Hvert stefnir fullorðinsfræðslan?

Fræðslumiðstöð Atvinnulífsins, Háskóli Íslands og Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið buðu til vefstofuraðar í september og október 2022.

Framundan er endurskoðun löggjafar um framhaldsfræðslu á Íslandi. Í því tilefni er boðið upp á stutta röð vefstofa með viðtölum við bæði erlenda og innlenda sérfræðinga um stefnu á sviði fullorðinsfræðslu. Um er að ræða alþjóðlegar stefnur, evrópskar stefnur og íslenskar stefnur um fullorðinsfræðslu. Vefstofuröðin endar síðan með umfjöllun um hvernig stefna i fullorðinsfræðslu geti stutt við skapandi ferli í fræðslu. 

Við hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og Félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu bjóðum  í samstarfi við nemendur í námslínunni Nám fullorðinna við Háskóla Íslands til vefstofuraðar.

Fjórða og síðasta vefstofan var haldin 18. október s.l. Þar sat Stephan Vincent-Lancrin yfirsérfræðingur hjá OECD fyrir svörum.

Umræðuefnið var hlutverk sköpunar í fullorðinsfræðslu og möguleika stefnumótunar til að hafa áhrif á framkvæmd fræðslunnar.

Æ fleiri vekja máls á því að í hagkerfi nútímans er sí aukin þörf fyrir hæfileika fólks til að mæta nýjum áskorunum á skapandi hátt. Aðstæður í nútímasamfélögum breytast hraðar og hraðar með hverju árinu. Tæknibreytingar eru viðvarandi og breytingar aðstæðum í samfélaginu breytast og kollvarpast á örskotsstundu, eins og við höfum upplifað. Nýjustu dæmin eru COVID-19 og stríðið í Úkraínu, og er þar skammt stórra högga á milli. Í báðum tilfellum hefur fólk þurft að finna ný skapandi viðbrögð við breyttum aðstæðum, bæði í einkalifi, vinnu og á sviði samfélagsins. Það að við munum geta átt von á hröðum breytingum hefur leitt til þess að fólk sem spáir í framtíðina heldur því gjarnan fram að ef menntakerfið eigi að geta stutt fólk til að þrífast, þurfi þeir sem kenni að kenna fólki skapandi vinnubrögð, svo það hafi viðhorf og leikni til að breyta og skapa nýtt.

Stephan Vincent-Lancrin sérfræðingur hjá OECD

Stephan leiddi vinnu OECD um menntun í Covid-19 kreppunni og leiðir nú meðal annars vinnu OECD í kringum notkun stafrænnar tækni í menntun, þar ber hæst verkefnið „Smart data and digital technology in education: AI, learning analytics and beyond„. Stephan leiðir einnig vinnu í kringum sköpun í menntakerfinu, meðal annars verkefnið „Fostering and assessing students’ creative and critical thinking skills in higher education – OECD“ sem snérist meðal annars um að kanna hvers konar stuðning, umhverfi og verkfæri væri hægt að veita kennurum.

Rætt var við hann um hlutverk sköpunar í kennslu í fullorðinsfræðslu, hvaða máli hún skipti í kennslu og hvernig sköpun og fullorðinsfræðsla fari saman. Þá munum við fá hann til að tengja niðurstöður verkefnisins um sköpun í kennslu við stefnumótun og fá hann til að skoða með okkur hvort og hvernig stefna, fræðsluaðila, atvinnulífsins og yfirvalda geti stutt við sköpun i fullorðinsfræðslunni.

Hér má horfa á upptöku af vefstofunni.


Þriðja vefstofan í röðinni „Hvert stefnir fullorðinsfræðslan?“ var haldin 11. október 2022

Þar ræddi Jón Torfi Jónasson um stefnumörkun í fullorðinsfræðslu á Íslandi. Hann gaf innsýn i þróun stefnumörkunarinnar og hvaða áhrifaþættir hafa haft mikil áhrif á stefnu íslenskra stjórnavalda þegar kemur að fræðslu fullorðinna.

Jón Torfi Jónasson prófessor emerítus

Jón Torfi Jónasson er prófessor emerítus við Háskóla Íslands. Hann hefur um árabil fylgst náið með og rannsakað menntakerfi, sérstaklega íslenskt menntakerfi frá mörgum og ólíkum sjónarhornum. Hann hefur skrifað margar mikilvægar skýrslur og greinar um símenntun á Íslandi og þannig gefið góða yfirsýn yfir vettvanginn.

