Það var nóg um að vera hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins (FA) síðastliðna viku en Hrannar Baldursson og Nichole Leigh Mosty héldu til Egilstaða þar sem þau héldu tvö sérhæfð námskeið fyrir fullorðna námsmenn. Þessi ferð var liður í því að efla fagmennsku og hæfni leiðbeinenda í menntun fullorðinna um allt land. Þá var haldið námskeið fyrir matsaðila í raunfærnimati.
Á námskeiðinu um kennslufræði fullorðinna námsmanna var lögð áhersla á að dýpka skilning þátttakenda á grundvallaratriðum náms fullorðinna, sem og skipulagi og framkvæmd kennslu. Meðal annars var lögð áhersla á gagnrýna hugsun, námsumhverfið, einkenni hins fullorðna námsmanns, leiðbeinandann, jafningjafræðslu og að námið væri miðað að þörfum fullorðins námsmanns. Námskeiðin skiluðu sér í góðum samræðum um hlutverk og einkenni umhverfis, nemenda og leiðbeinenda í námi fullorðinna.
Á námskeiðinu og þjálfun í menningarnæmi og menningarmiðaðri kennslu fyrir íslenskukennara fengu þátttakendur innsýn í mikilvægi þess að vinna með eigin viðhorf og ræða fjölbreyttar leiðir í samskiptum og samvinnu á grundvelli menningarnæmis. Lögð var áhersla á að stuðla að samkennd og sveigjanleika í kennslu íslensku sem annars máls. Námskeiðið veitti kennurum tækifæri til að tileinka sér hagnýtar aðferðir sem stuðla að inngildingu í kennslu og að skapa hvetjandi námsumhverfi fyrir fjölbreytta hópa fullorðinna námsmanna sem vilja læra íslensku.
Einnig var haldið vel heppnað námskeið um raunfærnimat hjá FA í síðustu viku. Námskeiðið er ætlað matsaðilum, verkefnastjórum og ráðgjöfum sem vinna að raunfærnimatsverkefnum, ásamt öðrum hagsmunaaðilum, var skipulagt til að kynna ferlið við raunfærnimat og efla færni þátttakenda við framkvæmd þess. Þátttakendur fengu ekki aðeins fræðslu heldur einnig tækifæri til að taka þátt í virkri umræðu og hópæfingum.