Select Page

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins

Erlendir samstarfsaðilar og yfirstandandi samstarfsverkefni

Norrænt tengslanet um nám fullorðinna (Nordic Netværk for Voksnes Læring)

NVL er norrænt tengslanet um nám fullorðinna (www.nvl.org) og norrænn vettvangur fullorðinsfræðslu þar sem athygli er beint að nýsköpun, miðlun og árangri. NVL hvetur til samræðu á milli aðstandenda ólíkra tengslaneta, kemur á nýjum netum og eflir framlag þeirra til norræns samstarfs. Antra Carlsen er framkvæmdastjóri NVL og höfuðstöðvar eru hjá VIA University College sem er staðsettur í Århus í Danmörku. Fulltrúi Íslands er Bryndís Skarphéðinsdóttir, sérfræðingur hjá FA

Íslendingar taka þátt í fjölmörgum undirnetum NVL þar á meðal starfmenn FA, en þeir taka þátt í vinnu neta um raunfærnimat, ráðgjöf fullorðinna, grunnleikni og hæfni leiðbeinenda (vinnuhópur).

Nordplus verkefni: KIAL – Starfs- og námsráðgjöf og hæfni í atvinnulífinu

Verkefnið Starfs- og námsráðgjöf og hæfni í atvinnulífinu (Karrierevejledning og kompetencer i arbejdslivet – KIAL) snýr að starfsferilsráðgjöf fyrir fullorðna á vinnumarkaði þar sem þörf fyrir símenntun og starfsþróun eykst samfara hröðum breytingum í atvinnulífinu.  Sýnd verða fjölbreytt dæmi um starfsferil fólks þar sem lögð er áhersla á að draga fram hvernig einstaklingur getur nýtt hæfni sína á nýjum starfsvettvangi og/eða í annarskonar starfi og hvernig atvinnulíf og menntun spilar saman.

Í öðrum hluta verður skoðað hvers konar hæfni og þekking er mikilvæg fyrir ráðgjafa til að sinna fullorðnum á vinnumarkaði og þær aðferðir og tæki sem best henta fyrir starfsferilsráðgjöf við fólk sem vill eða þarf að breyta til eða skipta um starfsvettvang.  Verkefninu mun síðan ljúka með því að boðið verður upp á námskeið fyrir norræna ráðgjafa þar sem afurðir þess verða kynntar og prófaðar.

Samstarfsaðilar í KIAL verkefninu eru auk FA, frá Finnlandi og Danmörku.  Í hverju landi er hópur sérfróðra ráðgjafa frá atvinnulífinu og mismunandi skólastigum sem ráðgefandi aðilar, auk fulltrúa í NVL neti um ráðgjöf fullorðinna, en þátttakendur í verkefninu eru jafnframt fulltrúar í því neti.

Heimasíða verkefnisins: https://www.kial.nu/

Erasmus+ verkefni: Enterprised – Betri tenging atvinnulífs og fræðslu 

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins (FA) leiðir Erasmus verkefnið Enterprised í samstarfi við fullorðinsfræðsluaðila frá Austurríki, Noregi og Spáni. Verkefnið hófst í september 2019 og lýkur í ágúst 2021. Í verkefninu er lögð áhersla á efla og þróa hæfni leiðbeinenda í fullorðinsfræðslu í að miðla árangursríku og starfstengdu námi til fólks á vinnumarkaði um áskoranir í daglegum störfum í ferðaþjónustu í samstarfi við atvinnurekendur í ferðaþjónustu.

Unnið verður að þróun þriggja afurða í verkefninu:

1. Raundæmi úr atvinnulífinu 
Algeng raundæmi dregin fram úr ferðaþjónustugeiranum með áherslu á atvik sem starfsfólk þarf að læra á fyrstu sex mánuði sína í starfi. Dæmunum er ætlað að draga fram áherslur í starfi þannig að þau nýtist sem hluti af starfstengdu námi eða þjálfun í grunnleikni/almennri starfshæfni.
2. Leiðbeiningar fyrir notkun raundæma við miðlun í námi 
Þróaðar verða leiðbeiningar fyrir notkun raundæma í námi og hvernig megi tengja þau inn í t.d. þjálfun grunnleikniþátta og þjálfun í almennri starfshæfni. Verklegar æfingar verða kynntar.
3. Leiðbeiningar fyrir fræðsluaðila og ferðaþjónustuaðila – vettvangsþjálfun leiðbeinenda í fullorðinsfræðslu 
Þróaðar verða leiðbeiningar fyrir fræðsluaðila og atvinnurekendur í ferðaþjónustu um hvernig skipuleggja megi stuttar vettvangsþjálfunarloturfyrir leiðbeinendur í fullorðinsfræðslu á vinnustöðum. Leiðbeiningarnar munu byggja á þeim grunni að til þess að geta tengt nám við starfstengdar aðstæður þurfiað hafa reglulega beinan aðgang að starfsumhverfinu.

Með þessum þrem afurðum er stefnt að því að efla gæði náms með aukinni hæfni leiðbeinanda í fullorðinsfræðslu og tengingu við atvinnulífið. Þannig eiga námsmenn kost á því að fá þjálfun sem miðast við starfstengdar aðstæður og eru betur í stakk búnir til að mæta þörfum atvinnulífsins.   

Heimasíða verkefnisins: https://enterprised.eu

Erasmus+ verkefni: NOVA

NOVA – Nordic er Evrópuverkefni þar sem kanna á tengingar á milli innlendra hæfniramma (National Qualification Frameworks) og óformlegs náms – hvort og hvernig óformlegt nám fellur að hæfnirammanum og hvort hægt sé að fá hæfni vottaða á þrepi með raunfærnimati. Í verkefninu er óformlegt nám skilgreint sem allt nám sem ekki er hluti af eða vottað í gegnum formlega menntakerfið. 

