FRÁ FRAMKVÆMDASTJÓRA

Hildur Betty Kristjánsdóttir

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins (FA) hefur tekist á við mörg spennandi verkefni á árinu með framsækni að leiðarljósi og gegndi starfsfólk FA lykilhlutverki í þeirri vegferð. Árið einkenndist af samvinnu og samstarfi við ýmsa hagaðila, þróun á verkfærum, kynningar á starfsemi og verkfærum hér á landi og erlendis. Mikilvægt er að tryggja réttlát umskipti fyrir alla hópa samfélagsins þegar kemur að því að tryggja tækifæri fólks til menntunar eða sí- og endurmenntunar. Hlutverk FA er að vera leiðandi í að greina, meta og efla hæfni fólks í námi, starfi eða samfélagi í samstarfi við fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar og aðra hagaðila víðsvegar um landið.

Fagbréf atvinnulífsins er eitt af verkfærum FA sem var kynnt til leiks árið 2022. Fagbréfið er afrakstur tilraunaverkefnis FA og símenntunarmiðstöðva í samstarfi við Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins. Í kjarasamningum Starfsgreinasambands Íslands, Eflingar stéttarfélags og Samtaka atvinnulífsins sem skrifað var undir í mars 2024 eru ákvæði um hæfnilaunakerfi, þar sem tengt er við Fagbréf atvinnulífsins og ferli þess við að draga fram viðurkennda færni fólks í starfi.

Í byrjun árs 2023 tók til starfa samstarfshópur sem skipaður var af félags- og vinnumarkaðsráðherra um heildarendurskoðun framhaldsfræðslukerfisins og laga um framhaldsfræðslu nr. 27/2010. Fulltrúar frá FA taka þátt í þeirri vinnu. Í tengslum við heildarendurskoðunina fór FA í sérvinnslu tölulegra gagna úr INNU með það að markmiði að ná gleggri mynd af ferðalagi einstaklingsins í gegnum framhaldsfræðslukerfið. FA Sérfræðingar hafa einnig tekið saman minnisblöð um verkfæri og starfsemi framhaldsfræðslunnar sem nýtast við gerð Grænbókar.

Á ársfundi FA, Rík af reynslu – Lærum af hvert öðru, var áherslan á að draga fram stöðu framhaldsfræðslunnar og framtíð hennar sem fimmtu meginstoðar menntakerfisins. Á fundinum kom fram, að margt hefur áunnist frá því lög um framhaldsfræðslu 27/2010 tóku gildi og áframhaldandi vilji er til að efla þjónustuna í átt að réttlátara samfélagi.

Á árinu leiddu FA og NVL (Norrænt tengslanet um nám fullorðinna) verkefnið Raddir ungra innflytjenda – inngilding í nám, starf og samfélag í farsælu samstarfi við FRN og MRN. Var það hluti af formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni árið 2023. Niðurstöðurnar hafa nýst til frekari þróunar með það að markmiði að fjölga tækifærum fyrir innflytjendur til virkrar þátttöku í samfélaginu, aukinnar hæfni á vinnumarkaði og í námi. Á árinu var metfjöldi innflytjenda sem sótti nám í námskrám FA eða um 49% og er það 17% aukning frá árinu 2022. Ljóst er að fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar víðsvegar um landið hafa unnið markvisst að því að tryggja aðgengi innflytjenda að verkfærum framhaldsfræðslunnar.

FA tók sæti í starfshópi um aukin náms- og starfstækifæri fyrir fatlað fólk. Í þeirri vinnu var stuðlað að samráði og samvinnu á milli ólíkra hagaðila og þá gerast stórkostlegir hlutir. Einstaklingurinn var settur í miðjuna og til varð sameiginleg tillaga FA, Vinnumálastofnunar (VMST), Fjölmenntar og Símenntar um að efla færni fatlaðs fólks til þátttöku á vinnumarkaði. Niðurstaðan er að bjóða upp starfstengt nám með sérsniðnum námskrám FA í tengslum við ákveðin störf innan símenntunarmiðstöðvanna. Námið er bæði bóklegt og starfstengt. Fjölmennt þróar námsefnið, en starfsþjálfun fer fram innan stofnana og fyrirtækja með stuðningi frá VMST. Vinnan er í fullum gangi og haustið 2024 fara 10 símenntunarmiðstöðvar af stað með starfstengt nám sem er uppbyggt á þann hátt að 70 klst. fara í fræðslu og 110 klst. í starfsþjálfun sem lýkur með Fagbréfi atvinnulífsins.

Hjá FA starfar öflugt starfsfólk sem býr yfir sköpunarkrafti, hugrekki, góðri samskiptafærni, er lausnamiðað og ávallt tilbúið að takast á við nýjar áskoranir innan framhaldsfræðslunnar. Ég vil þakka starfsfólki, samstarfsaðilum, stjórn og eigendum FA kærlega fyrir samstarfið á árinu.

FRAMHALDSFRÆÐSLUKERFIÐ MIKILVÆGT TIL AÐ STUÐLA AÐ JÖFNUM TÆKIFÆRUM

Guðmundur Ingi Guðbrandsson,
félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra

Framhaldsfræðslukerfið er og verður mjög mikilvægur vettvangur til að stuðla að jöfnum tækifærum fullorðinna til náms, starfa og alhliða eflingar á hæfni nú á tímum samfélagslegra breytinga og nýrra áskorana. Til að við getum öll verið með, hvert á sinn hátt og út frá einstaklingsbundnum áhuga, getu og vilja, verða að vera til „viðeigandi námstækifæri“ eins og það er orðað í lögum um framhaldsfræðslu nr. 27/2010.

Það nám sem ríkið vill styðja sérstaklega við verður að vera þannig sett fram að fólk í margvíslegum hlutverkum geti stundað námið og sjái með því tilgang og ávinning fyrir næstu verkefni í lífinu. Þannig horfum við, enn og aftur, fram á nýja menntabyltingu þar sem við lærum alla ævi, aldrei sem fyrr. Það er bara staðreynd og í raun grundvöllur samfélaga og lífsgæða í nútímaheimi.

Því hefur það verið áherslumál mitt að endurskoða þetta kerfi og einfalda það svo að það verði skiljanlegra, aðgengilegra og þekktara meðal þeirra fjölbreyttu hópa fullorðinna sem samkvæmt Hagstofu Íslands teljast vera 43.200 manns árið 2022. Það er stór hópur fullorðinna 25 ára og eldri sem ekki hafa námslok á framhaldsskólastigi og stendur í dag til boða meðal annars framhaldsfræðsla.

