Ársfundur FA verður 13. nóvember n.k.

Frá færni til vottunar – í námi, starfi og samfélagi  

Ársfundur Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins verður haldinn 13. nóvember næstkomandi í samstarfi við NVL – Norrænt tengslanet um nám fullorðinna. Fundurinn verður í salnum Háteigi á Grand Hótel kl. 11:00 – 13:45 og verður einnig streymt. Boðið verður upp á léttar veitingar. 

Áhersla ársfundar verður Fagbréf atvinnulífsins, verkfæri sem hefur verið í þróun hér á landi undanfarin ár að norrænni fyrirmynd í samstarfi FA, ASÍ og SA og árið 2024 komu ákvæði um þau í hluta kjarasamninga. Dæmi um það er samningur Starfsgreinasambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins sem gildir frá 1. febrúar 2024. Þar er ákvæði um nýtt hæfnilaunakerfi:  

Markmið hæfnilaunakerfis er að meta störf með hlutlægum hætti, fjölga þáttum sem horft er til við launasetningu og útbúa skýr viðmið við launasetningu og launaþróun starfsfólks. Með nýju hæfnilaunakerfi fær starfsfólk og atvinnurekendur öflugt tæki í hendur sem stuðlar að aukinni fræðslu og starfsþróun, gagnsæi, starfsánægju og betra vinnuumhverfi. Á sama tíma verða til skýrari hvatar fyrir starfsfólk til að þróast í starfi. 

Við þróun hæfnilaunakerfisins og skilgreiningavinnu á viðmiðum er m.a. horft til íslenska hæfnirammans. Þegar öllum hæfnikröfum starfs er náð er færnin staðfest með fagbréfi viðkomandi starfs. 

Á fundinum verður umgjörð Fagbréfanna á vettvangi framhaldsfræðslunnar kynnt.  Sérfræðingur frá Svíþjóð kynnir raunfærnimat starfsgreina, vottunarferlið og árangur af því. Fulltrúi frá Rafmennt fer yfir þróunarvinnu sem stendur yfir þar sem fimm störf verða tekin fyrir og starfsfólks fær hæfni sína vottaða á hæfniþrepum. Fulltrúi frá Vinnumálastofnun kynnir verkefnið Færni á vinnumarkaði sem tengir saman nám, þjálfun og vottun með Fagbréfum á hæfniþrepi 1 á íslenska hæfnirammanum.  Hagaðilar munu ræða stöðu mála á vinnumarkaði við að gera hæfni sýnilega og votta hana og að lokum verða samkvæmt venju fyrirmyndir úr framhaldsfræðslunni heiðraðar. 

Dagskrá

(með fyrirvara um breytingar) 

  • Ávarp ráðherra 
  • Ávarp forseta ASÍ 
  • Umgjörð Fagbréfa atvinnulífsins á vettvangi framhaldsfræðslunnar 
  • Sérfræðingur frá starfsgrein í Svíþjóð kynnir vottun á hæfni og árangur af því 
  • Rafmennt – Fagbréf í þróun 
  • Verkefni Færni á vinnumarkaði 
  • Samtal um Fagbréf atvinnulífsins – fulltrúar aðila atvinnulífsins 
  • Fyrirmyndir í framhaldsfræðslunni heiðraðar 

Takið daginn frá!

Skráðu þig á póstlista Fræðslumiðstöðvarinnar