Námskráin Menntastoðir lýsir námi á öðru þrepi hæfniramma um íslenska menntun. Námið er alls 1200 klukkustunda vinnuframlag nema og jafngildir 60 framhaldsskólaeiningum.
Námið er fyrir fólk með stutta formlega skólagöngu að baki og ætlað þeim sem stefna á nám við undirbúningsdeildir háskóla, ljúka framahaldsskóla eða vilja efla hæfni sína í almennum bóklegum greinum samkvæmt aðalnámskrá framhaldsskóla. Markmið námsins er að styrkja jákvætt viðhorf til náms og auðvelda námsfólki að takast á við ný verkefni og mögulega áframhaldandi nám. Val námsþátta er einkum ætlað að styðja námsfólk í að efla eigin námstækni og samskipti, almennar bóklegar greinar, tölvu- og upplýsingatækni og lokaverkefni þar sem þjálfuð er sjálfstæð verkefnavinna með samþættingu námsþátta.