Það er markmið stjórnvalda að fjölga þátttakendum í námi, úrræðum og ráðgjöf framhaldsfræðslu og endurskoða um leið framsetningu námsins, mat, fyrirkomulag og kostnað. Sú vinna fer nú fram í víðtæku samráði við fjölda hagsmunaaðila, sem þurfa að ráða ráðum sínum, og hafa það eitt meginmarkmið að þróa, bæta og tryggja samstarf milli menntakerfa þar sem hagsmunir og réttindi einstaklinga, sem vilja bæta sinn hag með auknu námi, eru allsráðandi. Það sjónarhorn og fleiri skýrar leiðir til að efla hæfni og hæfileika fólks til að vaxa og dafna á að varða veg framhaldsfræðslunnar og alls stofnanakerfisins.

STARFSEMIN

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins (FA) er verkfærasmiðja sem byggir á samstarfi og þjónustu á vettvangi framhalds- og fullorðinsfræðslu á íslenskum vinnumarkaði. Hlutverk FA er að veita fólki á vinnumarkaði sem ekki hefur lokið námi frá framhaldsskóla tækifæri til styrkja stöðu sína í námi, starfi og samfélagi.

FA starfar á grundvelli þjónustusamnings við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið auk samnings við mennta- og barnamálaráðuneytið, um verkefni á sviði framhaldsfræðslu samkvæmt lögum nr. 27/2010. FA er í eigu SA, ASÍ, BSRB, fjármála- og efnahagsráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga og byggir allt starf sitt á víðtækri samvinnu við hagsmunaaðila.

  • Greina hæfnikröfur starfa á vinnumarkaði.
  •  Vinna að þróun og viðurkenningu raunfærnimats í samstarfi við atvinnulíf og fræðsluaðila.
  • Auka framboð á almennum og starfstengdum námskrám (sem byggja á þrepatengdum hæfniviðmiðum) fyrir markhópinn í samvinnu við samstarfsaðila, menntakerfið og vinnumarkaðinn.
  • Efla ráðgjöf meðal einstaklinga sem ekki hafa lokið námi á framhaldsskólastigi til þess að styrkja stöðu þeirra í námi starfi og samfélagi.
  • Tryggja gæði í starfi fræðsluaðila með þróun og innleiðingu á gæðakerfi fyrir framhaldsfræðsluna.
  • Taka þátt í innlendu og erlendu samstarfi þar sem hagsmunir markhópsins og atvinnulífs eru í fyrirrúmi.
  • Miðla upplýsingum um árangur starfsins, nýjungar og þróun framhaldsfræðslu.
  • Þróa aðferðir til að styðja við framkvæmd náms og nýtingu verkfæra.
  • Undirbúa aðkomu nýrra hópa að framhaldsfræðslu og nýta samlegðaráhrif í starfi FA.
  • Annast umsýslu Fræðslusjóðs og fjárreiður hans.

Frá 2005 hefur FA hýst landstengilið Íslands í Norræna tengslanetinu um nám fullorðinna (NVL) með fjármagni frá Norrænu ráðherranefndinni.
Jafnframt hefur FA frá 2017 hýst Hæfnisetur ferðaþjónustunnar sem vinnur samkvæmt þjónustusamningi við menningar- og viðskiptaráðuneytið um uppbyggingu á hæfni starfsfólks í íslenskri ferðaþjónustu. Hæfnisetrið, Fræðslusjóður og NVL gefa út eigin ársskýrslur.

FA hélt úti þremur vefjum auk fræ.is; hver um sig með skilgreind markmið og markhóp. Þeir eru: Næsta skref, upplýsingavefur um nám og störf sem fluttist til Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu á árinu, Gátt, veftímarit um fullorðinsfræðslu og hæfni.is þar sem finna má fræðslu- og stuðningsefni fyrir stjórnendur og starfsfólk í ferðaþjónustu.

Samstarfsaðilar

Starf FA grundvallast á samstarfi við aðila vinnumarkaðarins, menntakerfið, stéttarfélög, fagfélög, fyrirtæki og stofnanir. Framkvæmd er unnin í samstarfi við 14 viðurkenndar fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar um land allt. Fjármögnun til fræðslu- og símenntunarmiðstöðva er í gegnum Fræðslusjóð með áherslu á raunfærnimat, námskrár FA og ráðgjöf. Fræðslusjóður úthlutar samkvæmt eigin samþykktum skilmálum og úthlutunarreglum. Að auki starfar FA með fjölbreyttum hópi sérfræðinga hérlendis og í Evrópu í gegnum ákveðin verkefni og tengslanet.

Helstu samstarfsaðilar á árinu:

  • Aðilar vinnumarkaðarins
  • Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið
  • Mennta- og barnamálaráðuneytið
  • Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið
  • Framhaldskólar
  • Háskólar
  • Fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar
  • Fræðslu- og starfsmenntasjóðir
  • Miðstöð menntunar og skólaþjónustu
  • Rannís
  • Vinnumálastofnun
  • VIRK starfsendurhæfingasjóður
  • Húsnæðis- og mannvirkjastofnun
  • Fjölmennt
  • Heilbrigðisráðuneytið
  • Fjölmenningasetur
  • Símennt
  • Félag náms- og starfsráðgjafa
  • Norræna ráðherranefndin
  • Norrænt tengslanet um nám fullorðinna (NVL)
  • Miðstöð fagháskóla í Svíþjóð (Myh)
  • Miðstöð menntamála í Svíþjóð (Skolverket)
  • Miðstöð háskólamenntunar og hæfni í Noregi (HK-dir)
  • Kennarasamband Íslands
  • Samtök iðnaðarins
  • Þroskahjálp

Ný verkefni á árinu

  1. Starfsmenntasjóður Verslunar- og skrifstofugreina gerði samning við FA um að ná fram yfirsýn og skilningi varðandi hæfnikröfur ákveðinna starfa innan verslunar-, skrifstofu- og ferðaþjónustugreina.
  2. Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið gerði samning við FA um að endurskoða hæfniþætti sem þarf til að sinna starfi iðnmeistara.
  3. Rafmennt gerði samning við FA um að hæfnigreina fjögur störf; sviðstjórn, lifandi myndir, ráðstefnutæknir og tímbundin mannvirki.
  4. Þróun Fagbréfa atvinnulífsins í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins í tengslum við uppbyggingu hæfnilaunakerfa tengt kjarasamningagerð.

Viðburðir á árinu

Fórir stórir viðburðir voru haldnir á árinu í umsjón FA. Auk þeirra fóru fram fjölbreyttir samráðsfundir með samstarfsaðilum, þjálfun fyrir matsaðila vegna aðferðafræði Fagbréfa atvinnulífsins, vinnustofur og námskeið fyrir fagaðila í raunfærnimati, ráðgjafa og verkefnastjóra á vettvangi framhaldsfræðslunnar. Markmiðið er alltaf að miðla reynslu, þjálfa, læra hvert af öðru og hvetja til umræðu um vettvanginn og markhóp framhaldsfræðslunnar.

