Frá framkvæmda­stjóra

Hildur Betty Kristjánsdóttir

Árið 2024 var ár mikilla framfara og nýsköpunar í framhaldsfræðslu, fimmtu menntastoðarinnar. Mikill vöxtur og þróun í starfsemi Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins (FA) hefur skilað sér í fjölgun tækifæra fyrir fólk á vinnumarkaði. FA stóð frammi fyrir mörgum áskorunum en dugnaður starfsfólks félagsins hefur verið lykillinn að árangri.

Í hluta þeirra kjarasamninga sem voru undirritaðir á almennum vinnumarkaði árið 2024 eru ákvæði um hæfnilaunakerfi og að starfaprófílum, sem eru undirstaða náms, þjálfunar og raunfærnimats, verði fjölgað í samstarfi við FA. Samvinna og samtöl fóru fram við ýmsar starfsgreinar í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins. Mikil aukning var í starfaprófílum og gefin voru út 96 Fagbréf atvinnulífsins.

FA hefur, í samstarfi við Vinnumálastofnun, Fjölmennt og Símennt, unnið að því að bæta aðgengi fatlaðs fólks að námi innan framhaldsfræðslunnar og auka um leið þátttöku þeirra á vinnumarkaði í samvinnu við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið. Vinnan fólst fyrst og fremst í því að hæfnigreina störf, skrifa námskrár, námslýsingar fyrir hvert starf, skipulagningu á heildarframkvæmd o.fl. Í september fór námið Færni á vinnumarkaði af stað hjá 11 símenntunarmiðstöðvum víðsvegar um landið og með alls 72 þátttakendum. Í lok árs voru um 35 þátttakenda komin með fastráðningu í það starf sem þau fengu þjálfun í. Verkefnið og niðurstöður þess sýna augljóslega mikinn sveigjanleika framhaldsfræðslunnar.

Fjöldi erlendra ríkisborgara sem sækja nám til símenntunarmiðstöðva hefur vaxið jafnt og þétt, sem endurspeglar fjölbreytileika og alþjóðavæðingu íslensks vinnumarkaðar. FA er stolt af því að geta boðið upp á nám sem mætir þörfum þessa hóps og stuðlar að betri aðlögun og þátttöku í samfélaginu. Á síðustu fimm árum hefur erlendum ríkisborgurum sem sækja nám hjá símenntunarmiðstöðvum víðsvegar um landið fjölgað úr 25% í 51%. Ljóst er að breytingin sem Fræðslusjóður samþykkti varðandi uppbrot námskráa FA, skilar því markmiði sem lagt var upp með. Ein slík námsleið Íslenska og atvinnulíf var mest sótta námið á árinu.

Sérstakar þakkir fær starfsfólk FA fyrir ómetanlegt vinnuframlag og óbilandi elju, án þeirra væri þessi árangur ekki staðreynd. Einnig vil ég þakka stjórn og eigendum FA, samstarfsaðilum okkar og haghöfum, bæði innanlands og utan, fyrir þeirra stuðning og samstarf á árinu.

Við hlökkum til að vinna áfram með ykkur öllum með það að markmiði að vera leiðandi í að greina, meta og auka hæfni fólks í námi, starfi og samfélagi á komandi árum.

Ávarp mennta- og barnamálaráðherra

Guðmundur Ingi Kristinsson

Öflug framhaldsfræðsla sem undirbýr fullorðið fólk með stutta skólagöngu til að mennta sig enn frekar, hvort sem það er á skólabekk eða samhliða starfi, er afar mikilvæg og í raun grunnforsenda þess að læra alla ævi. Í nútímasamfélagi þurfum við að hafa aðferðirnar til að tileinka okkur breytingar og nýja þekkingu á öllum tímum. Fullorðnu fólki þarf því að standa til boða nám sem eflir grunnleikni og hæfni fyrir framtíðina með auknu aðgengi að sí- og endurmenntun og mati á raunfærni.

Framhaldsfræðslunni er ætlað að mæta sérstaklega námsþörfum fullorðinna með stutta skólagöngu eða þeirra sem hafa skerta möguleika til náms eða atvinnuþátttöku. Þessi markhópur þarf sérstaka hvatningu til náms þar sem mælingar Hagstofu Íslands sýna beint samband á milli menntunarstigs og þátttöku
í símenntun. Þannig sinna háskólamenntaðir mest sinni símenntun eða 32,9% árið 2023 á móti 13% þátttöku fullorðinna með stutta skólagöngu. Ójöfnuðurinn blasir hér við og þó svo að þessi staða sé vel þekkt til margra ára þá útilokar það ekki að við tökum til hendinni og byggjum mun betur undir markhóp framhaldsfræðslulaga með skýrari umgjörð um sérstöðu framhaldsfræðslunnar innan fjölbreyttrar sí- og
endurmenntunar og tryggjum aðgengi viðkvæmra hópa fullorðinna að viðurkenndu og vel metnu gæðanámi án mikils kostnaðar.

STARFSEMIN

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins (FA) er verkfærasmiðja sem byggir á samstarfi og þjónustu á vettvangi framhalds- og fullorðinsfræðslu á íslenskum vinnumarkaði. Hlutverk FA er að veita fólki á vinnumarkaði sem ekki hefur lokið námi frá framhaldsskóla tækifæri til styrkja stöðu sína í námi, starfi og samfélagi.

FA starfaði 2024 á grundvelli þjónustusamnings við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið auk samnings við mennta- og barnamálaráðuneytið, um verkefni á sviði framhaldsfræðslu samkvæmt lögum nr. 27/2010. Málaflokkur framhaldsfræðslu færðist yfir til mennta- og barnamálaráðuneytisins 15. mars, 2025. FA er í eigu SA, ASÍ, BSRB, fjármála- og efnahagsráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga og byggir allt starf sitt á víðtækri samvinnu við hagsmunaaðila.

Á árinu 2024 var aukning í þátttöku í námi á vettvangi framhaldsfræðslunnar sem nemur 15,5%. Þátttaka í raunfærnimati var 10% minni og í ráðgjöfinni 4% minni miðað við árið 2023. Fjármagn Fræðslusjóðs var fullnýtt fyrir árið 2024. Ljóst er að sú ákvörðun Fræðslusjóðs um að opna á tilfærslu fjár á milli úhlutunarflokkanna þriggja; ráðgjafar, náms og raunfærnimats, leiðir til þess að fræðsluaðilar ná betur að mæta þörfum og aðstæðum á sínu svæði.

Helstu verkefni FA samkvæmt þjónustusamningi

  • Greina hæfnikröfur starfa á vinnumarkaði.
  • Vinna að þróun og viðurkenningu raunfærnimats í samstarfi við atvinnulíf og fræðsluaðila.
  • Auka framboð á almennum og starfstengdum námskrám fyrir markhópinn í samvinnu við samstarfsaðila,
    menntakerfið og vinnumarkaðinn.
  • Efla ráðgjöf meðal einstaklinga sem ekki hafa lokið námi á framhaldsskólastigi til þess að styrkja stöðu þeirra í
    námi, starfi og samfélagi.
  • Tryggja gæði í starfi fræðsluaðila með þróun og innleiðingu á gæðakerfi fyrir framhaldsfræðsluna.
  • Taka þátt í innlendu og erlendu samstarfi þar sem hagsmunir atvinnulífs og markhópsins eru í fyrirrúmi.
  • Miðla upplýsingum um árangur starfsins, nýjungar og þróun framhaldsfræðslu.
  • Þróa aðferðir til að styðja við framkvæmd náms og nýtingu verkfæra.
  • Undirbúa aðkomu nýrra hópa að framhaldsfræðslu og nýta samlegðaráhrif í starfi FA.
  • Annast umsýslu Fræðslusjóðs og fjárreiður hans.

Frá 2005 hefur FA hýst landstengilið Íslands í Norræna tengslanetinu um nám fullorðinna (NVL) með fjármagni frá Norrænu ráðherranefndinni.

Jafnframt hefur FA frá 2017 hýst Hæfnisetur ferðaþjónustunnar sem vinnur samkvæmt þjónustusamningi við atvinnuvegaráðuneytið um uppbyggingu á hæfni starfsfólks í íslenskri ferðaþjónustu. Hæfnisetrið, Fræðslusjóður og NVL gefa út eigin ársskýrslur.

FA hélt úti tveimur vefum auk fræ.is; hver um sig með skilgreind markmið og markhóp. Þeir eru: Gátt, veftímarit um
fullorðinsfræðslu og hæfni.is þar sem finna má fræðslu- og stuðningsefni fyrir stjórnendur og starfsfólk í ferðaþjónustu.

Hæfnisetur ferðaþjónustunnar

Hæfnisetrið er samstarfsverkefni aðila vinnumarkaðarins, fræðsluaðila og stjórnvalda um heildstæðar lausnir og úrbætur til að auka hæfni og fagmennsku starfsfólks í ferðaþjónustu á Íslandi. Hæfnisetrið var stofnað árið 2017 og vistað hjá FA en atvinnuvegaráðuneytið kostar verkefnið. Hæfnisetrið vinnur á forsendum ferðaþjónustunnar og á í samstarfi og samtali við atvinnulífið, ferðaþjónustufyrirtæki, fræðsluaðila, stjórnvöld og opinbera aðila. Hæfnisetrið heldur úti vef undir hæfni.is.

Fræðslusjóður

Hlutverk Fræðslusjóðs er að stuðla að því að til séu viðeigandi námstækifæri fyrir einstaklinga með stutta formlega skólagöngu að baki. Jafnframt er það hlutverk sjóðsins að taka þátt í að skapa skilyrði fyrir því að einstaklingar geti nýtt sér slík námstækifæri. Þetta gerir sjóðurinn með því að veita framlög til fjögurra skilgreindra verkefnaflokka; vottaðra námskráa, náms- og starfsráðgjafar, raunfærnimats og nýsköpunar og þróunar. Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið skipar Fræðslusjóði stjórn til fjögurra ára í senn og ber stjórnin ábyrgð á öllum afgreiðslum sjóðsins. Skipunartími núverandi stjórnar er fram til ársins 2027. FA sér um daglega umsýslu Fræðslusjóðs samkvæmt þjónustusamningi FA við ráðuneytið, þar á meðal bókhald, samskipti og samningagerð við þá sem fá styrki úr sjóðnum. Framlög til Fræðslusjóðs
eru ákveðin í fjárlögum hvers árs. Á árinu úthlutaði Fræðslus- jóður rúmlega 1.014 milljónum í fjóra verkefnaflokka.

Frekari upplýsingar um stjórn, úthlutanir, nýtingu fjármagns og árangur af hlutverki Fræðslusjóðs er að finna í ársskýrslu hans og á vef FA.

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins - lykill að sanngjörnum og sveigjanlegum vinnumarkaði

Bergþóra Guðjónsdóttir

Stjórnarformaður Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins og sviðstjóri fræðslumála hjá Alþýðusambandi Íslands

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins (FA) á rætur sínar að rekja til kjarasamningsviðræðna og er eitt af þeim lykilverkfærum sem verkalýðshreyfingin og Samtök atvinnulífsins þróuðu í sameiningu til að efla hæfni launafólks og styðja við þarfir atvinnulífsins í heild. Í dag koma BSRB, Fjármála- og efnahagsráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga einnig að rekstri miðstöðvarinnar, og endurspeglar sú samsetning
mikilvægi hennar á vinnumarkaði. Eigendur FA bera sameiginlega ábyrgð á því að Fræðslumiðstöðin þróist í takt við breytilegar þarfir samfélagsins.

FA hefur gegnt lykilhlutverki sem verkfæri til að tryggja réttlátt aðgengi að námi, efla færni og virkja einstaklinga til þátttöku á vinnumarkaði og staðið vörð um fimmtu stoð menntakerfisins – framhaldsfræðsluna. Í gegnum tíðina hefur FA verið leiðandi í að þróa verkfæri og námstækifæri fyrir fólk með litla formlega menntun, einstaklinga í viðkvæmri stöðu og ekki síst þá sem hafa öðlast þekkingu
sína og hæfni í lífi og starfi, utan veggja skólanna.

Að viðurkenna og virða færni fólks er meðal mikilvægustu þátta þess að byggja upp sanngjarnan vinnumarkað. Verkfæri á borð við raunfærnimat og Fagbréf atvinnulífsins hafa reynst þar afar áhrifarík en þau byggja einmitt á þeirri hugmyndafræði að fólk tileinki sér þekkingu og hæfni með ólíkum hætti. 

Þessi nálgun – að horfa heildstætt á færni fólks og votta hana með fjölbreyttum hætti – verður sífellt mikilvægari í nútímasamfélagi. Tæknibreytingar, gervigreind, sjálfbærnistefna og breytt samsetning samfélagsins kallar á sífellt fjölbreyttari og skilvirkari leiðir til færniþróunar. Fjölgun innflytjenda og ör vöxtur atvinnugreina setur einnig nýjar kröfur um jöfn tækifæri og sanngjarnan aðgang að vinnumarkaði.

Hlutverk FA er ekki einungis að þróa verkfæri og lausnir – heldur einnig að móta heildarsýn og kortleggja þarfir launafólks og vinnumarkaðar. FA er vettvangur samráðs, samstarfs og nýsköpunar og í samvinnu við fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar um allt land, aðila vinnumarkaðarins og stjórnvöld hefur náðst góður árangur. En framtíðin kallar á enn frekari samvinnu, þróun og úthald til að standa undir sívaxandi verkefnum og auknum væntingum samfélagsins þarf að styrkja stoðir FA enn frekar – svo hún verði áfram öflugur drifkraftur á vinnumarkaði. 

Það er mér bæði ljúft og skylt að þakka starfsfólki Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins fyrir faglegt, metnaðarfullt og hugmyndaríkt starf á árinu 2024. Verkefnin hafa verið mörg og fjölbreytt, en undir liggur skýr stefna: að byggja upp öflugan, sanngjarnan og sveigjanlegan vinnumarkað þar sem hæfni hvers og eins fær að njóta sín.

Samstarfsaðilar

Starf FA grundvallast á samstarfi við aðila vinnumarkaðarins, menntakerfið, stéttarfélög, fagfélög, fyrirtæki og stofnanir. Framkvæmd er unnin í samstarfi við 14 viðurkenndar fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar um land allt. Fjármögnun til fræðslu- og símenntunarmiðstöðva er í gegnum Fræðslusjóð með áherslu á raunfærnimat, námskrár FA og ráðgjöf. Fræðslusjóður úthlutar samkvæmt eigin samþykktum skilmálum og úthlutunarreglum. Að auki starfar FA með
fjölbreyttum hópi sérfræðinga hérlendis og í Evrópu í gegnum ákveðin verkefni og tengslanet.

Helstu samstarfsaðilar á árinu

  • Aðilar vinnumarkaðarins
  • Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið
  • Mennta- og barnamálaráðuneytið
  • Háskóla-, iðnaðar- og
    nýsköpunarráðuneytið
  • Menningar- og viðskiptaráðuneytið
  • Framhaldsskólar
  • Háskólar
  • Fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar
  • Fræðslu- og starfsmenntasjóðir
  • Miðstöð menntunar og skólaþjónustu
  • Rannís
  • Vinnumálastofnun
  • VIRK starfsendurhæfingarsjóður
  • Fjölmennt
  • Heilbrigðisráðuneytið
  • Símennt
  • Félag náms- og starfsráðgjafa
  • Norræna ráðherranefndin
  • Norrænt tengslanet um nám fullorðinna
    (NVL)
  • Miðstöð fagháskóla í Svíþjóð (Myh)
  • Miðstöð menntamála í Svíþjóð
    (Skolverket)
  • Miðstöð háskólamenntunar og hæfni
    í Noregi (HK-dir)
  • Þroskahjálp

Ný verkefni á árinu

  1. Samstarf og ráðgjöf vegna innleiðingar raunfærnimats til styttingar á námi á háskólastigi (HÍ, HA, HR og LHÍ). Samningur á milli Háskóla Íslands og FA.

  2. Samstarfsverkefni með Borgarholtsskóla um innleiðingu á raunfærnimati til styttingar á námi á framhaldsskólastigi.

  3. Færni á vinnumarkaði – samstarfsverkefni fjármagnað af félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu. Unnið í samstarfi við Vinnumálastofnun, Fjölmennt og Símennt.

