Heimsfaraldurinn var bæði hindrun og hraðall 

Kristjana Guðbrandsdóttir

Eftir Kristjönu Guðbrandsdóttur, Iðunni fræðslusetri 

Fjórða iðnbyltingin er hugtak sem er ætlað að ná utan um hraðskreiðar tækniframfarir sem eiga sér stað og eru að umbylta vinnumarkaði eins og við þekkjum hann.  Fjórða iðnbyltingin byggir á stafrænum grunni og í dag eru augljósust áhrif gervigreindar, sjálfvirknivæðingar, róbotatækni og snjalltækja ýmis konar.

Símtækið sem þú ert með í vasanum eða veskinu er ágætt dæmi um þá byltingu sem hefur orðið á snjalltækjum. Nú getur þú til dæmis notað símann til þess að greiða vörur og þjónustu, mæla blóðþrýsting og gæði svefns en líka sem öflugt vinnutæki til að taka upp efni til miðlunar. Síminn er að sjálfsögðu enn í grunninn tæki til samskipta en á svo miklu víðtækari hátt en áður. Skilningur á snjalltækjum og stafræn færni í að nýta kosti þeirra í lífi og starfi hefur aldrei verið mikilvægari.
Hjá IÐUNNI fræðslusetri hefur undanfarið verið unnið markvisst að því að efla þekkingu okkar og félagsmanna okkar á áhrifum fjórðu iðnbyltingarinnar á líf og störf og með liðsinni Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins og þróunar og nýsköpunarstyrk frá Fræðslusjóði hefur IÐAN byggt upp svokallað þekkingartorg á heimasíðunni sinni idan.is.
Markmið verkefnisins er að byggja upp heildstæða upplýsingamiðlun um fjórðu iðnbyltinguna til þess að undirbúa og hvetja fólk til þátttöku í síbreytilegu samfélagi.

Heimsfaraldurinn var hindrun og áskorun að mörgu leyti í framgangi verkefnisins en að stórum hluta var hann líka hraðall á lausn þess. Við þurftum að reiða okkur á eigin innviði fremur en aðkeypta sérfræðiþjónustu og það varð til þess að efla teymishugsun og byggja upp okkar eigin stafrænu færni. 
Afurðir verkefnisins eru námskeið sem efla færni félagsmanna í að nýta snjalltæki og í því að bæta við þekkingu sína í miðlun markaðsefnis. Vegna sóttvarnartakmarkana var okkur nauðsynlegt að miðla einnig fræðslu með öðrum hætti sem fer að sjálfsögðu sterklega saman við áherslur verkefnisins.

Hjá IÐUNNI voru framleidd fræðslumyndbönd, hlaðvörp og fyrirlestrar um gervigreind, skýjalausnir, sjálfvirknivæðingu og stafræna færni og verður haldið áfram að byggja ofan á grunninn. Síðast en ekki síst er lögð áhersla á að draga fram þá skapandi og gagnrýnu hugsun sem þeir þarfnast sem vilja halda velli á vinnumarkaði framtíðar.  

Nánari upplýsingar um Nýsköpunar og þróunarverkefni Fræðslusjóðs má finna hér.

Skráðu þig á póstlista Fræðslumiðstöðvarinnar