Ársskýrsla Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins fyrir árið 2021 er komin út 

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra, rýnir í framtíð framhaldsfræðslunnar í nýútkominni ársskýrslu Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins (FA). Hann segir  áhrif loftslagsbreytinga og fjórðu iðnbyltinguna vera stórar áskoranir fyrir vinnumarkaðinn sem kalla muni á fleiri tækifæri til endurmenntunar og grunnmenntunar, þá skipti ekki máli hvort það nám fari fram á vinnustað eða á vegum framhaldsfræðsluaðila. 

„Við stöndum frammi fyrir tæknibyltingum sem breyta því hvernig við störfum og um leið hvernig við lærum. Við þurfum í sameiningu að finna leiðir til að nema þessar breytingar og geta brugðist við. Endurskoðun laga um framhaldsfræðslu er því tímabær og hefur verið sett á dagskrá.“ 

Í ársskýrslunni er farið yfir árangurinn af starfinu, helstu verkefni og samstarf. Alls fóru 580 einstaklingar í gegnum mat á raunfærni á vegum framhaldsfræðslunnar á árinu, 2.391 einstaklingar luku námi í námsleiðum FA og 8.600 ráðgjafarviðtöl um nám og störf fóru fram.  

Starf FA grundvallast á samstarfi við aðila vinnumarkaðarins, stéttarfélög, fagfélög, fyrirtæki og stofnanir. Framkvæmd er unnin í gegnum fjármögnun Fræðslusjóðs og samninga við 14 fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar um land allt. Að auki starfar FA með fjölbreyttum hópi sérfræðinga í Evrópu í gegnum ákveðin verkefni og tengslanet. 

Helstu verkefni FA eru: 

  • Greina hæfnikröfur starfa á vinnumarkaði. 
  • Vinna að þróun og viðurkenningu raunfærnimats í samstarfi við atvinnulíf og fræðsluaðila. 
  • Auka framboð á vottuðu námi fyrir markhópinn byggt á hæfnigreiningum. 
  • Efla náms- og starfsráðgjöf meðal einstaklinga sem ekki hafa lokið námi á framhaldsskólastigi til þess að styrkja stöðu þeirra á vinnumarkaði. 
  • Tryggja gæði í starfi fræðsluaðila með þróun og innleiðingu á gæðakerfi fyrir framhaldsfræðsluna. 
  • Taka þátt í innlendu og erlendu samstarfi þar sem hagsmunir atvinnulífs og markhópsins eru í fyrirrúmi. 
  • Miðla upplýsingum um árangur starfsins, nýjungar og þróun framhaldsfræðslu. 
  • Þróa aðferðir til að styðja við framkvæmd náms og nýtingu verkfæra. 

Sú nýbreytni er höfð á ársskýrslunni í ár að hún kemur eingöngu út rafrænt. 

Smelltu á mynd til að nálgast ársskýrslu Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins:

Skráðu þig á póstlista Fræðslumiðstöðvarinnar