Fagbréf atvinnulífsins fyrir öryggisverði

Í síðustu viku fór fram afhending Fagbréfa atvinnulífsins til 14 öryggisvarða hjá Securitas.

Þetta er í fyrsta sinn sem starf öryggisvarða fer í gegnum slíkt ferli, en það veitir staðfestingu á þeirri færni og þekkingu sem öryggisverðir búa yfir.

Hæfniviðmið sem nýtt voru í matsferlinu byggjast á hæfnigreiningu og starfaprófíl frá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins  (FA) sem þjálfaði jafnframt matsaðila úr fyrirtækinu. Verkefnastýring heildarferlisins með þátttakendum, í samstarfi við Securitas, var í umsjón símenntunarmiðstöðvarinnar Mímis.

Eiríkur Ronald Jósepsson, sérfræðingur og annar matsaðila í ferlinu opnaði samkomuna og talaði um að vel hefði gengið og mikill ávinningur hafi verið af ferlinu með auknum sýnileika á færni öflugs starfsfólks hjá Securitas. Hann sagði jafnframt að raunfærnimatið sem leiðir til Fagbréfs undirstriki mikilvægi starfa öryggisvarða og sé ekki síður mikilvægur áfangi fyrir starfsgreinina sem heild.

Maj-Britt H. Briem, lögmaður á vinnumarkaðssviði hjá Samtökum atvinnulífsins (SA) ávarpaði samkomuna einnig og fór yfir sýn SA á að Fagbréf atvinnulífsins verði fest í sessi til þess að auka sýnileika á færni og efla starfsþróun, starfsfólki og fyrirtæki til heilla.

Kristín Erla Þráinsdóttir, verkefnastjóri hjá Mími og Baldur Þór Gunnarsson, framkvæmdastjóri gæslusviðs afhentu þátttakendum Fagbréfin.

Athöfnin var hátíðleg og boðið upp á veitingar í lokin þar sem fólk gat notið samverunnar í húsakynnum Securitas.

Sjá upplýsingar um Fagbréf atvinnulífsins hér á vef FA

Frá afhendingu Fagbréfanna:

Skráðu þig á póstlista Fræðslumiðstöðvarinnar