Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra, opnaði ársfund Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins (FA) sem fram fór á dögunum. Var það vel við hæfi á þessum tímamótum, þar sem FA heyrir nú undir nýtt ráðuneyti og á 20 ára afmæli í ár. Á fundinum var kallað eftir víðtæku samstarfi aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda um framtíð framhaldsfræðslukerfisins í takt við þarfir atvinnulífsins. Þá sagðist ráðherra ætla að beita sér fyrir því að fleiri hefðu aðgang að kerfinu.
„Ég mun í starfi mínu sem félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra leggja mikla áherslu á endurhæfingu örorkulífeyrisþega og fólks með skerta starfsgetu. Framhaldsfræðsla og þjálfun er einn stærsti lykillinn að nútíð og framtíð þegar kemur að því að ná árangri í þessum efnum.“
Jafnframt var á fundinum lögð áhersla á breytingar með endurskoðun laga um framhaldsfræðslu til að tryggja yfirsýn og auka snerpu.
Ársfundurinn var haldinn í samstarfi við NVL undir yfirskriftinni Tökum næsta skref – Samstarf um skýra hæfnistefnu. Margrethe Svensrud, forstöðumaður deildar um vinnufærniþróun hjá HK-dir (Norwegian Directorate for Higher Education and Skills) kynnti hæfnistefnu Norðmanna og árangurinn af henni. Karl Sigurðsson, sérfræðingur BSRB á sviði framtíðarvinnumarkaðarins og menntamála, fjallaði um þörf fyrir störf í framtíðinni og Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir, forstöðumaður samkeppnishæfnisviðs Samtaka atvinnulífsins og stjórnarformaður FA, og Hildur Betty Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri FA, fjölluðu um ávinninginn af skýrri hæfnistefnu og samspil hennar við menntastefnu fyrir atvinnulífið.
Fyrirmyndir í námi fullorðinna, María Sigurðardóttir og Sigurður Þorsteinn Guðmundsson, sögðu frá reynslu sinni og verðlaunaafhending fór fram.
Starfsfólk FA þakkar fyrirlesurum fyrir góð erindi og gestum fyrir þátttökuna.
Horfa á ársfund: