Leiðarlok Næsta skrefs

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins (FA) harmar að þurfa að loka upplýsinga- og ráðgjafarvefnum Næsta skref miðvikudaginn 3. maí 2023. FA, sem hefur staðið ein að kostnaði við vefinn síðan 2021, hefur leitað allra leiða til að halda rekstri hans áfram en án árangurs. Viðræður við Menntamálastofnun og áköll til mennta- og barnamálaráðuneytis, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis auk félagsmála- og vinnumarkaðsráðuneytis hafa ekki skilað árangri.

Í lok mars 2023 sendi FA bréf til stjórnvalda og ýmissa hagsmunaðila um lokun upplýsinga- og ráðgjafarvefjarins. Viðbrögð notenda, stjórnvalda og hagsmunaaðila létu ekki á sér standa. Því var ákveðið að halda vefnum áfram opnum meðan samtalið við stjórnvöld átti sér stað enda ljóst að vefurinn gegnir veigamiklu hlutverki í íslensku samfélagi. Því miður hefur ekki tekist að tryggja rekstrarlega framtíð hans.

Við þökkum þeim sem hafa fylgt okkur undanfarin ár og komið að þróun og vexti Næsta skrefs fyrir ómetanlegt framlag.

Fyrir hönd Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins,

Hildur Betty Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri

Eyrún Björk Valsdóttir, stjórnarformaður

Skráðu þig á póstlista Fræðslumiðstöðvarinnar