Við munum einnig spyrja Jón Torfa um samfélagslega þróun sem honum sýnist að muni hafa áhrif á framboð og eftirspurn eftir námstilboðum fyrir fullorðna á næstu árum og hvernig gæti verið gagnlegt að skipuleggja, markaðssetja og fjármagna fræðslu fyrir fullorðna.

Hér má horfa á upptöku frá vefstofunni


Önnur vefstofan var haldin þriðjudaginn 4. október 2022. Þar gaf Ellen Boeren prófessor við háskólann í Glasgow okkur innsýn í evrópskar stefnur í fullorðinsfræðslu.

Ellen Boeren, prófessor við háskólann í Glasgow

Ellen Boeren er prófessor í fullorðinsfræðslu við háskólann í Glasgow og hefur mikla reynslu af samanburðarrannsóknum á sviði ævimenntunar. Áherslur hennar í rannsóknum hafa verið á sviði þátttöku fullorðinna í skipulögðu námi í Evrópu. Þá hefur hún komið að mörgum yfirlits og samanburðarverkefnum fyrir Evrópusambandi, OECD og UNESCO og fleiri. 2016 gaf Boeren út yfirlitsbók yfir rannsóknir á þátttöku í fullorðinsfræðslu, Lifelong Learning Participation in a Changing Policy Context An Interdisciplinary Theory. Fyrir hana fékk hún ein virtustu verðlaun á sviðinu: „Cyril O. Houle Award for Outstanding Contribution to the Adult Education Literature“ Bókin nýtist sérlega vel fólki sem kemur að skipulagningu fullorðinsfræðslu og stefnumótun. Undanfarin þrjú ár var hún ritstjóri „Adult Education Quarterly“ eins virtasta tímaritsins á sviði rannsókna á fullorðinsfræðslu almennt.

Ellen gaf okkur innsýn í evrópskar stefnur um fullorðinsfræðslu og þau áhrif sem þær hafa haft á nám fullorðinna í Evrópu. Rannsóknir hennar á þátttöku og þekking á starfsemi margra alþjóðastofnana í tengslum við fullorðinsfræðslu gefa henni sérstaklega áhugavert sjónarhorn á þau stefnumeðul sem hafa haft áhrif í löndum Evrópu.

Hér má horfa á upptöku frá vefstofunni.


Fyrsta vefstofa var haldin fimmtudaginn 29. september 2022 þar sem Glenda Quintini frá OECD fjallaði um Alþjóðlegar stefnur í fullorðinsfræðslu (e. Gobal policies on adult education)

Glenda Quintini yfirhagfræðingur OECD

Glenda Quintini er yfirhagfræðingur hjá OECD og hefur yfirumsjón með vinnu stofnunarinnar um hæfni á vinnumarkaði og félagsmál. Hún leiðir teymi hagfræðinga sem skoðar hvernig færniþarfir á vinnumarkaði eru að breytast og hvernig megi finna skilvirk viðbrögð við þeim í stefnumótun, einkum á sviði fullorðinsfræðslu og vinnustaðanáms. Teymi Glendu leggur einnig sitt af mörkum til útfærslu, frekari þróunar og greiningar PIAAC könnunar OECD og stjórnar nú þróun verkfæra fyrir atvinnurekendur til að greina færnibil. Verkefni á ábyrgð Glendu fela í sér bæði landssértækar greiningar og samanburðarransóknir sem ná til bæði landa innan OECD og til þróunarlanda. Sem hluta af rannsóknaráætluninni um færni hefur Glenda lagt mikla áherslu á breyttar þarfir vinnumarkaðarins fyrir færni, misræmi í færni, beitingu færni í starfi og tengingar þess við vinnutengt nám.

Á vefstofunni var Glenda til viðræðu og gefa þátttakendum yfirsýn yfir þróun alþjóðlegrar stefnumótunar um fullorðinsfræðslu og hvernig þær hafa haft áhrif á stefnu einstakra landa. Sömuleiðis mun hún fræða okkur um áhrif stefnumótunar á fræðslustarfsemi í einstökum löndum og útkomu fullorðinsfræðslunnar almennt. Hún mun koma inn á hvernig stefnur um fullorðinsfræðslu ávarpa samfélagslegar áskoranir og hvaða verkfæri í stefnum um fullorðinsfræðslu hafi reynst vel.

Hér má horfa á upptöku frá vefstofunni.


Skráðu þig á póstlista Fræðslumiðstöðvarinnar