Óformlegt nám dekkar stóran hluta þeirrar hæfniþjálfunar sem þykir nauðsynleg á vinnumarkaði. Samkvæmt European Inventory (2018) kemur þó fram að lítil þróun hefur verið í Evrópu hvað varðar að tengja óformlegt nám við innlenda hæfniramma, raunfærnimatsferli fyrir óformlegt nám og þróun hæfniviðmiða fyrir óformlegt nám. 

Í verkefninu verða eftirfarandi spurningar til umfjöllunar: 

 • Hverjir hafa umsjón með að þróa óformleg vottað nám og hvernig. Hvort námið sé hluti  af hæfniramma landa, ef svo þá hvernig? 
 • Hvernig eru hæfniviðmið unnin og nýtt fyrir þróun vottunar, er gert ráð fyrir að raunfærnimatsferli séu hluti af því? 
 • Hver er tengingin á milli hæfniramma og raunfærnimats? 

Í verkefninu verða sett fram viðmið til að bera saman stöðu mála í nokkrum löndum og gerð samanburðarkönnun byggt á þeim. Dregin verða fram fyrirmyndardæmi um hvernig tengja megi óformlegt nám inn á hæfniramma og útbúinn grunnur að ferlum og verkfærum við að þróa óformlegt nám til vottunar sem og hæfniviðmið sem nýta má í raunfærnimati. 

Samstarfsaðilar eru Landsskrifstofa fagháskóla í Svíþjóð sem leiðir verkefnið, GlobEdu í Finnlandi og Fræðslumiðstöð atvinnulífsins á Íslandi. 

Heimasíða verkefnisins: https://www.myh.se/novanordic  

Erasmus+ verkefni: Comm(on)-line

Comm(on)-line er Erasmus+ verkefni sem FA tekur þátt í.

Verkefnið miðar að því að skapa, leiðbeina og styðja við námssamfélög á netinu. Í verkefninu verður reynt að komast að því hverjar ákjósanlegustu blöndur náms eru: blanda af námi á netinu og nám í kennslustofu, samvinnunám á netinu og samvinnunám í kennslustofunni og blanda af einstaklingsnámi á netinu og samvinnunámi á netinu í hópi. Með því að setja upp nokkur námskeið verður munurinn á hefðbundinni kennslufræði og kennslufræði á netinu kannaður. Þetta verður skoðað með raundæmum, með því að setja upp námssamfélög og skoða niðurstöður.

Verkefnið er leitt af Centrum voor Volwassenenonderwijs Kisp í Gent, Belgíu. Samstarfsverkefnið hófst haustið 2020 og verður til ársins 2022, þátttökulönd eru auk Belgíu, Ísland, Skotland, Spánn og Makedónía.

Erasmus+ verkefni: Transval-EU  

Evrópuverkefni sem ber heitið Transval er eitt stærsta tilraunaverkefni á sviði raunfærnimats til þessa, en í allt eru 16 stofnanir frá 7 löndum  samstarfsaðilar í því. Markmiðið er að betrumbæta raunfærnimat á yfirfæranlegri hæfni (transversal skills) eða almennri starfshæfni. NVL, Norræna tengslanetið um nám fullorðinna, er samstarfsaðili í verkefninu og sérfræðingar hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins styðja NVL við verkefnið. Raunfærnimatsnetið og ráðgjafarnetið hjá NVL eru bakhópar og veita endurgjöf þegar þörf er á, en í þessum netum sitja einnig fjórir starfsmenn FA.

Í Transval verkefninu eru raunfærnimatsverkfæri sem reynst hafa vel í löndum hjá samstarfsaðilum dregin fram. Einnig er þróað nám og þjálfun fyrir fagaðila í raunfærnimati (verkefnastjóramatsaðila og ráðgjafa) í formi hæfniprófíla. Þeir fá þjálfun í hvernig árangursríkast er að raunfærnimeta yfirfæranlega hæfniinnsýn í ákveðna aðferðafræði og verkfæri til að prufukeyra í fimm tilraunalöndum (Litháen, Austurríki, Ítalíu, Belgíu og Póllandi). Rannsóknaraðilar munu útbúa skýrslu með niðurstöðum og aðlaga verkfærakistuna eftir þörfum. Í beinu framhaldi mun NVL í samstarfi við LLLP (Lifelong Learning Platform) vinna að skýrslu með því markmiði að hafa áhrif á stefnumótun og aðgerðaráætlanir varðandi raunfærnimat á yfirfæranlegri hæfni/almennri starfshæfni í Evrópu.

Verkefnið hófst vorið 2021 og því lýkur í lok ágúst 2023.

Samstarfsaðilar:

 1. Federal Ministry of Education, Science and Research, Austurríki – umsjónarmenn
 2. Consortium for the validation of competences (CVDC)Belgía
 3. Qualifications and Vocational Edu. and Training Devel. Centre (KPMPC)Litháen
 4. Regional Agency for Active Labour Policies of Umbria (ARPAL), Ítalía
 5. Lifelong Learning Platform – Belgía
 6. European Institute of Education and Social Policy (EIESP), Frakkland
 7. Educational Research Institute (IBE)Pólland
 8. 3s research laboratory (3s), Austurríki
 9. Vrije Universiteit Brussel (VUB)Belgía
 10. Nordic Network for Adult Learning (NVL)Danmörk
 11. Lithuanian education and science trade union (LESTU)Litháen
 12. ALL DIGITALBelgía
 13. Azione, Ítalía
 14. Pluriversum, Ítalía
 15. Chamber of Labour for Salzburg (AK), Austurríki
 16. Austrian Institute for Vocational Education Research (öibf), Austurríki