Vilji til samstarfs um Fagbréf atvinnulífsins

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins (FA) fagnaði 20 ára afmæli sínu þann 1. nóvember með afmælisfundi og tóku yfir 100 manns þátt í fundinum á staðnum og í streymi. Fundurinn var haldinn í samstarfi við NVL – Norræns tengslanets um nám fullorðinna, undir yfirskriftinni Fagbréf atvinnulífsins.   

Aðaláhersla fundarins var kynning á nýju verkfæri innan framhaldsfræðslunnar ,, Fagbréfi atvinnulífsins”.  Fagbréfið  veitir starfsfólki staðfestingu á færni sinni og fyrirtækjum  og stofnunum yfirsýn yfir færni mannauðs síns.  

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra talaði um að mikilvægi vinnustaða hvað varðar nám, þjálfun og markvissa hæfniuppbyggingu ætti eftir að aukast á næstu árum. Þá lagði hann áherslu á mikilvægi þess að meta það nám og hæfni sem fólk með erlendan bakgrunn hefur með sér, þannig að fólk fái vinnu sem hæfir þeirra hæfni og að FA væri miðlægur aðili með verkfæri til að bregðast meðal annars við þeirri áskorun. 

Einnig kom hann inn á að framhaldsfræðslan þyrfti að fá skýra stöðu meðal annarra sí- og endurmenntunarkosta sem sérstök stuðningsaðgerð stjórnvalda og að hún sé vel nýtt af þeim sem þurfa á henni að halda. Nýtt frumvarp til laga um framhaldsfræðslu mun verða lagt fram á haustþingi næsta árs í kjölfar víðtæks samráðs. Þá sagði ráðherra á fundinum:  

,,Ég fæ ekki betur séð en að samstarfið sem hefur þróast í kringum Fræðslumiðstöðina í gegnum tíðina og sú sameiginlega sýn sem hefur mótast í kringum starfið hafi bæði skilað góðum árangri og búið til verðmæta þekkingu sem við eigum að halda áfram að byggja á. Við þurfum að ræða hvernig framhaldsfræðslan nær best til fólks og fyrirtækja og hvernig hún tekur þátt í að auka velferð og lífsgæði og skapa vermæti fyrir samfélagið”. 

Ingibjörg E. Guðmundsdóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri FA stiklaði á stóru varðandi grunninn að stofnun FA í sameiningu aðila atvinnulífsins og þróun verkfæra á vettvangi framhaldsfræðslunnar.  

Ingegerd Green, ráðgjafi og sérfræðingur á sviði stefnumótunar og færniþróunar í atvinnulífinu kynnti uppbyggingu raunfærnimatskerfis og hæfnivottunar í sænskum iðnaði. Kerfið miðar að því að styrkja stöðu fólks í starfi og á vinnumarkaði samhliða því að efla samkeppnishæfni og gæði náms. Kerfinu er haldið uppi í víðtæku samstarfi atvinnurekenda og stéttarfélaga sem eiga sameiginlegra hagsmuna að gæta hvað varðar færni og samkeppnishæfni í atvinnulífinu. Ingegerd talaði um að það væru engin ”auðveld” störf til lengur, þau væru öll flókin í sjálfu sér og fælu í sér þörf á skýrri sýn á hæfnikröfur. Þá hefði formlega skólakerfið ekki alltaf svigrúm til að bregðast skjótt við. 

Í pallborði komu saman fulltrúar frá Starfsgreinasambandinu, BSRB, VR, Félagi tæknifólks, Samtökum verslunar og þjónustu, Samtökum ferðaþjónustunnar og Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi. Þar var rætt um ávinninginn af Fagbréfi tengdu hæfni í starfi og kom fram mikill áhugi á því að vinna því brautargengi. Fram kom að brýnt sé að greina hæfni í nánu samstarfi við fyrirtækin og bjóða upp á snarpa þjálfun í samræmi við niðurstöður.   

Þar sem vinnumarkaðurinn tekur örum breytingum er mikilvægt að færni til starfa sé sýnileg og staðfest. Í því felst ávinningur fyrir fyrirtæki/stofnanir og stafsfólk og eru Fagbréf atvinnulífsins leið til þess.  

Kynningamyndband um Fagbréf atvinnulífsins:
Horfa á afmælisfundinn:

Skráðu þig á póstlista Fræðslumiðstöðvarinnar