  1. Í verkefninu Raddir innflytjenda – inngilding í nám, starf og samfélag var haldin norræn vinnustofa sérfræðinga í samstarfi við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, mennta- og barnamálaráðuneytið og NVL. Yfir 80 sérfræðingar komu saman til að vinna með niðurstöður rýnihópavinnu með ungum innflytjendum og hópi hagsmunaaðila tengdum innflytjendamálum. Unnið var samkvæmt aðferðafræði hönnunarhugsunar sem er yfirfæranleg á aðra hópa.
  2. Lokaráðstefna NOVA-Nordic verkefnisins var haldin í Malmö 19. – 21. apríl sem hluti af stærri alþjóðlegri ráðstefnu undir yfirskriftinni Skills Meetup Sweden. Þátttakendur voru 150 á staðnum og 225 á netinu. Niðurstöður verkefnisins voru kynntar (samanburðarskýrsla landa, dæmi og helstu áskoranir), boðið upp á vinnustofur um fjölbreytt dæmi um tengingu óformlegs náms við innlenda hæfniramma. Sjá efni af ráðstefnunni hér.
  3. Ársfundur FA var haldinn 14. nóvember í samstarfi við NVL undir yfirskriftinni Rík af reynslu – lærum hvert af öðru. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, opnaði fundinn. Tveir norrænir sérfræðingar fjölluðu um áherslur í færniþróun í Svíþjóð og Noregi og Jón Torfi Jónasson stýrði pallborði þar sem stefna og verkfæri við færniuppbyggingu á Íslandi var rædd í hópi hagsmunaaðila. Kallað var eftir víðtæku samstarfi aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda um framtíð framhaldsfræðslukerfisins í takt við þarfir atvinnulífsins. Að venju voru veittar viðurkenningar til fyrirmynda í námi fullorðinna og féllu þær í skaut Péturs Erlingssonar, Beata Justyna Bistula og Ómars Farooq Ahmed.
  4. FA og Símennt héldu sameiginlegan haustfund í Vestmannaeyjum. Alls voru þrjár vinnustofur á þessum tveggja daga fundi þar sem FA kynnti meðal annars verkefnin Raddir innflytjenda og Ferðalag einstaklingsins í gegnum framhaldsfræðslukerfið.

SÝN ATVINNULÍFSINS Á FRAMHALDSFRÆÐSLUNA TIL FRAMTÍÐAR

Maj-Britt Hjördís Briem,
lögmaður á vinnumarkaðssviði hjá SA og stjórnarformaður FA

Mörg framfaramál í íslensku samfélagi hafa sprottið upp úr kjarasamningum. Fræðslumiðstöð atvinnulífsins (FA) er þar gott dæmi, en frumkvæðið að stofnun hennar kom frá Alþýðusambandi Íslands og Samtökum atvinnulífsins í kjölfar kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. FA var þar með falin ábyrgð á þróun verkfæra sem veita eiga fólki á vinnumarkaði, sem ekki hefur lokið formlegri menntun, tækifæri til að afla sér menntunar eða fá hæfni sína á vinnumarkaði metna og staðfesta. 

FA er leiðandi í að greina, meta og auka hæfni á íslenskum vinnumarkaði. Því er óhætt að segja að FA sé öflugur samstarfsvettvangur um fimmtu stoð menntakerfisins – framhaldsfræðsluna. Mikilvægt er að áframhald verði á því að þróaðar séu sérstakar námsleiðir fyrir fólk sem stendur fyrir utan formlega menntakerfið og mikilvægi þess að færni þessa hóps sé metin og staðfest eykst með ári hverju. Um er að ræða stóran hóp fólks sem hefur aflað sér þekkingar og færni á vinnumarkaðnum en þau verkfæri og leiðir sem FA hefur þróað henta einnig vel fyrir innflytjendur sem og fatlað fólk.

Það er ljóst að íslenskur vinnumarkaður tekur örum breytingum og tæknivæðing krefst nýrrar hæfni hratt, hraðar en formlega menntakerfið getur brugðist við. Gott samstarf og samtal við atvinnulíf um þarfir og áherslur er lykillinn að árangri. Verkfæri þarf að þróa í takt við þarfirnar, kortleggja þarf störf, rýna hæfnikröfur starfa. Leggja þarf áherslu á að menntun eigi sér ekki einungis stað innan formlegs skólakerfis heldur að einstaklingar stunda einnig nám á vegum framhaldsfræðsluaðila, hjá símenntunarmiðstöðvum, á vettvangi óháðra fræðsluaðila og á vinnustöðunum sjálfum. 

FA hefur verið leiðandi í þróun og nýsköpun á sviði framhaldsfræðslu. Það er hlutverk FA að efla framboð á námstækifærum fyrir fólk á vinnumarkaði með litla formlega menntun en einnig að tryggja að mat á hæfni, þekking og nýsköpun á vinnumarkaði verði áfram í samræmi við þarfir atvinnulífsins. Á því hagnast bæði starfsfólk, atvinnulífið og samfélagið í heild sinni.

VERKFÆRI FRAMHALDSFRÆÐSLUNNAR

FA þróar verkfæri innan framhaldsfræðslunnar í samstarfi við menntakerfið, stéttarfélög, fagfélög, fyrirtæki og stofnanir í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins. Hæfniviðmið eru grunnur verkfæranna með tengingu við þrep íslenska hæfnirammans um menntun.

Raunfærnimat

Mat á raunfærni er í auknum mæli álitið vera helsta verkfærið til að efla þátttöku í sí- og endurmenntun og hafa mörg Evrópulönd lagt áherslu á að draga fram og viðurkenna það nám sem á sér stað utan hins formlega skólakerfis, til dæmis á vinnustöðum, í frítíma sem og í gegnum fjölskyldu- og einkalíf. Frá árinu 2004 hefur það verið hlutverk Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins að miðla aðferðafræði raunfærnimats, samhæfa vinnulag, útbúa skimunar- og matslista, þjálfa fagaðila sem sinna raunfærnimati, safna tölfræðilegum upplýsingum og veita ráðgjöf í ferlinu. Raunfærnimatskerfi framhaldsfræðslunnar hefur vakið athygli erlendis undanfarin ár og árið 2022 var Fræðslumiðstöð atvinnulífsins beðin um og falið að hafa umsjón með alþjóðlegri ráðstefnu um mat á óformlegu og formlausu námi (4th VPL Biennale). Á síðastliðnu ári tóku sérfræðingar FA virkan þátt í undirbúning þeirrar ráðstefnu (5th VPL Biennale) á Írlandi 2024.

