Ársskýrsla Fræðslusmiðstöðvar atvinnulífsins (FA) fyrir árið 2023 er komin út á rafrænu formi.
Árið einkenndist af framsækni, samvinnu og samstarfi við ýmsa hagaðila, þróun á verkfærum, kynningar á starfsemi og verkfærum hér á landi og erlendis.
Eitt af verkfærum FA, Fagbréf atvinnulífsins, varð hluti af kjarasamningum Starfsgreinasambands Íslands, Eflingar stéttarfélags og Samtaka atvinnulífsins. Í kjarasamningunum eru ákvæði um hæfnilaunakerfi sem tengt er við Fagbréf atvinnulífsins og ferli þess við að draga fram viðurkennda færni fólks í starfi.
Í byrjun árs 2023 tók til starfa samstarfshópur sem skipaður var af félags- og vinnumarkaðsráðherra um heildarendurskoðun framhaldsfræðslukerfisins og laga um framhaldsfræðslu nr. 27/2010. Fulltrúar frá FA taka þátt í þeirri vinnu.
Í ársskýrslunni er að finna yfirlit yfir starfsemina og tölur yfir árangur starfsins. Alls fóru 644 einstaklingar í gegnum mat á raunfærni á vegum framhaldsfræðslunnar á árinu, 2.261 einstaklingar luku námi í námsleiðum FA og 9.444 ráðgjafarviðtöl um nám og störf fóru fram.