Viðurkenning til fyrirmynda í námi fullorðinna var veitt við hátíðlega athöfn á ársfundi Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins (FA) sem fram fór í dag. María Sigurðardóttir og Sigurður Þorsteinn Guðmundsson hljóta viðurkenninguna að þessu sinni. Viðurkenningin er veitt árlega þeim einstaklingum sem hafa breytt stöðu sinni eftir þátttöku í úrræðum FA, sýnt framúrskarandi árangur, frumkvæði, kjark og náð að yfirstíga ýmiss konar hindranir. Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum og Símenntunarmiðstöð Vesturlands tilnefndu fyrirmyndirnar.
Ársfundur FA var haldinn í samstarfi við NVL, Norræna tengslanetið um nám fullorðinna, undir yfirskriftinni Tökum næsta skref. Samstarf um skýra hæfnistefnu. Leitast var við að varpa ljósi á mikilvægi víðtæks samstarfs mennta- og atvinnulífs við gerð hæfnistefnu. Ákvörðun um stefnumörkun liggur fyrir í aðgerðaráætlun með menntastefnu 2020-2030 en hvað þarf til svo að vel takist?
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra, opnaði fundinn með ávarpi. Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir, forstöðumaður samkeppnishæfnisviðs Samtaka atvinnulífsins og Hildur Betty Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri FA, töluðu um ávinning af skýrri hæfnistefnu og samspil hennar með menntastefnu fyrir atvinnulífið. Margrethe Svensrud, forstöðumaður deildar um vinnufærniþróun hjá HK-dir (Norwegian Directorate for Higher Education and Skills), kynnti hæfnistefnu Norðmanna og árangurinn af henni og Karl Sigurðsson, sérfræðingur BSRB á sviði framtíðarvinnumarkaðarins og menntamála, talaði um þörf fyrir störf í framtíðinni og hvaða leiðir eru færar til að spá fyrir um þörfina.
Nálgast má upptöku frá fundinum á YouTubesíðu FA.
Umfjöllun um fyrirmynd í námi fullorðinna í Víkurfréttum
Umfjöllun um fyrirmynd í námi fullorðinna á vef Símenntunarmiðstöðvar Vesturlands