Viðburðir á árinu

Þrír viðburðir voru haldnir á árinu í umsjón FA. Auk þeirra fóru fram fjölbreyttir samráðsfundir með samstarfsaðilum, þjálfun fyrir matsaðila vegna aðferðafræði Fagbréfa atvinnulífsins, vinnustofur og námskeið fyrir fagaðila í raunfærnimati, ráðgjafa og verkefnastjóra á vettvangi framhaldsfræðslunnar. Markmiðið er að miðla reynslu, þjálfa, læra hvert af öðru og hvetja til umræðu um vettvanginn og markhóp framhaldsfræðslunnar.

  1. Heimsókn til Svíþjóðar með fulltrúum aðila vinnumarkaðarins. FA skipulagði og stóð fyrir námsferð til Svíþjóðar til að skoða umgjörð og leiðir við hæfniþróun fullorðinna og raunfærnimat dagana 21. – 24. október, 2024. Námsferðin var hluti af símenntunaráætlun FA í tengslum við Erasmus KA1 aðild, með það markmið að bjóða með 10 fulltrúum hagsmunaaðila og efla þannig samtal, samstarf og þróun á vettvangi framhaldsfræðslunnar. Móttökuaðilinn var Landsskrifstofa fyrir
    fagháskóla sem hafði umsjón með dagskrá dagana 22. og 23. október og Stjórnsýsla vinnumarkaðarins í Stokkhólmi sem tók á móti hópnum 21. október. Samantektarskýrslu má nálgast hér.
  2. Ársfundur FA var haldinn 13. nóvember í samstarfi við NVL undir yfirskriftinni Frá færni til vottunar – í námi, starfi og samfélagi. , Áhersla var á að fara yfir stöðu Fagbréfaleiðarinnar, þar sem færni starfsfólks er staðfest og vottuð. Finnbjörn A. Hermannson, forseti ASÍ opnaði fundinn. Mats Johansson framkvæmdastjóri Verslunarráðsins í Svíþjóð fór yfir mikilvæg þess að atvinnulífið taki þátt í að skilgreina og viðurkenna hæfni starfsfólks. Fulltrúar VR og Félags tæknifólks fóru yfir
    starfsmenntamál og nýtingu hæfnigreininga starfa sem grunn að Fagbréfum. Fulltrúi VMST fór yfir verkefnið Færni á vinnumarkaði sem fór kröftuglega af stað á árinu. Fulltrúar ASÍ og SA kynntu hæfnilaunakerfið sem er nýjung í kjarasamningum á almennum vinnumarkaði. Að venju voru veittar viðurkenningar til fyrirmynda í námi fullorðinna og féllu þær í skaut Sigurðar K. Guðmundssonar og Noelinie Namayanja.
  3. Samráðsfundur um ráðgjöf á vettvangi framhaldsfræðslunnar. Áhersla fundarins var á fræðslu sem valin var út frá niðurstöðum fræðslugreiningar sem FA gerði á meðal ráðgjafa fræðslu- og símenntunarmiðstöðva víðsvegar um landið í byrjun árs, auk samtals um þróun og gæðamál. Kynningar voru frá Samtökum atvinnulífsins, Hraðlestrarskólanum, ENIC/NARIC, Fjölmennt og Norrænu tengslaneti um nám fullorðinna (NVL). Einnig var rætt um stöðu Fagbréfa atvinnulífsins sem verkfæri á vettvangi.

VERKFÆRI FRAMHALDSFRÆÐSLUNNAR

FA þróar verkfæri fyrir framhaldsfræðsluna, fimmtu menntastoðina, í samstarfi við atvinnulífið, menntakerfið, stéttarfélög og fagfélög,. Hæfniviðmið eru grunnur verkfæranna með tengingu við þrep íslenska hæfnirammans um menntun.

Raunfærnimat

Mat á raunfærni er í auknum mæli álitið vera helsta verkfærið til að efla þátttöku í sí- og endurmenntun og hafa mörg Evrópulönd lagt áherslu á að draga fram og viðurkenna það nám sem á sér stað utan hins formlega skólakerfis, til dæmis á vinnustöðum, í frítíma sem og í gegnum fjölskyldu- og einkalíf. Frá árinu 2004 hefur það verið hlutverk Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins að miðla aðferðafræði raunfærnimats, samhæfa vinnulag, útbúa skimunar- og matslista, þjálfa fagaðila sem sinna raunfærnimati, safna tölfræðilegum upplýsingum og veita ráðgjöf í ferlinu.

Til að raunfærnimat megi vaxa og dafna í samfélaginu í samstarfi þeirra hagsmunaaðila sem því tengjast hverju sinni skiptir máli að raunfærnimatsferli sé ávallt unnið eftir settum gæðaviðmiðum sem tryggja áreiðanleika og réttmæti niðurstaðna. Evrópusambandið hefur þróað leiðbeiningar sem styðjast má við í þessu samhengi og hafa verið uppfærðar reglulega frá því 2004. Það er liður í að tryggja gæði ferlisins að vera með samræmda aðferðafræði raunfærnimats til að varða gæðin gagnvart þátttakendum og niðurstöðum sem er þeirra eign. FA hefur undanfarin ár stutt við innleiðingu raunfærnimats í háskólum með því að kynna hugmyndafræðina, framkvæmd og þjálfa fagaðila. Einnig hefur FA hlutverk í að kynna og styðja við innleiðingu raunfærnimats í framhaldsskólana. Með útbreiðslu aðferðafræði raunfærnimats gefst fleirum tækifæri til að fá færni sína metna og hefja áframhaldandi nám og hæfniþróun á réttum stað.

Raunfærnimat framhaldsfræðslunnar var vel nýtt á árinu. Fjöldi þeirra sem fara í gegnum kerfið takmarkast við það fjármagn sem Fræðslusjóður veitir og þær áherslur sem markaðar hafa verið með stjórnvöldum um framkvæmd.

Alls fóru 580 einstaklingar í gegnum mat á raunfærni á vegum framhaldsfræðslunnar á árinu, og er skipting á milli kynja nokkuð jöfn eða konur 40% og karlar tæp 60% en það eru mun fleiri konur sem sækja raunfærnimat í starfsnámi og fleiri karlar sem sækja raunfærnimat í iðngreinum og má álykta að þetta endurspegli kynjaskiptingu á vinnumarkaði. Meðalaldur þeirra sem fóru í raunfærnimat 2024 var 37,7 ár og samtals voru 12% þeirra sem fóru í gegnum raunfærnimat innflytjendur. Þetta má sjá nánar á eftirfarandi töflu. Alls voru gefin út 29 Fagbréf árið 2024 sem voru skráð undir raunfærnimati, önnur Fagbréf voru skráð undir námskrár.

Flestir fóru í gegnum raunfærnimat á sjúkraliðabraut (77 manns), húsasmíði (48 manns), í félagsliða (46) og í Almennri starfshæfni (46). Raunfærni var metin á móti formlegu og óformlegu námi sem og viðmiðum starfa. Sífellt bætast ný svið við þar sem hægt er að fá reynslu af vinnumarkaði metna og vottaða í gegnum Fagbréfaleiðina.

Karlar eru í meirihluta þeirra sem luku raunfærnimati 2024 rétt eins og síðustu ár, sem skýrist af því að þeir eru í meirihluta þeirra sem ljúka mati í löggildum iðngreinum.

Ef tekið er meðaltal síðustu fimm ára má sjá að hlutfall þátttakenda í raunfærnimati á starfsnámsbrautum og þátttakenda í raunfærnimati í iðngreinum sem lýkur með sveinsprófi hefur jafnast.

1. Raunfærnimat til styttingar á námi

Raunfærnimat til styttingar á námi hefur verið í boði á vegum framhaldsfræðslunnar frá árinu 2007. FA hefur unnið markvisst að því að fjölga leiðum í raunfærnimati í samstarfi við hagsmunaaðila og voru fyrstu verkefnin tengd iðngreinum en nú er raunfærnimat í boði fyrir flestar starfsnámsbrautir. Framkvæmd raunfærnimats er á ábyrgð gæðavottaðra fræðslu- og símenntunarmiðstöðva víðsvegar um landið og eru niðurstöður þátttakenda að loknu raunfærnimati skráðar í nemendakerfið INNU.

Ef tekið er meðaltal síðustu fimm ára má sjá að hlutfall þátttakenda í raunfærnimati á starfsnámsbrautum og þátttakenda í raunfærnimati í iðngreinum sem lýkur með sveinsprófi hefur jafnast.

Dæmi um starfsnámsbrautir þar sem tekist hefur vel til eru fisktækninám, sjúkraliðabraut, matartækni, félagsliðabraut, leikskólaliðabrú og stuðningsfulltrúabrú.

Ávallt er fylgt skilgreindu ferli í raunfærnimati samkvæmt eftirfarandi yfirlitsmynd sem tekur mið af reglugerð 1163/2011. Þar er m.a. kveðið á um rétt einstaklinga til raunfærnimats og kröfur um aðferðafræði.

Þjálfun fagaðila í framkvæmd raunfærnimats

Á árinu fengu 60 fagaðilar þjálfun í aðferðafræði raunfærnimats til styttingar á námi á framhalds- og háskólastigi og 35 matsaðilar í aðferðafræði Fagbréfs atvinnulífsins, sem er mikil aukning frá árinu 2023 (N=40 samtals). Samtals hafa þá 819 fagaðilar fengið þjálfun hjá FA frá árinu 2007. Handbók um framkvæmd var uppfærð á árinu, hún er undirstaða þjálfunar.

Samstarf vegna innleiðingar raunfærnimats á háskólastigi og innan framhaldsskóla

Á árinu gerði Háskóli Íslands samning við FA um ráðgjöf og samstarf vegna innleiðingar raunfærnimats til styttingar á námi í fjórum háskólum; Háskóla Íslands, Háskólanum í Reykjavík, Háskólanum á Akureyri og Listaháskóla Íslands. Niðurstaðan verður sameiginlegt matsferli sem mun nýtast öllum háskólum landsins og efla mannauð og hæfni í íslensku atvinnulífi. Verkefnið er styrkt af háskóla, -iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu.

FA var einnig í samstarfi við Borgarholtsskóla vegna innleiðingar raunfærnimats á vegum skólans. Samstarfi fólst í ráðgjöf við mótun ferlisins og þjálfun matsaðila fyrir framkvæmd. Framkvæmd tilraunarinnar gekk vel og fengu þátttakendur sambærilegt mat og á vettvangi framhaldsfræðslunnar. Borgarholtsskóli hefur haldið áfram að auglýsa ferlið og bjóða væntanlegum nemendum upp á raunfærnimat.

2. Raunfærnimat til staðfestingar á færni til að sinna ákveðnu starfi

Með raunfærnimati er færni starfsfólks metin út frá hæfniviðmiðum starfs. Í framhaldi fer fram þjálfun og fræðsla sem tekur mið af niðurstöðum matsins. Þegar öllum hæfniviðmiðum starfsins er náð er færnin staðfest með Fagbréfi atvinnulífsins fyrir viðkomandi starf. Í því felst ávinningur fyrir fyrirtæki og starfsfólk. Horft er til starfa sem ekki krefjast formlegrar menntunar og eru líkleg til að taka miklum breytingum í náinni framtíð. Verkfærið er sjálfbært og hefur FA verið skilgreind sem umsjónaraðili kerfisins sem felst í samstarfi um útbreiðslu, gæðatryggingu, þjálfun fagsfólks og útgáfu Fagbréfa. Ávallt er fylgt skilgreindu ferli samkvæmt eftirfarandi yfirlitsmynd.

Útgáfa Fagbréfa árið 2024

Fagbréf atvinnulífsins veita starfsfólki staðfestingu á færni sinni til að sinna ákveðnu starfi og fyrirtækjum og stofnunum yfirsýn yfir færni mannauðs síns.

Á árinu voru gefin út 96 Fagbréf. Af þeim voru 57 hluti af námskránni Smiðja 1-2,2 (Færni á vinnumarkaði) og er inni í tölfræðinni undir kaflanum um námskrár.

Tímamót í kjarasamningum 2024

Í hluta af kjarasamningum sem voru undirritaðir á almennum markaði árið 2024 eru ákvæði um hæfnilaunakerfi. Á ársfundi Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins 13. nóvember kynntu fulltrúar SA og SGS nýtt hæfnilaunakerfi sem markar tímamót í kjarasamningum.

Hæfnilaunakerfi byggja á að staðfesta hæfni starfsfólks sem hefur þá áhrif á kjör og starfsþróunarmöguleika. Í þeim kjarasamningum sem hafa ákvæði um hæfnilaunakerfi eru Fagbréf grunnur til að staðfesta hæfni til starfa. Samhliða kjarasamningum þar sem ákvæði um hæfnilaunakerfi er til staðar er að finna bókanir um framkvæmdaáætlanir. Þar kemur fram að fjölga eigi starfaprófílum í samráði við Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, þar sem hæfniviðmið starfs eru greind með hæfnigreiningu, matslistar þróaðir fyrir störf, og í kjölfarið er hæfni staðfest með útgáfu Fagbréfa. Sú vinna hófst árið 2024.

Yfirlit Fagbréfa atvinnulífsins

Í eftirtöldum störfum er hægt að framkvæma og gefa út Fagbréf atvinnulífsins. Fyrir þau er búið að hæfnigreina starf, vinna starfaprófíl, matslista og þjálfa matsaðila til að framkvæma raunfærnimat innan ferlisins.

*Sérhæfingar innan verslunarfulltrúa eru: Dagvara, raftæki, byggingavörur, skyndibiti, heimilistæki og húsgögn, leikföng, sími og fjarskipti.

3. Raunfærnimat í Almennri starfshæfni

Á árinu vann FA að uppfærslu ferlis fyrir raunfærnimat í Almennri starfshæfni í samstarfi við leiðbeinendur og ráðgjafa af vettvangi. Unnið var að samræmingu vinnulags í ferlinu með því að ræða reynsluna og áskoranir og bera saman framkvæmd á svæðum. Afurð þessarar vinnu verður handbók um ferlið sem ætlað er að efla gæði og auðvelda framkvæmd. Raunfærnimat í Almennri starfshæfni er ferli þar sem einstaklingar fá handleiðslu við að meta færni sína á móti hæfniviðmiðum á hæfniþrepum í tengslum við íslenska hæfnirammann um menntun. Hæfniviðmiðin voru valin af aðilum atvinnulífsins ásamt sérfræðingum FA og eru í grunninn viðmið sem þörf er á í öllum störfum á vinnumarkaði og þar með yfirfæranleg á milli starfa. Ferlinu líkur alltaf með matssamtali og fær þátttakandi niðurstöður sem sýna metna hæfniþætti í hendur ásamt samtali um áframhaldandi færniþróun.

Til umhugsunar um þróun raunfærnimats

  • Mikilvægt er að þátttakendum gefist kostur á að meta sig á móti sem flestum áföngum námskráa því ekki er vitað fyrirfram hvaða færni fólk ber með sér.
  • Brýnt er að miðla hugmyndafræði og aðferðafræði raunfærnimats áfram á skýran og markvissan hátt, því enn gætir vantrúar í garð færni sem aflað er utan formlega skólakerfisins.
  • Mikilvægt er að tryggja samræmda aðferðafræði við innleiðingu raunfærnimats til að varða gæði niðurstaðna og áreiðanleika verkfærisins. Þá er brýnt að skráning á niðurstöðum séu skráðar í gagnagrunn á vegum stjórnvalda (INNA) bæði bóklega áfanga og vinnustaðahluta náms, en hæfniviðmið þeirra fara oftast saman. Þetta á sérstaklega við nú þegar áhersla er á að framhaldsskólar taki upp raunfærnimat og með tilkomu Rafrænnar ferilbókar um vinnustaðahluta náms.
  • Fagbréf atvinnulífsins hafa sýnt sig vera verkfæri sem nær til markhóps framhaldsfræðslunnar sem ekki hefur nýtt sér núverandi leiðir til færniþróunar. Sýnileiki á hæfni í starfi er hvati til starfsþróunar og vottunin sem slík nýtist á þann hátt sem og á milli fyrirtækja. Það eflir því hreyfanleika á vinnumarkaði og er ávinningur fyrir fólk og fyrirtæki. Með ákvæðum um Fagbréf í kjarasamningum hafa aðilar vinnumarkaðarins ákveðið að nýta Fagbréf til að staðfesta hæfni á vinnumarkaði. Á næstu árum mun koma í ljós hvort verkfærið nær að festa sig í sessi. Þar ræður miklu að koma og áhugi einstakra starfsgreina. Þess má geta að stjórnvöld í Svíþjóð hafa unnið að þróun sambærilegrar leiðar með það að markmiði að efla samkeppnishæfni landsins.

