Tilkynning stjórnar Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins (FA) þess efnis að loka upplýsinga- og ráðgjafarvefnum Næsta skref þann 1. apríl hefur vakið mikil viðbrögð. Ákvörðunin var þungbær en óhjákvæmileg í ljósi þess að vefurinn hefur í næstum tvö ár verið rekin meira af vilja en mætti og orðið erfitt að koma til móts við þann mikla fjölda sem í dag sækir vefinn heim, og geta ekki horft fram á veg nema til skamms tíma í senn.
FA þakkar þau jákvæðu, miklu og sterku viðbrögð sem borist hafa víða að og virðist samhljómur um þörfina fyrir að halda vefnum áfram í rekstri og þróun.
Samtal um framtíðarfjármögnun og samstarf hefur farið fram undanfarna daga og erum við það bjartsýn á jákvæða niðurstöðu að fyrirhugaðri lokun hefur nú verið frestað á meðan leitað er allra leiða til að tryggja framtíð vefjarins. Ekkert er þó hægt að fullyrða um lyktir málsins að svo stöddu.