Námskráin Félagsliðagátt lýsir námi á öðru þrepi hæfniramma um íslenska menntun. Námið er alls 1720 klukkustunda vinnuframlag nema og jafngildir 86 framhaldsskólaeiningum.
Námið er fyrir fullorðið fólk á vinnumarkaði með starfsreynslu sem jafngildir að lágmarki fullu starfi í eitt ár. Markmið námsins er að auka þekkingu, færni og fagkunnáttu þeirra sem sinna einstaklingum sem þurfa aðstoð eða sérhæfða þjónustu við athafnir daglegs lífs. Nemar takast á við verkefni samkvæmt verklýsingu og fyrirmælum, efla eigið læsi á aðstæður og verkefni þar sem lausnir eru ekki sjálfgefnar en krefjast þekkingar, hugkvæmni og hæfni í samskiptum, rökvísi og leikni í lýðræðislegum vinnubrögðum.