna og starfstengda hæfni sem gerir fólki kleift að þróa starfshæfni sína.
Nýjustu námsleiðunum er ætlað að styðja við færnieflingu í ferðaþjónustu og einnig er boðið upp á þær í raunfærnimati. Þær eru:
- Ferðaþjónusta I
- Ferðaþjónusta II
- Ferðaþjónusta – Móttaka á gististöðum
- Ferðaþjónusta – Veitingasalur
Nánari upplýsingar um fræðsluaðila sem bjóða upp á nám samkvæmt námsleiðum FA er að finna hér.
Ráðgjöf
Fyrirtæki geta leitað eftir samstarfi við fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar um ráðgjöf fyrir starfsfólk sitt. Þar gefst meðal annars kostur á að draga fram áhugasvið og styrkleika starfsfólks og finna leiðir til hæfniþróunar. Þannig getur fólk dafnað betur í starfi og viðhaldið hæfni í takt við þarfir.
Hjá FA finnur þú einnig:
Næstaskref.is
Upplýsingavefur um störf á íslenskum vinnumarkaði, námsframboð, ráðgjöf og raunfærnimatsleiðir.
Þar finnur þú starfslýsingar fyrir um 300 störf og tengingu þeirra við námsleiðir hvort tveggja í formlega skólakerfinu og innan framhaldsfræðslunnar.
Ef þú finnur ekki starfslýsingu fyrir þitt starfsfólk á síðunni er hugsanlega kominn tími fyrir hæfnigreiningu.
EQM/EQM+ Gæðavottun
FA býður upp á EQM/EQM+ gæðavottun fyrir fræðsluaðila í fullorðinsfræðslu og fræðsludeildir fyrirtækja og stofnana.
Vottunin gagnast öllum þeim sem skipuleggja, bjóða upp á, meta og nota símenntun og fullorðinsfræðslu. Þar á meðal atvinnurekendum, fræðslusjóðum stéttarfélaga, fræðsluaðilum og síðast en ekki síst námsmönnunum sjálfum sem sækjast eftir því að þjónustan uppfylli þeirra eigin kröfur og væntingar um gæði.
Innifalið í gæðavottun er:
- Aðgangur að og notkun rafrænna gagna EQM/EQM+
- Ein úttekt vegna EQM vottunar, þ.e. heimsókn matsaðila, ferðakostnaður vegna heimsóknar og ritunar úttektarskýrslu
- Vottunarskírteini
- EQM merki á rafrænu formi til notkunar á kynningarefni
Nánari upplýsingar má nálgast hjá frae@frae.is
Kanni.is
Kanni er rafrænt greiningartæki sem auðveldar fyrirtækjum að senda út kannanir til starfsfólks, svo sem könnun á þörf fyrir fræðslu eða starfsánægjukönnun. Í Kanna eru tilbúin sniðmát í 12 flokkum og á þremur tungumálum sem hægt er að nýta sér. Þú getur líka búið til þína eigin könnun.
Kanni er aðgengilegur á heimasíðu Hæfniseturs ferðaþjónustunnar ásamt leiðbeiningum um notkun.
Hæfnisetrið er vistað hjá FA og fjármagnað af menningar- og viðskiptaráðuneytinu.
Fræðslugátt
Úrval námskeiða í boði fjölbreyttra fræðsluaðila. Þú getur auðveldað þér leitina með því að velja þitt fræðslusvið.