Til að raunfærnimat megi vaxa og dafna í samfélaginu í samstarfi þeirra hagsmunaaðila sem því tengjast hverju sinni skiptir máli að raunfærnimatsferli sé ávallt unnið eftir settum gæðaviðmiðum sem tryggja áreiðanleika og réttmæti niðurstaðna. Evrópusambandið hefur þróað leiðbeiningar sem styðjast má við í þessu samhengi og hafa verið uppfærðar reglulega frá því 2004. Árið 2023 voru leiðbeiningarnar uppfærðar (European guidelines for validating non-formal and informal learning) og þar er meðal annars komið inn á mikilvægi þess að fagaðilar (verkefnastjóri, matsaðili og ráðgjafi) í raunfærnimatsferlinu fái viðeigandi þjálfun áður en þeir hefja vinnu við raunfærnimat. Það er liður í að tryggja gæði ferlisins að vera með samræmda aðferðafræði raunfærnimats til að varða gæðin gagnvart þátttakendum og niðurstöðum sem er þeirra eign. FA hefur undanfarin ár stutt við innleiðingu raunfærnimats í háskólum með því að kynna hugmyndafræðina, framkvæmd og þjálfa fagaðila. Einnig hefur FA hlutverk í að kynna og styðja við innleiðingu í framhaldsskólana. Þannig hafa fleiri tækifæri á að byggja á því óformlega og formlausa námi sem þau hafa með sér úr lífi, námi og starfi.

Raunfærnimat framhaldsfræðslunnar var vel nýtt á árinu. Fjöldi þeirra sem fara í gegnum kerfið takmarkast við það fjármagn sem Fræðslusjóður veitir og þær áherslur sem markaðar hafa verið með stjórnvöldum um framkvæmd.

Alls fóru 644 einstaklingar á gegnum mat á raunfærni á vegum framhaldsfræðslunnar á árinu, og er skipting á milli kynja nokkuð jöfn eða konur 49% og karlar 51% en það eru mun fleiri konur sem sækja raunfærnimat í starfsnámi og fleiri karlar sem sækja raunfærnimat í iðngreinum og má álykta að þetta endurspegli kynjaskiptingu á vinnumarkaði. Meðalaldur þeirra sem fóru í raunfærnimat 2023 var 37,7 ár og samtals voru 12% þeirra sem fóru í gegnum raunfærnimat innflytjendur.

Flestir fóru í gegnum raunfærnimat á sjúkraliðabraut (65 manns), húsasmíði (58 manns), í almennri starfshæfni (54) og leikskólaliða (43). Raunfærni var metin á móti formlegu og óformlegu námi sem og viðmiðum starfa. Sífellt bætast ný svið við þar sem hægt er að fá reynslu af vinnumarkaði metna og vottaða.

1. Raunfærnimat til styttingar á námi

Raunfærnimat til styttingar á námi hefur verið í boði á vegum framhaldsfræðslunnar frá árinu 2007. FA hefur unnið markvisst að því að fjölga leiðum í raunfærnimati í samstarfi við hagsmunaaðila og voru fyrstu verkefnin tengd iðngreinum en nú er raunfærnimat í boði fyrir flestar starsnámsbrautir. Framkvæmd raunfærnimats er á ábyrgð gæðavottaðra fræðslu- og símenntunarmiðstöðva víðsvegar um landið og eru niðurstöður þátttakenda að loknu raunfærnimati skráðar í nemendakerfið INNU.

Ef tekið er meðaltal síðustu fimm ára má sjá að hlutfall þátttakenda í raunfærnimati á starfsnámsbrautum og þátttakenda í raunfærnimati í iðngreinum sem lýkur með sveinsprófi hefur jafnast. Árið 2023 var ekki boðið upp á raunfærnimat í Almennum bóklegum greinum.

Dæmi um starfsnámsbrautir þar sem tekist hefur vel til eru fisktækninám, sjúkraliðabraut, matartækni, félagsliðabraut, leikskólaliðabraut og stuðningsfulltrúabraut.

Samhliða fjölgun leiða á starfsnámsbrautum verður breyting á kynjahlutfalli þátttakenda og það fjölgar í hópi kvenna sem ljúka raunfærnimati til styttingar á námi. Það hangir á því að í auknum mæli er boðið upp á raunfærnimat í störfum sem eru að miklu leyti mönnuð af konum. Hlutfall kvenna er marktækt að aukast þegar horft er til síðustu ára.

Á árinu fengu 25 fagaðilar þjálfun í aðferðafræði raunfærnimats til styttingar á námi og 15 matsaðilar í aðferðafræði Fagbréfs atvinnulífsins (úr sex fyrirtækjum) Samtals hafa þá 724 fagaðilar fengið þjálfun hjá FA frá árinu 2007.

Ávallt er fylgt skilgreindu ferli í raunfærnimati samkvæmt eftirfarandi yfirlitsmynd:

2. Raunfærnimat til staðfestingar á færni til að sinna ákveðnu starfi

Með raunfærnimati er færni starfsfólks metin út frá hæfniviðmiðum starfs. Í framhaldi fer fram þjálfun og fræðsla sem tekur mið af niðurstöðum matsins. Þegar öllum hæfniviðmiðum starfsins er náð er færnin staðfest með Fagbréfi atvinnulífsins fyrir viðkomandi starf. Í því felst ávinningur fyrir fyrirtæki og starfsfólk. Horft er til starfa sem ekki krefjast formlegrar menntunar og eru líkleg til að taka miklum breytingum í náinni framtíð.

Ávallt er fylgt skilgreindu ferli samkvæmt eftirfarandi yfirlitsmynd:

Mikil þróunarvinna hefur átt sér stað síðustu ár vegna uppbyggingar á sjálfbæru kerfi fyrir þetta nýja verkfæri. Fagbréf atvinnulífsins byggja á aðferð við að greina lykilhæfni starfa og kallast sú greining hæfnigreining.

Hlutverk FA er að vera umsjónaraðili fyrir Fagbréf atvinnulífsins sem felur í sér:

  • að tryggja gildi niðurstaðna með kröfum um aðferðafræði og gæði framkvæmdar
  • að móta og uppfæra hæfniviðmið fyrir störf
  • að gefa út Fagbréf atvinnulífsins

Til umhugsunar inn í framtíðina

  • Mikilvægt er að þátttakendum gefist kostur á að meta sig á móti sem flestum áföngum námskráa því ekki er vitað fyrirfram hvaða færni fólk ber með sér. Of mikil afmörkun á áföngum til mats getur haft áhrif á sanngirni matsins.
  • Brýnt er að miðla hugmyndafræði og aðferðafræði raunfærnimats áfram á skýran og markvissan hátt, því enn gætir vantrúar í garð færni sem aflað er utan formlega skólakerfisins.
  • Mikilvægt er að tryggja samræmda aðferðafræði við innleiðingu raunfærnimats til að varða gæði niðurstaðna og áreiðanleika verkfærisins. Þá er brýnt að skráning á niðurstöðum sé greið í INNU, bæði bóklega áfanga og vinnustaðahluta náms, en hæfniviðmið þeirra fara oftast saman. Þetta á sérstaklega við nú þegar áhersla er á að framhaldsskólar taki upp raunfærnimat og með tilkomu Rafrænnar ferilbókar um vinnustaðahluta náms.
  • Fagbréf atvinnulífsins hafa sýnt sig vera verkfæri sem nær til hluta markhóps framhaldsfræðslunnar sem ekki hefur nýtt sér núverandi leiðir til færniþróunar. Sýnileiki á hæfni í starfi er hvati til starfsþróunar og vottunin sem slík nýtist á þann hátt sem og á milli fyrirtækja. Það eflir því hreyfanleika á vinnumarkaði og er ávinningur fyrir fólk og fyrirtæki.

Hæfnigreiningar FA

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins hefur þróað aðferð við að greina lykilhæfni starfa. Slík greining kallast hæfnigreining starfs og mótar hún starfaprófíl sem er grunnur að uppbyggingu náms eða raunfærnimats . Hæfniþættirnir sem FA notar við hæfnigreiningu koma frá kanadíska ráðgjafarfyrirtækinu HRSG sem hefur unnið að þróun þeirra í meira en 30 ár en þeir lýsa á hlutlægan hátt mikilvægri hæfni fyrir atvinnulífið. FA hefur þýtt og aðlagað efnið að íslenskum aðstæðum.

Hæfnigreiningar FA hafa reynst vel þar sem aðkoma atvinnulífs er hluti af ferlinu. Lögð er áhersla á að ná samnefnara fyrir störf á vinnumarkaði, innan starfsgreinar þvert á fyrirtæki. Með hæfnigreiningu starfa verða hæfnikröfur starfanna sýnilegar og geta þar með stutt við (a) ráðningar og starfsþróun (b) starfstengdar námskrár sem FA skrifar, og (c) raunfærnimat á móti viðmiðum starfa (Fagbréf atvinnulífsins).

Á síðasta ári fór FA í heildarenduskoðun á hæfnigreiningaferlinu. Áður voru þrír greiningarfundir en nú eru þeir fjórir. Með þeirri breytingu bætist við matslisti sem nýta má við raunfærnimat.

Hæfnigreiningar á árinu

  • Slökkviliðsmaður
  • Blikksmíði
  • Tímabundin burðarvirki
  • Ráðstefnutækni
  • Sviðsstjórn
  • Lifandi myndir- kvikmyndastjórn
  • Starf á lager
  • Starf við endurvinnslu

Ávallt er fylgt skilgreindu ferli við hæfnigreiningu samkvæmt eftirfarandi yfirlitsmynd:

Námskrár og námsleiðir

Á árinu 2023 voru fjórar námskrár vottaðar hjá Menntamálastofnun (MMS). Þjár þeirra eru hluti af námslínu í ferðaþjónustu. Fjórða námskráin sem fékk vottun er Smiðja 2-1 sem er námskrá á hæfniþrepi tvö. Megintilgangur náms í Smiðju er að nemar kynnist fjölbreyttum vinnuaðferðum þar sem reynir á samþættingu huga og handa, sköpunarkraft og tjáningaform.

Námslínan í ferðaþjónustu er frá grunni unnin í samstarfi FA og Hæfniseturs ferðaþjónustunnar, við nokkra framhaldsskóla og símenntunarmiðstöðvar. Námslínan inniheldur þrjár sérhæfingar, móttaka; veitingar; böð, lindir, lón. Kjarni námsins er 40 einingar og sérhæfing er 50 einingar, námslok eru að 90 einingum loknum. Með þessari námslínu fjölgar möguleikum til námsloka á öðru þrepi íslenska hæfnirammans um menntun.

Námsleiðir (uppbrot námskráa)

FA hefur þróað leið til að brjóta upp námskrár framhaldsfræðslunnar (örvottun) til að svara ákalli um fjölbreyttara námsframboð fyrir markhópinn.

Með þessum möguleika er aukinn sveigjanleiki fyrir fræðsluaðila til að sníða hluta af námskrám (einni eða fleiri námskrám) saman í nýja námsleið til að koma sem best til móts við þarfir markhópsins, fyrirtækja og stofnana.

FA veitir fræðsluaðilum slíkt leyfi að uppfylltum ákveðnum skilyrðum til samræmingar og útlistun á því sem um ræðir hverju sinni. Meðal skilyrða er að: i) námsleið hafi heiti sem er lýsandi fyrir innihaldið; ii) námsleið byggir á námsþáttum úr vottuðum námskrám FA, heildarlengd að lágmarki 40 klst. heildarvinnuframlag nema; iii) námsþættir skulu vera óbreyttir úr námskrá og ekki heimilt að gera breytingu, hvorki tímalengd, innihaldi eða hæfniviðmiðum. Fræðsluaðili þarf að sækja um leyfi til FA fyrir námsleið á sérstöku rafrænu eyðublaði. Þegar námsleið er samþykkt er afurðin sett á vef FA fyrir alla fræðsluaðila til nýtingar.

Alls luku 2261 einstaklingur námi frá námskrám FA á árinu 2023.

Þegar tölur yfir skiptingu nemenda milli íslenskra og erlendra ríkisborgara eru skoðaðar kemur í ljós að víða eru fleiri erlendir ríkisborgarar sem sækja í nám til símenntunarmiðstöðva. Sem dæmi má nefna Suðurnes þar sem 55% allra sem sækja nám eru erlendir ríkisborgarar og 58% nema á höfuðborgarsvæðinu. Á Suðurlandi eru erlendir ríkisborgarar 30%, 57% á Vesturlandi, 42% á Vestfjörðum og 14% á Austurlandi. 

Hlutfall erlendra ríkisborgara er 49% á móti 51% íslenskra þegar heildarfjöldi er skoðaður. Af þessum tölum sést glögglega að mikil þörf er fyrir framboð á námi fyrir bæði íslenska sem erlenda borgara. Erlendir ríkisborgarar sækja einkum í ýmis starfstengd námsframboð en auk þess í íslensku sem er þá ýmist starfstengt mál eða almenn íslenska. Um 20% námskráa árið 2023 voru kenndar á öðru tungumáli en íslensku.

Þegar skoðað er hverskonar nám fólk sækir helst í út frá fjölda nemenda sést að starfstengt nám er algengasti flokkurinn. Eins og sjá má á töflunni hér fyrir ofan kemur í ljós að mest er sótt í starfstengt nám (í formi námskráa/námsleiða) en tiltölulega lítið í nám sem er eingöngu bóklegt.

Menntastoðir eru eina námskráin af þeim 10 mest sóttu árið 2023 sem fellur undir hefðbundið bóklegt nám en aðrar eru starfstengdar eða til uppbyggingar á færni og sjálfseflingu einstaklinga.