Hæfnigreiningar FA

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins hefur þróaði aðferð við að greina störf og hæfnikröfur þeirra út frá hugmyndafræði HRSG í Kanada. Hæfniþættir starfa eru viðmið um hvaða hæfni þarf til að gegna tilteknu starfi. Í ferlinu eru hæfniþættir valdir og settir á hæfniþrep auk þess sem hæfniþættir almennrar starfshæfni eru einnig valin hæfniþrep út frá kröfum starfs. Öll vinna í tengslum við val á hæfniþrepum er til samræmis við hæfniramma um íslenska menntun.

Afurð hæfnigreiningar er starfaprófíll sem er grunnur að uppbyggingu náms eða matslista fyrir raunfærnimat . FA hefur þýtt og aðlagað hæfnigreiningarferlið að aðstæðum á íslenskum vinnumarkaði.

Aðkoma atvinnulífs er mikilvægur hluti af ferlinu þar sem m.a. ákveðinn fjöldi starfsfólk sem sinnir viðkomandi starfi tekur þátt í greiningunni. Með hæfnigreiningu starfa verða hæfnikröfur sýnilegar og geta þar með stutt við (a) ráðningar og starfsþróun (b) starfstengdar námskrár sem FA skrifar, og (c) raunfærnimat á móti viðmiðum starfa (Fagbréf atvinnulífsins).

Með þeirri breytingu sem gerð var á ferli hæfnigreininga árið 2023/2024, þar sem bætt var við einum greiningafundi og fyrirkomulag hvers fundar endurskoðað þá bættust drög að matslista við sem hliðarafurð ferlisins. Þau drög eru nýtt við undirbúning raunfærnimats fyrir viðkomandi starf eða við gerð námskrár.

HVIN – háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti óskaði eftir að FA tæki að sér að greina störf iðnmeistara. Í samstarfi FA og ráðuneytis var verkefnið útfært á þann hátt að teknar skyldu fyrir fimm iðngreinar, fyrst skyldi greina þá hæfni sem starf iðnmeistara gerir kröfu um þvert á faggreinar og miðaði sá hluti verkefnis á að ná fram sameiginlegum þáttum óháð faggrein. Síðari hluti verkefnisins sneri svo að því að greina sértæka hæfni innan hverrar þeirra fimm iðngreina sem til skoðunar voru. Iðngreinarnar eru: hársnyrtiiðn, húsasmíði, matreiðsla, rafvirkjun og vélvirkjun. Verkefninu lýkur á vordögum 2025.

Hæfnigreiningar á árinu

  • Ljóstækni
  • Skólaritari
  • Stuðningsfulltrúi (grunn- og framhaldsskóli)
  • Umsjónarmaður fasteigna (grunn- og framhaldsskóli)
  • Starf í leikskóla
  • Starf í verslun
  • Starf við þrif og þjónustu
  • Starf við umönnun
  • Starf í frístund
  • Iðnmeistarar – þvert á fimm greinar

Ávallt er fylgt skilgreindu ferli við hæfnigreiningu samkvæmt eftirfarandi yfirlitsmynd:

Námskrár og námsleiðir

Eitt af hlutverkum FA er þróun og skrif námskráa fyrir markhóp framhaldsfræðslunnar. Því hlutverki hefur FA sinnt af festu og lítur það hlutverk sem mikilvægt til eflingar bæði fyrir einstaklinga og atvinnulíf í landinu. FA vinnur slík verkefni allt eftir því hvort um er að ræða starfstengt nám eða eingöngu bóklegt eins og í almennum bóklegum greinum.

Á árinu 2024 var ein námskrá send í vottunarferli hjá ráðuneyti barna- og menntamála. Námskráin sem fékk vottun er Smiðja 1 -2, 2 Færni á vinnumarkaði sem er námskrá á hæfniþrepi eitt. Megintilgangur náms í Smiðju er að nemar kynnist fjölbreyttum vinnuaðferðum þar sem reynir á samþættingu huga og handa, sköpunarkraft og tjáningaform.

Námslok eru með Fagbréfi atvinnulífsins út frá tilteknu starfi sem fram kemur á útskriftarskírteini.Tiltölulega stór hluti námsins er vinnustaðanám undir leiðsögn starfsþjálfa á vinnustað. Með þessu námi fjölgar möguleikum til námsloka fyrir tiltekinn hluta markhóps framhaldsfræðslunnar sem hingað til hefur notið fárra valkosta í bæði náms- og starfstækifærum á fyrsta þrepi íslenska hæfnirammans um menntun.

Færni á vinnumarkaði

Í febrúar 2024 kom út skýrsla starfshóps sem félags- og vinnumarkaðsráðherra í samráði við háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og mennta- og barnamálaráðherra stofnaði í desember 2022 um aukin náms- og starfstækifæri fyrir fatlað fólk. Fulltrúi frá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins (FA) sat í þeim vinnuhópi. Í skýrslunni voru lagðar fram tillögur til að auka möguleika á þátttöku í atvinnulífinu sem meðal annars stuðlar að valdeflingu og bættum kjörum hópsins. Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, Vinnumálastofnun (VMST), Fjölmennt og Símennt komu í kjölfarið að þróun starfstengds náms sem bjóða skyldi upp á hjá fræðslu- og símenntunarstöðvum um allt land með starfsþjálfun á vinnustöðum. Markmiðið var að bæta aðgengi fatlaðs fólks utan vinnumarkaðar að framhaldsfræðslukerfinu, að námi sem eflir færni þeirra og möguleika í lífi og starfi.

Í apríl 2024 veitti þáverandi ráðherra félags- og vinnumarkaðs VMST fjármagn í þróunar- og samstarfsverkefnið Færni á vinnumarkaði. Í framhaldi af því gerði VMST samning við FA sem sá um þróun og utanumhald með verkefninu. Verkefnið var margþætt og voru ákveðnir hlutar þess á vegum FA þar sem í upphafi voru gerðar hæfnigreiningar á sex störfum samkvæmt samkomulagi við VMST sem aflaði möguleikanna. Afurð hæfnigreiningar eru starfaprófílar sem sjá má á vef FA. Störfin eru á hæfniþrepi 1.1 og 1.2.

Þá var skrifuð námskrá fyrir væntanlegt nám. Starfaprófílarnir eru grunnur til hliðsjónar við námskrárskrifin auk þess sem mikilvæt samráð var haft við Fjölmennt vegna ákveðinna þátta. Námskráin er Smiðja 1 – 2, 2 Færni á vinnumarkaði sem lýsir náminu og hverjum einstökum námsþætti (áfanga) í námskránni. Tilgangurinn er undirbúningur til almennrar þátttöku í atvinnulífinu. Námskráin hlaut vottun hjá mennta- og barnamálaráðuneytinu. Námskráin inniheldur sex námsþætti og þar af nokkuð langan námsþátt sem fæst við starfsþjálfun á vinnustað undir leiðsögn starfsþjálfa. Jafnframt fer fram fræðsla allan tímann sem starfsþjálfun stendur yfir. 

Við námskrána voru skrifaðar sex námslýsingar þar sem þá var VMST komin með sex tegundir starfa til greiningar. Hver námslýsing tekur bæði á almennum þáttum en auk þess sérstaklega á þáttum sem viðkomandi starf snýr að og er ætlað fyrir leiðbeinendur, starfsþjálfa, nema og annað fólk sem vill kynna sér námið. Bæst hefur við námslýsingar þar sem tegundum starfa hefur fjölgað á vegum VMST. Námslýsingarnar eru:

  • Starf í endurvinnslu
  • Starf í frístund

  • Staraf í leikskóla

  • Starf við umönnun

  • Starf í verslun

  • Starf í vöruhúsi / lager

  • Starf við þrif og þjónustu

Fjölmennt útbjó 23 mismunandi kennslupakka í tengslum við kennslu námsins Færni á vinnumarkaði. Þeir fjalla meðal annars um persónulegan styrk, samskipti, þýðingu þess að hafa vinnu og njóta mannréttinda, réttindi á vinnumarkaði o.fl.

