Ferðaþjónusta II er 100 klukkustunda nám sem er 5 einingar á framhaldsskólastigi og er á öðru þrepi hæfniramma um íslenska menntun, þó nokkrir námsþættir séu á þriðja hæfniþrepi. Námskráin tengist starfaprófílum í ferðaþjónustu, fjölbreyttum störfum á vettvangi ferðaþjónustu og eldri námskrám. Námið er framhald af námskránni Ferðaþjónusta I og er ætlað þeim sem sinna eða hafa hug á að sinna störfum á sviði móttöku og þjónustu við ferðamenn. Markmið námsins er að fólk sem lýkur náminu sé fært um að starfa með öðrum, taka frumkvæði í samskiptum og bera ábyrgð á skilgreindum viðfangsefnum sem tengjast upplýsingagjöf, móttöku og þjónustu við fjölbreyttan hóp ferðamanna og jafnframt að stuðla að jákvæðri upplifun og ánægju gestanna. Markmið námsins er einnig að vera góður undirbúningur til þróunar í starfi sem og fyrir sérhæfðara nám á sviði ferðaþjónustu.