Ráðgjöf um nám og störf

FA er í samstarfi við ráðgjafa fræðslu- og símenntunarmiðstöðva um land allt til þess að þróa og stuðla að gæðum á sviði ráðgjafar um nám og störf á vettvangi. Eitt af markmiðum FA er að efla sérfræðiþekkingu í ráðgjöf innan framhaldsfræðslunnar með því að halda utan um samstarf ráðgjafa, ásamt því að leita leiða til að efla gæði þjónustunnar í gegnum þróun aðferðafræði og endurgjöf frá notendum. Haldnir eru samstarfsfundir með ráðgjöfum tvisvar á ári. Í samstarfsneti FA eru um 25 til 27 ráðgjafar. Þeirra starf gengur meðal annars út á að vera með kynningarfundi á vinnustöðum, einstaklingsviðtöl og hópráðgjöf, þátttöku í virkniaðgerðum fyrir atvinnuleitendur, verkefnum í raunfærnimati og þróun aðferðafræði í samstarfi við FA, meðal annars í gegnum erlend þróunarverkefni. Allar miðstöðvar skila ársskýrslum og tölfræðiupplýsingum til FA.

Ráðgjöfinni er ætlað að ná til markhópsins með upplýsingar og hvatningu til símenntunar. Fjöldi ráðgjafarviðtala á árinu með endurkomum var 9.444. Af þeim sem komu í ráðgjöf eru langflest í starfi eða 63,5%, 11% eru í atvinnuleit, 14% í starfsendurhæfingu og 6,5% í námi. Flestir atvinnuleitendur í ráðgjöf voru á Suðurnesjum Vesturlandi og á Vestfjörðum.

Algengasta inntak ráðgjafarviðtala tengist raunfærnimati, eða um 26% viðtala. Á það við um skimunarviðtal þar sem fólk mátar sig við raunfærnimat í ákveðinni grein; færnimöppugerð, stuðning inni í matssamtali (valkvætt af hálfu þátttakanda) og viðtal að ferli loknu til að taka ákvörðun um næstu skref (eftirfylgniviðtal). Mikið er einnig um að fólk komi til að afla sér upplýsinga almennt um nám og til að leita sér aðstoðar við ferilskrárgerð. Rúmur helmingur þeirra sem kom í viðtal á árinu gerði það að eigin frumkvæði (58%). Minna hefur verið um vinnustaðaheimsóknir af hálfu ráðgjafa undanfarin ár.

Rafræn viðtöl voru 41% af heildarfjölda viðtala á árinu og hefur fækkað um 10% frá því 2021 þegar COVID stóð sem hæst. VISKA í Vestmannaeyjum notar nánast eingöngu rafræn viðtöl og einnig er meirihluti viðtala rafrænn hjá IÐUNNI-fræðslusetri (77%). Kynjahlutföll eru nokkuð jöfn. Flest sem sækja ráðgjöfina eru á aldrinum 26-35 ára eða 36% og þar á eftir 36-45 ára eða 24%. Þá hafa flest í hópnum hafið nám á framhaldsskólastigi en ekki lokið því eða 49,34% og þau sem eingöngu höfðu lokið grunnskóla voru 21,52%. Alls 80% þeirra sem koma í ráðgjöf eru í markhópi framhaldsfræðslunnar.

Kynjahlutfall hefur haldist nokkuð jafnt í gegnum árin en konum er þó að fjölga sem skýrist að mestu af því að konur sækja meira í raunfærnimat en áður.

Töluvert hefur fjölgað í hópi innflytjenda og telja þeir 26% þeirra sem sækja sér ráðgjöf um nám og störf. Flest koma frá Póllandi, Úkraínu og Venesúela. Fjöldi innflytjenda hefur verið að aukast jafnt og þétt. Á samráðsfundum um ráðgjöfina hefur komið fram að á sumum svæðum hefur orðið mikil aukning innflytjenda í ráðgjöf. Mesta þörfin er fyrir aðstoð við gerð ferilskráa auk þess sem óskað er eftir stuðningi inn í starf og nám.

Haldnir voru tveir örfundir (á netinu) með starfsfólki frá fræðslu- og símenntunarmiðstöðvum og staðfundur heilan dag þar sem farið var yfir þróun mála í ráðgjöf á vettvangi framhaldsfræðslunnar, fulltrúi Vinnumálastofnunar fór yfir þjónustuþróunina hjá þeim þar sem þau þjónusta nú innflytjendur í auknum mæli. Rýnt var í ferli og ávinning af raunfærnimati í almennri starfshæfni, miðlað reynslu af aðferðum og verkfærum og unnin hópavinna.

Kennslumiðstöðin

Á árinu voru haldnir nokkrir fundir með samstarfsaðilum og farið yfir helstu áherslur kennslufræði fullorðinna. Unnið er að endurskoðun á námskeiðum í samstarfi við fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar til að miðla nýjungum í kennslufræði í tengslum við aukna áherslu á stafræna kennslu til samstarfsaðila.

EQM/EQM+ gæðavottun

Við lok ársins 2023 voru 19 fræðsluaðilar og fyrirtæki með vottun; flest eru með EQM+ og einstaka hafa EQM þar sem starfsemin snýst einvörðungu um fræðslu. Allir 14 samstarfsaðilar FA á vettvangi framhaldsfræðslunnar eru með EQM+ gæðavottun. Ein forsenda þess að fræðsluaðilar fái framlög úr Fræðslusjóð er að þeir hafi fengið gæðavottun sbr. 7. gr. laga 27/2010 og 4. gr reglugerðar 1163/2011 um framhaldsfræðslu. Fræðslumiðstöð atvinnulífsins hefur boðið þeim sem starfa að framhaldfræðslu upp á EQM og EQM+ gæðakerfið, sem sérstaklega er sniðið að þeirra þörfum.

EQM/EQM+ gæðavottun fyrir fræðsluaðila í fullorðinsfræðslu og fræðsludeildir fyrirtækja og stofnana hefur verið í stöðugri þróun með samstarfsaðilum frá því það var fyrst tekið í notkun árið 2008. Þá var því einungis ætlað að ná utan um fræðslustarfið en í dag nær það einnig utan um raunfærnimat og náms- og starfsráðgjöf.

Gæðavottunin felur í sér viðurkennd gæðaviðmið fyrir fræðslu, ráðgjöf um nám og störf og raunfærnimat:

EQM vottun: Fræðslustarf
EQM+ vottun: Fræðslustarf, raunfærnimat og náms- og starfsráðgjöf
EQM/EQM+ er hannað til að mæta síauknum kröfum um gagnsemi, gagnsæi í framkvæmd og skjölun og sameiginleg gæðaviðmið fyrir aðila utan hins formlega skólakerfis. EQM/EQM+ tekur mið af:

  • gæðum þjónustunnar sem veitt er
  • innri gæðastjórnun og verklagsreglum
  • hvernig núverandi starfshættir samræmast viðurkenndum gæðaviðmiðum.

FA heldur utan um heildarferli vegna gæðavottunar viðurkenndra fræðsluaðila og gerir samning við fyrirtæki til að sjá um úttekt í samræmi við þá staðla sem í gildi eru hverju sinni. Úttekt hjá fræðsluaðilum fer fram á þriggja ára fresti en milli þess skila fræðsluaðilar sjálfsmatsskýrslu til FA.

