Ársfundur FA var haldinn miðvikudaginn 13. nóvember s.l. á Grand hótel og í streymi og tóku yfir 130 manns þátt í fundinum. Fundurinn var haldinn í samstarfi við NVL – Norrænt tengslanet um nám fullorðina, undir yfirskriftinni Frá færni til vottunar – í námi, starfi og samfélagi.
Á fundinum var lögð áhersla á „Fagbréf atvinnulífsins,“ verkfæri sem hefur verið þróað af Fræðslumiðstöð atvinnulífsins í samstarfi við Samtök atvinnulífsins (SA), Alþýðusamband Íslands (ASÍ) og Samtök iðnaðarins (FA). Árið 2024 voru ákvæði um hæfnilaunakerfi sett í kjarasamninga, meðal annars í samningi Starfsgreinasambands Íslands (SGS) og VR/LÍV við SA sem tók gildi 1. febrúar 2024.
Markmið hæfnilaunakerfisins er að skapa hlutlægt mat á störfum, auka fjölda þátta sem litið er til við launasetningu og koma á skýrum viðmiðum fyrir launasetningu og starfsþróun. Með nýju kerfi fá starfsmenn og atvinnurekendur öflugt tæki í hendur sem hefur góð áhrif á starfsþróun, gagnsæi, starfsánægju og betra vinnuumhverfi. Jafnframt verða til hvatar sem hvetja starfsmenn til að þróast í starfi.
Fundarstjóri var Bergþóra Hrönn Guðjónsdóttir, sviðsstjóri Fræðslusviðs ASÍ.
Helstu atriði fundar:
Hugleiðingar um reynslu og þekkingu
Finnbjörn A. Hermannsson, forseti ASÍ, setti fundinn með innsýn í þróun vinnumarkaðarins. Hann ræddi um hvernig þekking og færni blandast á vinnustöðum, og sagði frá hvernig hæfnigreiningar, raunfærnimat og fagbréf væru lykilatriði í því ferli að viðurkenna þekkingu og færni sem starfsfólk ávinnur sér í starfi á vinnustöðum. „Mikilvægi starfsreynslunnar og hvernig hún byggir upp þekkingu og færni er heillandi umhugsunarefni,“ sagði Finnbjörn. Hann lagði áherslu á að fagbréf og raunfærnimat séu lykilþættir í að efla sjálfstraust launafólks og stuðla að jafnri stöðu á vinnumarkaði. „Raunfærnimatið og fagbréfið eru því ekki síður mikilvæg félagsleg tæki sem fallin eru til að stuðla að jafnri stöðu fólks á vinnumarkaði,“ bætti hann við.
Frá færni til vottunar
Hildur Betty Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri FA, ræddi um mikilvægi fagbréfa fyrir vinnumarkaðinn. Hún útskýrði hvernig fagbréf staðfesta færni einstaklinga miðað við hæfnikröfur starfsins. „Með fagbréfi er mat á færni einstaklingsins sem miðast við hæfnikröfu starfs,“ sagði Bettý. Hún lagði einnig áherslu á efnahagslegan ávinning: „Fagbréf stuðla að efnahagslegum vexti fyrir íslenskt samfélag og auka færni og framleiðni.“
Færni í gegnum samstarf hagsmunaaðila
Mats Johansson, framkvæmdastjóri Verslunarráðsins í Svíþjóð, deildi reynslu sinni af færniuppbyggingu í gegnum samstarf aðila vinnumarkaðarins. „Við trúum því að ef þú gerir hæfni og færni sýnilega og viðurkennda, þá eflist einstaklingurinn og samtökin,“ sagði Mats. Hann benti á mikilvægi þess að atvinnulífið taki virkan þátt í að skilgreina og viðurkenna hæfni starfsfólks.
Hvert stefnum við?
Selma Kristjánsdóttir, fagstjóri starfsmenntamála hjá VR og framkvæmdastjóri SVS, kynnti framtíðarstefnu. Selma fjallaði um framtíð starfsmenntamála og hvernig mæta megi kröfum framtíðarinnar á vinnumarkaði. Hún kynnti þrjú stór verkefni: starfsþróunarvef, starfsþróunarsamtöl og stafræna hæfnihjólið. „Við viljum tryggja að allir hafi aðgang að námi og tækifærum til að þróa hæfni sína,“ sagði Selma. Hún lagði einnig áherslu á mikilvægi samvinnu: „Við verðum að halda áfram og við verðum að sýna seiglu saman“.
Fagbréf í tæknigreinum
Jakob Tryggvason, formaður Félags tæknifólks, fjallaði um þróun fagbréfa í tæknigeiranum. „Við höfum miklar væntingar til fagbréfanna sem við erum að leggja af stað með,“ sagði Jakob. Hann undirstrikaði mikilvægi þess að staðfesta hæfni og ábyrgð í starfi og hvernig fagbréf geta stuðlað að bættri öryggismenningu og starfsþróun. Hann sagði frá að fimm störf hafi verið greind, en um 500 störf séu eftir. Hann ræddi um mikilvægi þess að kortleggja þau tæknistörf sem eru til og íslenska heiti þeirra.
Brúargerð milli kerfa og vinnumarkaðarins
Sara Dögg Svanhildardóttir, sérfræðingur hjá Vinnumálastofnun, kynnti verkefnið „Færni á vinnumarkaði, byggjum brýr á milli kerfa og út á vinnumarkaðinn“. Hún lagði áherslu á mikilvægi þess að efla færni fatlaðs fólks til aukinnar atvinnuþátttöku. „Það er ekki hægt að lýsa nægilega vel hversu mikilvægt þetta samstarf er,“ sagði hún og benti á að þjálfun á vinnustað sé lykillinn að því að efla viðkvæma hópa til starfa, en 72 fyrirtæki taka nú virkan þátt um allt land í að veita 74 nemendum með fötlun starfsþjálfun.
Hæfnilaunakerfi: nýjung í kjarasamningum á almennum vinnumarkaði
Fundinum lauk með erindi frá Björgu Bjarnadóttur, framkvæmdastjóra Starfsgreinasambands Íslands, og Maj Britt Hjördísi Briem, lögmanni hjá Samtökum atvinnulífsins. Þær kynntu nýtt hæfnilaunakerfi sem markar tímamót í kjarasamningum. ,,Við teljum þörf á nýju og sveigjanlegra launakerfi til að takast á við þá þróun sem er fyrirsjáanleg á vinnumarkaðnum,“ sagði Björg. Maj-Britt bætti við: ,,Þetta er nýjung á íslenskum vinnumarkaði að setja þetta inn í launakaflann af því yfirleitt höfum við verið að byggja launahækkanir á starfsreynslu.“
Fyrirmyndir í námi fullorðinna sem fengu viðurkenningu voru tvö að þessu sinni, bæði vel að henni komin með árangri sínum í gegnum verkfæri framhaldsfræðslunnar. Sjá nánar sérstaka frétt um þau hér.
Horfið á upptöku af fundinum:
Myndir frá fundinum: