Árlegur samstarfsfundur FA og samstarfsaðila – nýr ráðherra málaflokksins ávarpaði hópinn

Í gær, fimmtudaginn 6. mars. komu fulltrúar FA og framkvæmdastjórar fræðslu- og símenntunarmiðstöðva saman til að ræða stöðu mála og þróun á vettvangi framhaldsfræðslunnar. Hildur Betty Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri FA  opnaði fundinn og reifaði það sem efst er á baugi. Á fundinum voru Maj-Britt H. Briem, lögmaður á vinnumarkaðssviði Samtaka atvinnulífsins og Bergþóra Guðjónsdóttir, sviðsstjóri fræðslusviðs hjá Alþýðusambandi Íslands með erindi um þróun á vinnumarkaði, mikilvægi símenntunar og vottunar á færni í starfi.

Sérfræðingar FA fóru yfir stöðu þróunar og útbreiðslu Fagbréfs atvinnulífsins í samstarfi við hagsmunaaðila og starfsgreinar og kynntu stöðu mála varðandi námskrár og námsleiðir sem og verkefnisins Færni á vinnumarkaði. Inga Dóra Halldórsdóttir, formaður Fræðslusjóðs opnaði á samtal um framkvæmd framhaldsfræðslu og nýtingu fjár þar sem hver framkvæmdastjóri fór yfir stöðu mála. Í lok fundardags kom Ásthildur Lóa Þórsdóttir, mennta- og barnamálaráðherra og átti samtal við hópinn ásamt Ragnhildi Bolladóttur, teymisstjóra framhaldsskólastigsins.

Gagnlegar umræður áttu sér stað sem varpa ljósi á þau skref sem taka þarf í átt að auknum árangri og meiri gæðum í framhaldsfræðslunni – fimmtu stoðar menntakerfisins.

Skráðu þig á póstlista Fræðslumiðstöðvarinnar