Starfstengda námið Færni á vinnumarkaði skiptist í tvo hluta: fræðslu hjá símenntunarmiðstöð og vinnustaðanám sem fer fram á vinnustað. Námstíminn er 180 klukkustundir alls sem skiptist í 70 klst. fræðslu (39%) og 110 klst. í vinnustaðahluta. Í fræðsluhluta hittast nemar tvisvar í viku, þrjár klukkustundir í senn hjá símenntunarmiðstöðvum í sinni heimabyggð. Í vinnustaðahlutanum er almennt miðað við að sá hluti sé tvisvar til þrisvar í viku (þá daga sem fræðsla fer ekki fram) í þrjár til fjórar klukkustundir í senn.

Námið fór af stað hjá 11 símenntunarmiðstöðvum víðsvegar um landið og skráðu 72 einstaklingar sig í námið. Vinnumálastofnun sá um að finna jafn marga vinnustaði og nemendur. Atvinnurekendur uppgötvuðu gildi þess að taka þátt í verkefninu og nú þegar hafa nær 40 einstaklingar fengið fasta vinnu í kjölfar námsins. Á hverjum vinnustað var starfsþjálfi sem fylgdi nema eftir í hæfniþróun. FA þjálfaði alla starfsþjálfa innan fyrirtækja og stofnana (72).

Ef nemendur uppfylltu kröfur námsins, bæði fræðslu- og vinnustaðahlutann hlutu þau útskrift með Fagbréf atvinnulífsins. Af þeim 72 sem skráðu sig í námið útskrifuðust 57 með Fagbréf atvinnulífsins og 10 luku eingöngu fræðsluhlutanum. Í töflunni hér fyrir neðan sést dreifing nemenda á störf og útgáfu Fagbréfa atvinnulífsins.

Námsleiðir (uppbrot námskráa)

FA hefur þróað leið til að brjóta upp námskrár framhaldsfræðslunnar (örvottun) til að svara ákalli um fjölbreyttara námsframboð fyrir markhópinn. Með námsleiðum er litið til þess að nýta frekar þann mikla fjölda námsþátta (áfanga) sem framhaldsfræðslan á inni í námskrárgrunni og tilheyra námskrám framhaldsfræðslu í stað þess að þróa og skrifa stöðugt nýja námsþætti fyrir nýjar námskrár. Verkfærið er lagt í hendur fræðsluaðila til að nýta út frá þörfum markhóps hjá hverri fræðslu- og símenntunarmiðstöð.

FA staðfestir uppbrot námskráa samkvæmt reglum FA um skilyrði fyrir slíku uppbroti námskráa og lýsingu á því sem um ræðir hverju sinni. Meðal skilyrða er að:

  1. námsleið hafi heiti sem er lýsandi fyrir innihaldið;
  2. námsleið byggi á námsþáttum úr vottuðum námskrám FA, einni eða fleiri;
  3. heildarlengd námsleiðar að lágmarki 40 klst. heildarvinnuframlag nema;
  4. námsþættir skulu vera óbreyttir úr námskrá og ekki heimilt að gera breytingu, hvorki tímalengd, innihaldi eða
    hæfniviðmiðum.

Fræðsluaðili þarf að sækja um leyfi til FA fyrir námsleið á sérstöku rafrænu eyðublaði. Þegar námsleið er samþykkt er afurðin sett á vef FA fyrir alla fræðsluaðila til nýtingar. Á árinu voru fjórar námsleiðir samþykktar og birtar á vef FA og fleiri eru í farvatninu. Námsleiðirnar eru: Menntagrunnur sem er styrking nema í ensku stærðfræði og upplýsingartækni úr námskránni Grunnmennt II; Tölvugrunnur og sjálfsefling sem er tekin úr Menntastoðum; Hvernig á að vera sjálfstætt starfandi á Íslandi sem eru námsþættir úr Sölu-, markaðs- og rekstrarfræði; Hagnýt íslenska í lífi og samfélagi – B1 sem er úr námskránni Íslensk menning og samfélag.

Árangur starfsins 2024

Alls luku 2671 einstaklingur námi út frá námskrám og námsleiðum FA á árinu 2024. Það er fjölgun frá árinu á undan þegar 2261 einstaklingur lauk námi. Meirihluti þeirra sem luku námi árið 2024 eru konur eða 61% sem er svipað hlutfall kynja í námi innan framhaldsfræðslu og undanfarin ár.

Aukning er í uppbroti námskráa (námsleiðum) um 9% á milli ára. Fræðsluaðilum sem nýta sér þessa leið hefur fjölgað til að koma til móts við þarfir markhópsins.

Þegar skoðað er hverskonar nám fólk sækir helst í út frá fjölda nemenda sést á töflunni hér fyrir ofan að mest er sótt í starfstengt nám (í formi námskráa eða námsleiða) en hlutfallslega lítið er sótt í nám sem er eingöngu bóklegt.

Nám samkvæmt námsleiðinni Íslenska og atvinnulíf og námskránni Skref til sjálfshjálpar í lestri og ritun eru tvær þeirra 10 mest sóttu árið 2024. Þetta nám er mest sótt af fólki með annað móðurmál en íslensku.

Fjöldi einstaklinga með erlent ríkisfang heldur áfram aukast hjá framhaldsfræðslunni og voru 51% þeirra sem luku námi árið 2024.

Eins og sjá má á næstu töflu er hlutfall erlendra nema hærra hjá nokkrum símenntunarmiðstöðvum um landið.

Af þessum tölum sést að mikil þörf er fyrir framboð á námi fyrir bæði íslenska sem erlenda borgara. Erlendir ríkisborgarar sækja einkum í ýmiskonar starfstengt nám en auk þess í íslensku sem er ýmist starfstengt mál eða almenn íslenska. Nokkrar námskrár og námsleiðir FA voru kenndar á öðru tungumáli en íslensku, svo sem á pólsku, arabísku, spænsku og fleira.

Ráðgjöf um nám og störf

FA er í samstarfi við ráðgjafa fræðslu- og símenntunarmiðstöðva um land allt til þess að þróa og stuðla að gæðum á sviði ráðgjafar um nám og störf á vettvangi. Eitt af markmiðum FA er að efla sérfræðiþekkingu í ráðgjöf innan framhaldsfræðslunnar með því að halda utan um samstarf ráðgjafa, ásamt því að leita leiða til að efla gæði þjónustunnar í gegnum þróun aðferðafræði og endurgjöf frá notendum. Haldnir eru fastir samstarfsfundir með ráðgjöfum þrisvar á ári. Í samstarfsneti FA eru um 25 til 27 ráðgjafar. Þeirra starf gengur meðal annars út á að vera með kynningarfundi á vinnustöðum, einstaklingsviðtöl og hópráðgjöf, þátttöku í virkniaðgerðum fyrir atvinnuleitendur, verkefnum í
raunfærnimati og þróun aðferðafræði í samstarfi við FA, meðal annars í gegnum erlend þróunarverkefni. Allar miðstöðvar skila ársskýrslum og tölfræðiupplýsingum til FA.

Ráðgjöfinni er ætlað að ná til markhópsins með upplýsingar og hvatningu til símenntunar. Fjöldi ráðgjafarviðtala á árinu með endurkomum var 9.087. Heildarfjöldi einstaklinga var 4454, sem gefur til kynna að flestir eru að koma í tvö viðtöl eða fleiri. Mestur er fjöldi viðtala hjá IÐUNNI fræðslusetri, Mími-símenntun og Framvegis. Af þeim sem komu í ráðgjöf eru langflest í starfi eða 66%, 13% eru í atvinnuleit, 12% í starfsendurhæfingu og 4% í námi. Flestir atvinnuleitendur í ráðgjöf voru á Suðurnesjum, Vesturlandi og á Vestfjörðum líkt og árið áður.

Inntak ráðgjafaviðtala

Algengasta inntak ráðgjafarviðtala tengist raunfærnimatsferlinu, eða um 24% viðtala. Á það við um skimunarviðtal þar sem fólk mátar sig við raunfærnimat í ákveðinni grein; færnimöppugerð, stuðning inni í matssamtali (valkvætt af hálfu þátttakanda) og viðtal að ferli loknu til að taka ákvörðun um næstu skref (eftirfylgniviðtal). Mikið er einnig um að fólk komi til að afla sér upplýsinga almennt um nám, afla sér upplýsinga um raunfærnimat og til að leita sér aðstoðar við ferilskrárgerð. Rúmur helmingur þeirra sem kom í viðtal á árinu gerði það að eigin frumkvæði (61%). Minna hefur verið um vinnustaðaheimsóknir af hálfu ráðgjafa undanfarin ár og meira um að ráðgjafarviðtölin séu setin fólki sem er í námi hjá fræðslu- og símenntunarmiðstöðvunum.

Rafræn viðtöl

Rafræn viðtöl voru 40% af heildarfjölda viðtala á árinu. VISKA í Vestmannaeyjum notar nánast eingöngu rafræn viðtöl og einnig er meirihluti viðtala rafrænn hjá IÐUNNI-fræðslusetri (79%).

Kynjahlutföll eru nokkuð jöfn, 52% konur og 48% karlar. Flest sem sækja ráðgjöfina eru á aldrinum 26-35 ára eða 34% og þar á eftir 36-45 ára eða 24%. Þá hafa flest í hópnum hafið nám á framhaldsskólastigi en ekki lokið því eða 63% og þau sem eingöngu höfðu lokið grunnskóla voru 17%. Alls 86% þeirra sem koma í ráðgjöf eru í markhópi framhaldsfræðslunnar.

Fjölgun erlendra ríkisborgara í ráðgjöf

Töluvert hefur fjölgað í hópi innflytjenda og telja þeir 30% þeirra sem sækja sér ráðgjöf um nám og störf. Flest koma frá Póllandi, Úkraínu og Venesúela. Fjöldi innflytjenda hefur verið að aukast jafnt og þétt, en fram hefur komið á þróunarfundum að jafnvægi sé að myndast þar sem minna er um að flóttafólk komi í ráðgjöf. Mesta þörfin er fyrir aðstoð við gerð ferilskráa auk þess sem óskað er eftir stuðningi inn í starf og nám.

Samtarf og þróun

Á árinu hafði FA umsjón með vinnuhópi um raunfærnimat í almennri starfshæfni, leið sem hefur verið boðið upp á víða um land frá árinu 2014. Verkfærið hefur verið nýtt fyrir atvinnuleitendur sérstaklega og fólk sem vill efla sína almenntu starfshæfni á vinnumarkaði. Það hefur sýnt sig að mikill meiri hluti þeirra sem taka þátt í ferlinu fara í nám eða starf í kjölfar þess. Áhersla var á að draga fram lærdóm af vettvangi vegna framkvæmdar, yfirfara gögn og vinna að handbók til að stuðla að samræmi framkvæmdar á svæðum og varða þannig gæði verkfærisins. Haldnir voru tveir örfundir (á netinu) með starfsfólki frá fræðslu- og símenntunarmiðstöðvum og staðfundur heilan dag þar sem farið var yfir þróun mála í ráðgjöf á vettvangi framhaldsfræðslunnar. Ársskýrslur og umræður á fundum snerust meðal annars að:

  • Stafrænni tækni í ráðgjöf.
  • Þörfum innflytjenda og mati á menntun þeirra og færni, þá líka áskorun þeirra við að fara í nám á námsbrautum framhaldsskóla í kjölfar raunfærnimats vegna skorts á tungumálakunnáttu og tungumálastuðningi
  • Aukinni þörf fyrir ráðgjöf vegna kvíða, álags utan náms og áreiti.

Kennslumiðstöðin

Á árinu voru haldin þrjú námskeið um kennslufræði og menningarnæmi fyrir fullorðna hjá samstarfsaðilum. Einnig tók kennslumiðstöðin þátt í að skipuleggja námskeið fyrir leiðbeinendur, verkefnastjóra, ráðgjafa og starfsþjálfa sem tóku þátt í verkefninu Færni á vinnumarkaði á vettvangi framhaldsfræðslunnar.

EQM/EQM+ gæðavottun

Við lok ársins 2024 voru 17 fræðsluaðilar og fyrirtæki með vottun; flest eru með EQM+ og einstaka hafa EQM þar sem starfsemin snýst einvörðungu um fræðslu. Allir 14 samstarfsaðilar FA á vettvangi framhaldsfræðslunnar eru með EQM+ gæðavottun. Ein forsenda þess að fræðsluaðilar fái framlög úr Fræðslusjóð er að þeir hafi fengið gæðavottun sbr. 7. gr. laga 27/2010 og 4. gr reglugerðar 1163/2011 um framhaldsfræðslu. Fræðslumiðstöð atvinnulífsins hefur boðið þeim sem starfa að framhaldfræðslu upp á EQM og EQM+ gæðakerfið, sem sérstaklega er sniðið að þeirra þörfum.

EQM/EQM+ gæðavottun fyrir fræðsluaðila í fullorðinsfræðslu og fræðsludeildir fyrirtækja og stofnana hefur verið í stöðugri þróun með samstarfsaðilum frá því það var fyrst tekið í notkun árið 2008. Þá var því einungis ætlað að ná utan um fræðslustarfið en í dag nær það einnig utan um raunfærnimat og náms- og starfsráðgjöf.

Gæðavottunin felur í sér viðurkennd gæðaviðmið fyrir fræðslu, ráðgjöf um nám og störf og raunfærnimat:

EQM vottun: Fræðslustarf

EQM+ vottun: Fræðslustarf, raunfærnimat og náms- og starfsráðgjöf

EQM/EQM+ er hannað til að mæta síauknum kröfum um gagnsemi, gegnsæi í framkvæmd og skjölun og sameiginleg gæðaviðmið fyrir aðila utan hins formlega skólakerfis. EQM/EQM+ tekur mið af:

  • gæðum þjónustunnar sem veitt er
  • innri gæðastjórnun og verklagsreglum
  • hvernig núverandi starfshættir samræmast viðurkenndum gæðaviðmiðum.

FA heldur utan um heildarferli vegna gæðavottunar viðurkenndra fræðsluaðila og gerir samning við fyrirtæki til að sjá um úttekt í samræmi við þá staðla sem í gildi eru hverju sinni. Úttekt hjá fræðsluaðilum fer fram á þriggja ára fresti en milli þess skila fræðsluaðilar sjálfsmatsskýrslu til FA.

Erlent samstarf

NVL - Norrænt tengslanet um nám fullorðinna

Fulltrúar FA og fleiri hagaðila á Íslandi taka þátt í fjölbreyttum netum á vegum NVL og miðla þekkingu um nám fullorðinna á norrænum vettvangi. Hvert net vinnur að afmörkuðum verkefnum út frá áherslusviðum hverju sinni. Efninu er jafnframt miðlað á vettvangi framhaldsfræðslunnar og í Gátt-veftímariti um nám fullorðinna.

Starfandi net á árinu voru sjö talsins. Þau eru:

  1. Stafræn inngilding fullorðinna til virkrar þátttöku í samfélaginu
  2. Stafræn hæfni á vinnumarkaði með áherslu á störf iðnverkafólks
  3. Raunfærnimat
  4. Ráðgjöf fullorðinna
  5. Alfaráðið
  6. Sjálfbærni
  7. Menntun í fangelsum

Helstu afurðir NVL neta á árinu voru:

  • Hlaðvörp og skýrslur um örvottanir, almenna starfshæfni og sjálfbærni í ráðgjöf.
  • Fimm myndbandshlaðvörp um áhrif gervigreindar á vinnumarkaðinn á Norðurlöndum, byggt á norrænni greiningu á skýrslu OECD: “Horft til framtíðar í atvinnumálum 2023. Gervigreind og störf.”
  • Myndefni um hvernig styðja má unga fullorðna fanga í námi, með inngildingu að leiðarljósi.
  • Stefnuplagg fyrir ákvarðanatöku um þætti sem efla/ hindra eðlilegan sjálfbæran lífsstíl.
  • Norræn dæmi sem lýsa hvernig almenn starfshæfni (yfirfæranleg) getur verið tengd við raunfærnimat ogrstuðlar að sýnileika og viðurkenningu á hæfni sem er eftirsótt í atvinnulífinu.
  • Skýrsla, stefna á ensku og íslensku, og myndban um niðurstöður verkefnisins Raddir innflytjenda – inngilding í nám, starf og samfélag.

