Raddir ungra innflytjenda (18-35 ára) voru viðfangsefni Norrænnar ráðstefnu sem Fræðslumiðstöð atvinnulífsins (FA) hafði umsjón með sl. fimmtudag, 11. maí 2023. Áhersla var á að draga fram fjölbreytt sjónarhorn, helstu áskoranir og lausnir.
Yfir 80 sérfræðingar frá Íslandi og hinum Norðurlöndunum komu saman til að vinna að lausnum innan verkefnisins Raddir ungra innflytjenda – inngilding í nám, störf og samfélag. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, ráðherra félags- og vinnumarkaðs, flutti ávarp og lagði áherslu á mikilvægi samstarfs hagsmunaaðila. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ráðherra háskóla, iðnaðar og nýsköpunar var einnig með ávarp og lagði áherslu á að meta færni innflytjenda og bæta aðgengi að háskólanámi. Framkvæmdastjóri Norrænu velferðarmiðstöðvarinnar kynnti niðurstöður rannsókna á Norðurlöndum og sýndi samanburð á stöðu mála út frá ákveðnum þáttum. Sérfræðingar frá Noregi, Svíþjóð og Danmörku kynntu stöðu mála út frá tengingu vinnumarkaðs, náms og samfélags við leiðir til auknar inngildingar.
Þá voru dregin fram megin þemu úr vinnu með bakhópi verkefnisins sem eru hagsmunaaðila í málaflokknum hér á landi og niðurstöðum úr fimm rýnihópum með ungum innflytjendum sem haldnir voru á fimm landsvæðum í samstarfi við símenntunarmiðstöðvar.
Meðal annars kom fram að það er skortur á fyrstu upplýsingagjöf til innflytjenda og að þörf er á rýmum þar sem fólk getur hist óformlega til að ræða saman. Bæta má nýliðaþjálfun á vinnustöðum fyrir innflytjendur, bjóða upp á íslenskunám samhliða vinnu og bæta leiðir við að meta nám og færni.
Þá var rætt um ”blinda bletti” í umræðunni um innflytjendur á meðal hagsmunaaðila og skorti á vandaðri stefnu sem tekur tillit til ólíkra þarfa. Dæmi um nokkra ”blinda bletti” sem fram komu er skortur á samstarfi og samhæfingu á milli þjónustuaðila, að ekki sé leitað til innflytjenda varðandi mótun þjónustu og ofur áhersla á íslenskukennslu sem lausn allra mála.
Eftir hádegi var unnið í blönduðum hópum á borðum við að greina helstu áskoranir og reynt að draga fram lausnir. Næstu skref í verkefninu eru að móta þær hugmyndir sem fram komu þannig að hægt sé að prófa þær á vettvangi og jafnframt að kynna vinnulag hönnunarhugsunar við mótun þjónustu þar sem raddir fólksins eru í brennidepli.
Efni af ráðstefnunni má finna hér
Verkefnið er hluti af formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni árið 2023. FA og NVL (Norrænt tengslanet um nám fullorðinna) leiddu verkefnið í samstarfi við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið og mennta- og barnamálaráðuneytið.