Fjölmennt, símenntunar- og þekkingarmiðstöð og Fræðslumiðstöð atvinnulífsins (FA) hafa gert með sér samning um hæfnigreiningu þriggja starfa. Um er að ræða störf fyrir starfsfólk sem nýtur þjónustu AMS (Atvinna með stuðningi) og Fjölmenntar.
Hæfnigreining starfa felst í að kortleggja og skilgreina þá hæfni sem mikilvægt er að starfsmaður búi yfir til að árangur náist í starfi og byggir aðferðafræðin á mikilli þátttöku þeirra sem gegna störfunum. Unnið er með hæfniþætti sem skilgreina á hlutlægan hátt þá persónulegu og faglegu hæfni sem máli skiptir á vinnumarkaði. Hæfniþættirnir eru þrepaskiptir og lýsa stíganda í ábyrgð, sjálfstæði og hæfni sem þarf til að gegna starfinu. Þrepaskiptingin byggir á hæfniramma um íslenska menntun. Til þess að mæta breiðari hópi þátttakenda í greiningunum hafa bæði greiningarferli og vinnugögn verið aðlöguð þátttakendum með skerta starfsgetu, þroskahamlanir og skyldar raskanir. Í vinnuhópi eru fulltrúar Fjölmenntar, AMS og Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins.
Niðurstöðurnar úr hæfnigreiningunni verða nýttar við gerð námsleiðar, raunfærnimats og aðlögun á námi sem þegar er til.
Fyrsta starfið sem greint verður er starf á hjúkrunarheimili og fer sú greining fram í nóvember.
Á mynd, Hildur Betty Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins og Helga Gísladóttir förstöðumaður Fjölmenntar