Starfið á Íslandi

  • Starfsemi NVL kynnt fyrir íslenskum fulltrúum, menntamálaráðuneytinu, Nordplus og EPALE
  • Miðlað efni um raunfærnimat og bók um kennsluaðferðir á Norðurlöndunum fyrir sjálfbæra þróun.
  • Eftirfylgni verkefnisins ‘Raddir innflytjenda – inngilding í nám, starf og samfélag.
  • Samvinna með svæðisbundnum símenntunarmiðstöðvum.
  • Þýðing og miðlun á niðurstöðum TRANSVAL-EU verkefnisins gegnum vefnámskeið og vinnuhópa.
  • Fundur fyrir starfsráðgjafa fræðslu- og símenntunarstöðva á Íslandi með áherslu á leiðsögn fyrir innflytjendur, yfirfæranlega hæfni og mat.
  • Ársfundur Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins með áherslu á “frá færni til vottunar – í námi, starfi og samfélagi”.
  • Greinum og viðburðum miðlað reglulega. Þýðingar og dreifing á tveimur fréttum frá Íslandi á mánuði.

Breyting á nafni Norræna samstarfsins

Tilkynnt var haustið 2024 að áherslubreytingar og nafnabreyting yrði á NVL árið 2025, en nafnið mun breytast í NLL (Nordisk Netværk for Livslang Læring) sem þýtt hefur verið yfir á íslensku sem Norrænt samstarf um símenntun.

Raddir innflytjenda - inngilding í nám, starf og samfélag

Verkefnið var hluti af formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni (2023) og var unnið í samstarfi við Norrænt tengslanet um nám fullorðinna (NVL), félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, mennta- og barnamálaráðuneytið auk fjölda haghafa í málaflokknum.

Afurðir verkefnisins voru fullgerðar á árinu í samstarfi við NVL og miðlað markvisst innanlands og á Norrænum vettvangi:

Símenntunarmiðstöðvar hafa unnið áfram með niðurstöður út frá þörfum markhópsins á hverju svæði. Helstu tilmæli
úr verkefninu snúa að aðgengi að stað til að hitta fólk og tala saman, aðgengi að upplýsingum og námi, mat á fyrra námi (formlegum pappírum) og raunfærnimat.

Í verkefninu var byggt á hugmyndafræði hönnunarhugsunar (sjá mynd hér fyrir neðan) og er yfirfæranlegt í vinnu með öðrum markhópum.

Evrópuverkefni um reynslunám í námi ungs fólks

Á árinu lauk samstarfsverkefni, styrktu af EEA uppbyggingarsjóði, sem pólskir aðilar leiddu í samstarfi við sérfræðinga frá Slóveníu og Íslandi (FA). Verkefnið hófst 2023. Haldnir voru tveir fundir í byrjun árs 2024 þar sem unnið var að helstu afurðum sem eru; aðferðafræði þjálfunar, gögn og námskeið fyrir stjórnendur, kennara og leiðbeindur í námi ungra fullorðinna, með áherslu á reynslunám.

REKSTUR

Rekstraráætlun 2024 gerði ráð fyrir jákvæðri rekstarniðurstöðu í árslok 2024 og hafa þær áætlanir gengið eftir. Niðurstaðan er nærri 6.2 milljónir í hagnað, sem er í samræmi við áætlanir. Munar þar mestu um auknar verkefnatekjur frá fyrra ári og hefur því tekist að bæta eiginfjárstöðu félagsins verulega á síðustu tveimur árum.

Áfram verður unnið í samræmi við stefnu um aðhald og kostnaðarvitund, en þó þarf stöðugt að gæta jafnvægis í þeim efnum því of þröngur rekstur getur að lokum bitnað á starfsfólki og starfsaðstöðu þess. Slíkur árangur næst ekki nema með sameiginlegu átaki starfsfólk og óeigingjarni vinnu. Starfsfólk FA á því miklar þakkir skildar fyrir sitt framlag til eflingar FA og ekki síður vegna jákvæðs viðhorfs og viðmóts til félagsins.

Líkt og áður er launakostnaður Hæfniseturs ferðaþjónustunnar færður á verkefnið og því hluti af rekstar- og verkefnakostnaði FA.

Mannauður

Árið 2024 voru ársverk hjá FA 13,5 sem er aukning frá árinu 2023 þegar ársverkin voru 12,2. Alls þáðu 18 manns laun hjá FA á árinu, en í árslok voru 15 starfsmenn í samtals 13,7 stöðugildum, sem skiptist þannig að konur voru tólf í samtals 10,7 stöðugildum og þrír karlmenn í samtals þrem stöðugildum.

Fjöldi verkefnastofna gerir kröfu um að sérfræðingar FA búi yfir víðtækri þekkingu og reynslu. Áhersla er lögð á samvinnu starfsfólks og að nýta styrkleika þess og þekkingu í gegnum teymisvinnu innan hvers verkefnastofns. Starfsfólk er almennt í fleiri en einum verkefnastofni.

Á árinu voru reglulega lagðar fyrir starfsfólk starfsánægjukannanir. Auk þess sótti starfsfólk námskeið sem tengdust þeirra sérsviði eða styrkti það faglega á annan hátt. Í erlendu samstarfi FA felst einnig stöðug símenntun og öflugur hvati til þróunar á vettvangi framhaldsfræðslunnar sem skilar sér bæði beint og óbeint inn í allt starf FA.

Nemendabókhald

Uppgjör á framkvæmd ársins 2024 í vottuðum námskrám, raunfærnimati og náms- og starfsráðgjöf fór fram samkvæmt skráningum í INNU. Allar fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar sem eru í samstarfi við FA hafa aðgang að INNU og skrá þar fyrrgreindar upplýsingar. FA veitir aðstoð við notkun og skráningu til samstarfsaðila þegar þess er óskað.

Kynningarmál

FA miðlar upplýsingum um starfsemi sína á vef FA og á samfélagsmiðlunum Facebook og LinkedIn. FA stendur að og tekur þátt í fjölda smærri og stærri viðburða í samvinnu við samstarfs- og hagsmunaaðila, innlenda og erlenda. Einnig eru sendir út markpóstar og fréttatilkynningar á fjölmiðla þegar það á við.

Vefur FA

Á árinu 2024 fékk vefur FA (frae.is) um 8.600 einstakar heimsóknir en vefurinn var skoðaður rúmlega 35 þúsund sinnum, það er að hver heimsækjandi skoðar síðuna rúmlega 4 sinnum yfir árið að meðaltali. Á vef FA er að finna margvíslegar upplýsingar um Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, meðal annars um verkfæri framhaldsfræðslunnar, starfsemi FA, erlent samstarf og innlenda samstarfsaðila. Á mælaborði FA má nálgast tölur yfir árangur af starfinu frá upphafi eða frá árinu 2003. Sjá hér.

Veftímaritið GÁTT

Á árinu voru birtar átta greinar í Gátt eftir innlenda og erlenda höfunda, um fjölbreytt efni sem snýr að framhaldsfræðslunni og námi fullorðinna.

Greinar í Gátt 2024:

  • Framtíð stafrænnar inngildingar
  • Brú út á vinnumarkaðinn fyrir innflytjendur:
    Leikskólasmiðja og Fagnám fyrir starfsfólk leikskóla
  • Fagbréf atvinnulífsins í verslunarstörfum
  • Bara tala – verkfæri sem styður við íslenskunám
    innflytjenda
  • Menningarnæmi í fullorðinsfræðslu
  • Staða stafrænnar náms- og starfráðgjafar á Íslandi,
    tækifæri og áskoranir
  • Framhaldsfræðslan: Erlendir ríkisborgarar í námi og
    raunfærnimati 2017-2022
  • Viðtal við Ingibjörgu Elsu Guðmundsdóttur: Að hækka
    menntunarstig