NVL - Norrænt tengslanet um nám fullorðinna

Fulltrúar FA og fleiri hagaðila á Íslandi taka þátt í fjölbreyttum netum á vegum NVL og miðla þekkingu um nám fullorðinna á norrænum vettvangi. Hvert net vinnur að afmörkuðum verkefnum út frá áherslusviðum
hverju sinni. Efninu er jafnframt miðlað á vettvangi framhaldsfræðslunnar og í Gátt-veftímariti um nám fullorðinna.

Starfandi net á árinu voru sjö talsins. Þau eru:

  1. Stafræn inngilding fullorðinna til virkrar þátttöku í samfélaginu
  2. Stafræn hæfni á vinnumarkaði með áherslu á störf iðnverkafólks
  3. Raunfærnimat
  4. Ráðgjöf fullorðinna
  5. Alfaráðið
  6. Sjálfbærni
  7. Menntun í fangelsum

Helstu afurðir NVL neta á árinu voru:

  • 10 ráð til fræðsluaðila um sjálfbærni í námi.
  • Fimm ráð um stafræna inngildingu í samfélaginu.
  • Nám í Norðri – vefstofa með miðlun um og samantekt á stefnu og leiðum í innflytjendamálum.
  • Skýrsla um stöðu samhæfingar starfsferilsráðgjafar í Danmörku og á Íslandi.
  • Tilraunakeyrsla námshringja varðandi eflingu á sjálfbærni í námi fullorðinna.
  • Miðlun gæðaviðmiða í starfsferilsráðgjöf.
  • Innblástursdæmi um starfsþróun og nám fyrir fanga.
  • Fjölbreytt samstarf norrænna neta og miðlun nýrra leiða í gegnum hlaðvörp og á samfélagsmiðlum.
  • Fjölmargar vefstofur og ráðstefnur til miðlunar ofangreinds efnis.

Starfið á Íslandi:

  • Fundur með fulltrúum Íslands í netum til að miðla inntaki neta og ræða tengingar og þróun á milli málaflokka sem og tækifæri innanlands byggt á NVL afurðum og framtíðarsýn.
  • Stuðningur við ferla, vinnustofu og verkfæragerð í verkefninu Raddir ungra innflytjenda – inngilding í nám, starfs og samfélag.
  • Undirbúningur, framkvæmd og norrænt framlag á Ársfundi FA.
  • NVL styrkti samstarfsfund vegna þróunar ráðgjafar á vettvangi framhaldsfræðslunnar að hausti.
  • Stuðningur við vefstofur á vegum NVL- neta. Þátttaka í undirbúningi og framkvæmd ársfundar FA, til að miðla upplýsingum frá öðrum Norðurlöndum.

Tímabundin erlend verkefni

1. Innleiðing reynslunáms (EES verkefni)

Innleiðing reynslunáms í námi ungs fólks í Póllandi. Áhersla verkefnisins er á að þjálfa kennara í aðferðum reynslunáms (e. Experiencal learning) í frístundamiðstöðvum fyrir ungt fólk á aldrinum 6-25 ára í Póllandi.
Samstarfsverkefni Póllands, Slóveníu og Íslands þar sem FA kemur að sem ráðgefandi aðili. Verkefnið er styrkt af uppbyggingasjóði EES.

2. NOVA – Nordic (Erasmus KA2)

NOVA – Nordic verkefnið er Norrænt samstarfsverkefni um leiðir til að tengja óformlegt nám við innlenda hæfniramma. Á árinu var lokaráðstefna verkefnisins haldin í Malmö til að kynna samanburðarskýrslu og greiningu á fyrirmyndardæmum frá Norðurlöndunum og nokkrum Evrópulöndum. Út frá niðurstöðum verkefnisins voru útbúin 11 tilmæli sem snúa að gæðaþáttum sem þarf til að ferli sem snýr að tengingu óformlegs náms við innlenda hæfniramma verði sjálfbært. Þannig má efla gagnsæi á óformlegt nám og tengingar á milli kerfa, fólki, atvinnulífi og samfélagi til hagsbóta.

Á Íslandi vann FA að greiningu á stöðu mála með Menntamálstofnun og mennta- og barnamálaráðuneytinu. Flest óformlegt nám er hægt að formgera ef skýrir ferlar eru til staðar. Er þess vænst að með vinnu hagsmunaaðila opnist á aukna tengingu óformlegs náms við innlenda hæfniramma með auknum sýnileika á færni almennt og aukinni útbreiðslu á nýtingu hæfniviðmiða í þjálfun, fræðslu og námi.

3. TRANSVAL (Erasmus KA3)

Á árinu var lokaráðstefna verkefnisins haldin í Stokkhólmi. Verkefnið gengur út á að þróa og prufa raunfærnimat í yfirfæranlegri hæfni og draga fram þá leiðsögn og ráðgjöf sem þörf er á í ferlinu. Þau fimm þátttökulönd sem prufukeyrðu ferlið miðluðu reynslu sinni og hvernig þau áætla að vinna að því að tækifæri fyrir fólk til að vinna með yfirfæranlega færni sína verði aðgengileg og studd af sveitarfélögum. Stór rannsókn var unnin samhliða prufukeyrslunni sem sýnir fram á valdeflingu ferlisins og dróg fram mikilvæga gæðaþætti.

FA hefur miðlað ferlinu um raunfærnimat í almennri starfshæfni sem þróað var 2012-2014 hér á landi og hefur sýnt góðan árangur fyrir þátttakendur. Efni verkefnisins var kynnt fyrir ráðgjöfum á vettvangi framhaldsfræðslunnar og komið á vinnuhópi til að nýta niðurstöður við þróun ferlisins hér á landi.

4. Raddir ungra innflytjenda – inngilding í nám, starf og samfélag

Haldnir voru fundir með bakhópi verkefnisins til að greina stöðu málaflokksins, móta vinnu rannsakenda með markhópnum og jafnframt hélt danskur rannsakandi rýnifundi með bakhópnum. Rýnihópavinna með ungum innflytjendum var undirbúin með rannsakendum sem ráðnir voru til verksins. Rannsakendur héldu fimm rýnihópa á fimm svæðum símenntunarmiðstöðva sem skipulagðir voru af FA. Einnig var gerð könnun á meðal fyrirtækja um sýn þeirra á innflytjendur í starfi. Unnið var að undirbúningi og framkvæmd vinnustofu þar sem innlendir og norrænir sérfræðingar komu saman til að vinna með þau skilaboð sem
komu frá markhópnum í gengum rýnina. Vinnulagið í heildarverkefninu og á vinnufundinum var samkvæmt hönnunarhugsun (e. Design based research) og var þróun þess módels ein af afurðum verkefnisins (sjálfbært líkan). Einnig var skrifuð stefnumörkun byggð á niðurstöðum verkefnisins (stefnumörkun) Dagskrá og glærur af vinnufundi má nálgast hér.

