Starfsmennt hlýtur viðurkenningu fyrir færniuppbyggingu sérhæfðra þjónustufulltrúa

Viðurkenningar fyrir árangursrík verkefni í raunfærnimati voru veittar við hátíðlega athöfn á alþjóðlegri ráðstefnu sem fór fram á Grand hótel í dag. Fjögur verkefni hlutu viðurkenningu og var Starfsmennt eini íslenski fræðsluaðilinn þar á meðal.

Til að bregðast við hröðum breytingum á vinnumarkaði kom Fræðslumiðstöð atvinnulífsins af stað tilraunaverkefni, í samstarfi við Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins, um raunfærnimat á móti viðmiðum starfa sem Starfsmennt verkefnastýrði. Raunfærnimat í atvinnulífinu er ætlað að gera færni fólks sýnilega og þjálfun í kjölfarið markvissari sem er mikils virði fyrir einstaklinga, fyrirtæki og samfélagið allt. Markmið verkefnisins er að byggja grunn að varanlegu kerfi fyrir raunfærnimat í atvinnulífinu.

Guðfinna Harðardóttir, framkvæmdastjóri Starfsmenntar, tók á móti viðurkenningunni:

„Það er mikill heiður fyrir Starfsmennt og samstarfsaðila okkar að fá þessa viðurkenningu. Það þarf sérhæfða hæfni til að sinna afgreiðslu- og úrvinnslustörfum hjá hinu opinbera og sú hæfni fæst með því að starfa á vettvangi stjórnsýslunnar. Störf í opinbera geiranum eru að breytast líkt og annars staðar á vinnumarkaðinum og tilraunaverkefnið um raunfærnimat á móti viðmiðum atvinnulífs nýttist gríðarlega vel til að draga fram þá hæfni sem starfsmenn höfðu þegar öðlast í starfi sínu, finna hvað vantaði upp á og bjóða upp á sérsniðna þjálfun til að starfsfólkið gæti tekist á við meira krefjandi verkefni“, segir Guðfinna Harðardóttir, framkvæmdastjóri Starfsmenntar.

Aðrir sem hlutu viðurkenningu voru Dr. Rekha Rambharose, fyrir stuðning við nema sem sækja raunfærnimat í Suður-Afríku; Aleksandra Panek, fyrir vottun á hæfni innflytjenda í Austurríki og Ulrich Scharf, fyrir verkefni um starfsferilsráðgjöf með gervigreind.

Raunfærnimat á móti viðmiðum atvinnulífsins til að bregðast við breytingum á vinnumarkaði

Starf þjónustufulltrúa er dæmi um starf sem er að hverfa í núverandi mynd með aukinni sjálfvirkni en þörf er til staðar á sérhæfðu starfsfólki sem getur veitt viðskiptavinum ráðgjöf og sinnt úrlausn flóknari mála. Sérhæfðir þjónustufulltrúar hjá tveimur opinberum stofnunum, Vinnumálastofnun á Skagaströnd og Húsnæðis-og mannvirkjastofnun á Sauðárkróki, tóku þátt í verkefninu.

Tilraunaverkefnið gekk vonum framar þar sem hæfni starfsfólksins var gerð sýnileg með því að meta á móti hæfnikröfum starfs og að matinu loknu var boðið upp á þjálfun á vinnustað sem var sérsniðin að hverjum starfsmanni auk námskeiða sem hentuðu hópnum með það að markmiði að allir næðu þeirri hæfni sem þarf til að inna nýja starfinu vel af hendi. Þannig að samhliða því að fá núverandi hæfni metna og staðfesta fær starfsfólk tækifæri til þjálfa sig fyrir annað starf sem hefur jákvæð áhrif á starfsþróun þeirra. Í kjölfarið var þátttakendum afhent fagbréf sem staðfestir hæfni þeirra á þriðja þrepi íslenska hæfnirammans um menntun.

Við útskriftina sagði mannauðsstjóri Vinnumálastofnunar, Vilmar Pétursson: „Við vorum mjög snögg að ákveða að taka þátt í raunfærnimatsverkefninu því við vorum byrjuð í mikilli stafrænni umbyltingu. Enginn þáttur starfseminnar er undanskilin og við vorum farin að velta fyrir okkur hvernig við ættum að bregðast við breytingunum. Við vissum að fólkið á Skagaströnd hafði heilmikla þekkingu nú þegar til að takast á við ný verkefni og nýjan raunveruleika, en þetta gaf okkur tækifæri til að komast að því hvaða færni vantaði og hvað þyrfti að þjálfa.“

Alþjóðleg ráðstefna um raunfærnimat á Íslandi

Ráðstefnan fer fram dagana 19.-20. maí og ber hún yfirskriftina Að byggja sameiginlegan grunn. Ráðstefnan um raunfærnimat er suðupottur fyrir þróun raunfærnimats og fjallað er um það í fjölbreyttu samhengi. Ráðstefnan er í umsjón Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins (FA) í samstarfi við Norræna tengslanetið um nám fullorðinna (NVL) og CEDEFOP. Fjölmargir aðrir styrktaraðilar koma að ráðstefnunni, þ.á.m. UNESCO, GLOBEDU og EPALE.

Á forsíðumynd: Aleksandra Panek frá AST (ráðgjafamiðstöð fyrir innflytjendur í Vínarborg), Ulrich Scharf frá SkillLab í Hollandi, Guðfinna Harðardóttir, framkvæmdastjóri Starfsmenntar, Sólborg Alda Pétursdóttir, verkefnastjóri hjá Starfsmennt.

Skráðu þig á póstlista Fræðslumiðstöðvarinnar