Afmælisfundur FA 1. nóvember

FAGBRÉF ATVINNULÍFSINS – Verkfæri til framtíðar 

Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins (FA) fagnar 20 ára afmæli í ár. Til að fagna tímamótunum verður boðið til afmælisfundar í samstarfi við Norræna tengslanetiðu um nám fullorðinna, NVL. Fundurinn fer fram í Háteigi á Grand Hótel Reykjavík, þriðjudaginn 1. nóvember, kl. 11-13. Boðið verður upp á léttan hádegisverð fyrir fólk sem mætir á staðinn. Fundinum verður einnig streymt. 

Á tímum hraðra breytinga erum við stöðugt að læra og þróa lausnir. Til að færni fólks nýtist til frekari hæfniþróunar þarf að draga hana fram og staðfesta. Starfsemi FA snýst um að þróa leiðir og verkfæri sem stuðla að slíku. Staðfesting á færni í starfi sem byggir á raunfærnimati er að ryðja sér til rúms víða í Evrópu. Svíar hafa verið í fararbroddi í þeirri þróun. 

Á fundinum fáum við meðal annars innsýn í stöðu mála í Svíþjóð í erindi Ingegerd Green, ráðgjafa og sérfræðingi á sviði stefnumótunar og færniþróunar í atvinnulífinu hjá SKTC/Raunfærnimat í sænskum iðnaði. Hún mun lýsa hvernig aðilar iðnaðarins þar í landi hafa í samstarfi þróað og komið á farsælu raunfærnimatskerfi, færniþróun og færnimarkþjálfun í iðnaði á landsvísu. Verkfæri sem efla samkeppnishæfni og gæði náms. Hún ætlar að lýsa dæmum frá fyrirtækjum þar í landi sem nýta sér raunfærnimat til hæfniþróunar og hvernig starfsfólk styrkir stöðu sína í starfi og á vinnumarkaði með viðurkenndri hæfnivottun starfsgreinar. Jafnframt dregur hún fram helstu áskoranir og vandamál sem þarf að leysa til að mæta þeirri miklu áskorun sem vinnumarkaðurinn stendur frammi fyrir varðandi framboð á hæfu starfsfólk. Staða sem kallar á víðtæka uppfærslu á færni og símenntun með aðgengi að raunfærnimati og færniþróun á vinnustað – sem mun ráða úrslitum. 

Aðal inntak fundarins að rýna í Fagbréf atvinnulífsins, sem FA hefur þróað í samstarfi við hagsmunaaðila, og ávinninginn af því ferli sem liggur að baki. Þórhildur Þórhallsdóttir, starfsmannastjóri Sláturfélags Suðurlands og Olga Mörk Valsdóttir, verksmiðjustjóri SS munu lýsa reynslu félagsins af ferlinu. Umræður fara síðan fram í pallborði með fulltrúum samtaka atvinnurekenda og samtaka verkalýðsfélaga þar sem ávinningur og áskoranir verða ræddar. Fundastjóri er Eyrún Valsdóttir, formaður stjórnar FA. 

Þátttakendur í pallborði verða Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu (SVÞ), Jakob Tryggvason, formaður Félags tæknifólks (FTF), Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF), Heiðrún Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), Arna Jakóbína Björnsdóttir, varaformaður BSRB, Stefán Sveinbjörnsson, framkvæmdastjóri VR og Finnbogi Sveinbjörnsson, fulltrúi Starfsgreinasambandsins (SGS).

DAGSKRÁ

Opnun:
Eyrún Valsdóttir, formaður stjórnar FA

Ávarp
Guðmundar Inga Guðbrandssonar, ráðherra félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins
 
Stiklað á stóru:
Ingibjörg E. Guðmundsdóttir, fv. framkvæmdastjóri FA
 
Hæfnivottun í sænskum iðnaði:
Ingegerd Green, ráðgjafi á sviði færniþróunnar
 
Kynning á Fagbréfi atvinnulífsins:
Hildur Betty Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri FA
 
Reynsla Slátursfélags Suðurlands af Fagbréfi atvinnulífsins:
Þórhildur Þórhallsdóttir, starfsmannastjóri SS og Olga Mörk Valsdóttir, Verksmiðjustjóri SS

Pallborð

Skráðu þig á póstlista Fræðslumiðstöðvarinnar