FA og NVL héldu veffund um niðurstöðurnar (Norden-EU syrpan) þar sem innlendir og norrænir stefnumótendur tóku þátt og miðluðu sín á milli um málaflokkinn.
Verkefnið Raddir ungra innflytjenda er hluti af formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni og var unnið í nánu samstarfi við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, mennta- og barnamálaráðuneytið og Norrænt tengslanet um nám fullorðinna (NVL).

REKSTUR

Árið 2023 var rekstrarlega krefjandi fyrir félagið. Við upphaf árs lá fyrir að komið var að ögurstundu í rekstri FA. Þungur rekstur nokkur ár á undan höfðu gert það að verkum að mjög hafði gengið á eigið fé félagsins og geta þess til að takast á við óvænt útgjöld eða rekstraráföll orðin takmörkuð. Því var í áætlunum lagt upp með stíft aðhald og kostnaðarvitund fyrir árið 2023. Áætlanir gerðu ráð fyrir jákvæðum rekstri og niðurstaða ársins sýnir að markmið ársins hafa gengið eftir. Niðurstaðan er verulega jákvæð fyrir félagið, en rekstrarniðurstaða ársins er 9.8 milljónir í hagnað. Á árinu náðist samkomulag um að vefurinn Næsta skref færi til Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu og starfsmaður sem meðal annars hafði sinnt honum flyttist með. Aðrar breytingar í starfsmannahaldi og frekari hagræðing í rekstri skila þessum árangri. Þannig fækkaði ársverkum milli ára um 2,5 og skilar það sér í að launakostnaður stendur nánast í stað milli ára. 

Þennan jákvæða árangur má þakka aga í rekstri, en ekki síst óeigingjarnri vinnu starfsfólks FA. Á starfsfólk FA miklar þakkir skildar fyrir sitt starfsframlag til FA, en ekki síður viðhorfa og viðmóts til félagsins á erfiðum og krefjandi tímum.

Líkt og áður hefur verið gert, er launakostnaður Hæfniseturs ferðaþjónustunnar færður á verkefnið og því hluti af rekstrar- og verkefnakostnaði FA.

Mannauður

Alls voru unninn tæplega 12,2 ársverk hjá FA árið 2023 og er það fækkun um rúmlega 2,5 ársverk frá fyrra ári. Í árslok störfuðu 12 manns í 10,6 stöðugildum hjá FA. Kynjaskipting í árslok var þannig að tíu konur voru í samtals 8,6 stöðugildum og tveir karlar í tveimur stöðugildum.

Fjöldi verkefnastofna gerir kröfu um að sérfræðingar FA búi yfir víðtækri þekkingu og reynslu. Áhersla er lögð á samvinnu starfsfólks og að nýta styrkleika þess og þekkingu í gegnum teymisvinnu innan hvers verkefnastofns, sem einn til tveir sérfræðingar verkstýra. Starfsfólk er almennt í fleiri en einum verkefnastofni. Á árinu voru reglulega lagðar fyrir starfsfólk starfsánægjukannanir, boðið var upp á markþjálfunarviðtöl og námskeiðið hvernig Mögnum við vinnustaðinn okkar. Auk þess sótti starfsfólk námskeið sem tengdust þeirra sérsviði eða styrktu þá á annan hátt. Í erlendu samstarfi FA felst stöðug símenntun og öflugur hvati til þróunar á vettvangi framhaldsfræðslunnar sem skilar sér bæði beint og óbeint inn í allt starf FA.

Nemendabókhald

Uppgjör á framkvæmd ársins 2023 í vottuðum námskrám, raunfærnimati og náms- og starfsráðgjöf fór fram samkvæmt skráningum í INNU. Allar fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar sem eru í samstarfi við FA hafa aðgang að INNU og skrá þar fyrrgreindar upplýsingar. FA veitir aðstoð við notkun og skráningu til samstarfsaðila þegar þess er óskað.

Sérvinnsla tölulegra gagna

Í tengslum við endurskoðun laga um framhaldsfræðslu réðst FA í sérvinnslu tölulegra gagna í þeim tilgangi að fá gleggri mynd af ferðalagi einstaklingsins í gegnum framhaldsfræðslukerfið. Gögn um þátttöku í vottuðum námskrám og raunfærnimati voru sótt í nemendabókhaldskerfið INNU nýtt til að skoða fjölda þeirra sem fóru í nám í tveim eða fleiri námskrám FA, fóru í raunfærnimat í tveim eða fleiri greinum eða sóttu hvoru tveggja. Mögulegt væri að fá enn gleggri mynd af árangri framhaldsfræðslunnar með því að tengja gögn framhaldsfræðslunnar við gögn framhaldsskólanna. Til að það megi þarf aðgang að gögnum framhaldsskólanna, tilskilin leyfi til samkeyrslu gagnanna og fjármagn til framkvæmdarinnar. Frekari upplýsingar um niðurstöður af ferðalagi einstaklings milli raunfærnimats og námskrám FA birtust í Gáttar grein.

Kynningarmál

FA miðlar upplýsingum um starfsemi sína á vef FA (frae.is) og á samfélagsmiðlunum Facebook og LinkedIn. FA stendur að og tekur þátt í fjölda smærri og stærri viðburða í samvinnu við samstarfs- og hagsmunaaðila, innlenda og erlenda. Einnig eru sendir út markpóstar og fréttatilkynningar á fjölmiðla þegar það á við.

Vefur FA

Á árinu 2023 fékk vefur FA (frae.is) um 11.000 heimsóknir í samanburði við tæpar 9.500 heimsóknir árið 2022. 90% þessara heimsókna var fyrsta heimsókn á vefinn. Á vef FA er að finna margvíslegar upplýsingar um Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, meðal annars um verkfæri framhaldsfræðslunnar, starfsemi FA, erlent samstarf og innlenda samstarfsaðila. Á mælaborði FA má nálgast tölur yfir árangur af starfinu frá upphafi eða frá árinu 2003. Sjá hér.

Veftímaritið GÁTT

Á árinu voru birtar sex greinar í Gátt eftir innlenda og erlenda höfunda, um fjölbreytt efni sem snýr að framhaldsfræðslunni og námi fullorðinna. 

Dæmi um greinarnar í Gátt 2023:

  • Starfstengt nám fyrir alla
  • Greinum rödd innflytjenda á Íslandi
  • Af hverju námskeið um upplýsingaöryggi fyrir fullorðna námsmenn?
  • Fatlaðir standa á hliðarlínunni og einangrast
  • Starfsferilsráðgjöf fyrir fullorðna
  • Ferðalag einstaklings milli raunfærnimats og námsleiða FA

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Verkfæri FA vinna í takt við eftirfarandi heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.

HÁPUNKTAR Á ÁRINU

MYNDIR FRÁ STARFSEMI ÁRSINS

Maí 2024

Útgefandi: Fræðslumiðstöð atvinnulífsins