Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins (FA) stóð fyrir haustfundi um ráðgjöf á vettvangi framhaldsfræðslunnar þann 10. október á Hótel Hilton í Reykjavík, þar sem ráðgjafar komu saman. Áhersla fundarins var á fræðslu sem valin var út frá niðurstöðum fræðslugreiningar sem FA gerði á meðal ráðgjafa fræðslu- og símenntunarmiðstöðva víðsvegar um landið í byrjun árs, auk samtals um þróun og gæðamál.
Fjóla María Lárusdóttir þróunarstjóri FA stýrði fundinum og var dagskráin var fjölbreytt, með erindum frá sérfræðingum og skipulögðum umræðum á milli þeirra.
Maj-Britt Hjördís Briem, lögmaður á vinnumarkaðssviði Samtaka atvinnulífsins, hóf fundinn með erindi um framtíð vinnumarkaðarins. Hún fjallaði um tengsl vinnumarkaðar og framhaldsfræðslu á Íslandi og lagði áherslu á mikilvægi Fagbréfs atvinnulífsins og hæfnilaunakerfis. Hún benti einnig á þörf fyrir fjölgun á fólki með iðn- og tæknimenntun að veita þurfi hæfniþróun innflytjenda sérstaka athygli þar sem þeim fer fjölgandi á íslensku vinnumarkaði. „Hæfni í menningarnæmi og máltækni verður sífellt mikilvægari í samfélaginu,“ bætti hún við.
Næst tók til máls Jón Vigfús Bjarnason, skólastjóri Hraðlestrarskólans og sýndi hvernig hægt er að auka leshraða með virkri þjálfun. Hann deildi reynslusögum af nemendum sínum og nefndi sérstaklega einn sem náði að lesa 3.500 orð á mínútu með góðum lesskilningi. „Meðalmanneskja les um 150–300 orð á mínútu, þannig að árangurinn getur verið gríðarlegur með réttri þjálfun,“ útskýrði hann. Þar sem hægur lestur er oft hindrun í námi, getur það að læra nýja lestrartækni verið mikill hvati. Jón hafði margar reynslusögur af fólki sem hafði náð miklum framförum og náð betur utan um nám sitt með öflugri námstækni.
Þuríður Ósk Sigurjónsdóttir, verkefnastjóri hjá ENIC/NARIC, til orða. Hún fjallaði um hvernig nám innflytjenda er metið hér á landi og hvernig skrifstofa ENIC/NARIC þjónustar Íslendinga sem þurfa að fá nám sitt metið erlendis.
Helle Kristensen, kennari og ráðgjafi hjá Fjölmennt, hélt erindi undir yfirskriftinni „Að mæta fólki með fötlun“. Hún ræddi um mikilvægi þess að taka tillit til sérþarfa fólks með fötlun í námi og ráðfjöf og hvernig best er að styðja þau til árangurs.
Helgi Þorbjörn Svavarsson, fráfarandi landstengiliður NVL (Nordisk Netværk for Voksnes Læring) á Íslandi, fór yfir helstu áherslur og verkefni NVL, bæði á liðnu ári og fram til ársins 2030. „Helstu áherslur okkar til 2030 eru þróun sem tengist umhverfismálum, samkeppnishæfni og félagslegri sjálfbærni,“ sagði hann.
Að lokum fluttu Hildur Betty Kristjánsdóttir og Haukur Harðarson frá FA erindi um verkefni sem eru þar í gangi. Þau svöruðu spurningum úr sal og skapaðist lífleg umræða um innleiðingu Fagbréfa atvinnulífsins – vottunarferli sem hentar fólki sem hefur öðlast hæfni í sínu starfi. Mikil sóknarfæri felast í verkfærinu á vettvangi framhaldsfræðslunnar.
Umræður voru lifandi og skemmtilegar allan daginn og fundinum lauk um klukkan 16:00. Fundargestir voru sammála um mikilvægi slíkra viðburða fyrir þróun og gæði í framhaldsfræðslunni og hlökkuðu til áframhaldandi samstarfs.