Kennsla samkvæmt nýrri námskrá FA, Smiðju 1-2,2 – Færni á vinnumarkaði, hefst í vikunni. Þessi námskrá er afrakstur verkefnis á vegum félags- og vinnumarkaðsráðuneytis (FVRN) sem snýst um að auka náms- og starfstækifæri fyrir fatlað fólk. Verkefnið er unnið í samstarfi Fjölmenntar, Vinnumálastofnunnar (VMST) og Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins (FA) og lítur að námi og þjálfun til að efla færni nemanna til atvinnuþátttöku fyrir vinnumarkaðinn.
Verkefnið er margþætt en hjá FA voru gerðar hæfnigreiningar á alls sex störfum, störfin eru öll á hæfniþrepi 1. Fyrstu þrjár greiningarnar voru gerðar í samstarfi við Fjölmennt. Afurð hæfnigreiningar er starfaprófíll sem sjá má á vef FA.
Þá var skrifuð námskráin Smiðja 1 – 2, 2 Færni á vinnumarkaði sem er almenn (lýsing) á námi til undirbúnings á þátttöku í atvinnulífinu. Við námskrána er skrifuð námslýsing fyrir hvert starf sem um ræðir. FA sá um gerð námslýsinganna sem eru unnar út frá námskránni og starfaprófíl hvers starfs.
Störfin sem um ræðir eru: starf við endurvinnslu; starf í vöruhúsi / á lager; starf við umönnun; starf í leikskóla; starf í verslun og starf við þrif og þjónustu.
Námið fer af stað í líðandi viku og þeirri næstu hjá fræðsluaðilum víða um land.