Ársskýrsla
2021

Frá framkvæmda­stjóra

Hildur Betty Kristjánsdóttir

Íslenskt atvinnulíf hefur tekið stöðugum breytingum á síðustu áratugum og nú er hraði breytinga meiri en áður hefur þekkst. Með skýrri og vel uppbyggðri færnispá fáum við ákveðna innsýn inn í framtíðina varðandi framboð og eftirspurn vinnuafls. Þeir hópar sem eru taldir líklegastir til að finna fyrir mestu breytingunum á vinnumarkaði er fólk sem ekki hefur lokið námi á framhaldsskólastigi, fólk með erlendan bakgrunn og yngra fólk. Stóra verkefnið okkar er að finna leiðir til að styðja við fólk og gera því kleift að auka færni sína sem styður við verðmætasköpun í samfélaginu og mætir eftirspurn atvinnulífsins með ákveðna færni þar sem þessara áhrifa gætir mest. Fræðslumiðstöð atvinnulífsins (FA) er í stakk búin til að takast á við þær breytingar sem framhaldsfræðslan stendur frammi fyrir, undir nýju ráðuneyti félagsmála- og vinnumarkaðar í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins, stjórnvöld, samstarfsaðila og aðra hagaðila.

Síðustu 20 ár hefur FA þróað verkfæri í samstarfi við atvinnulífið og fræðsluaðila. Við ætlum að halda áfram að vera leiðandi í að greina, meta og auka hæfni í atvinnulífinu. Hæfnigreiningar FA hafa
reynst vel þar sem aðkoma atvinnulífsins er hluti af ferlinu og myndar greiningin starfaprófíl sem er grunnur að uppbyggingu náms eða raunfærnimats. Með því að greina hæfnikröfur starfa náum við að fanga þekkingu, hæfni, starfsreynslu og menntun fólks þegar störf hverfa og ný verða til með það að markmiði að reynslan endurnýtist í önnur störf eða ný.

Hlutverk framhaldsfræðslunnar verður sífellt mikilvægara með breyttri samfélagsþróun og við sem störfum á vettvangi framhaldsfræðslunnar þurfum að spyrja okkur: Hvernig mætum við markhópnum best? Er fjármagnið að nýtast sem skyldi? Skilar þjónustan þeim árangri sem lagt var upp með? Við þurfum að taka ákvarðanir um framtíðina út frá góðum upplýsingum með hagsmuni markhópsins að leiðarljósi. Með endurskoðun á lögum um framhaldsfræðslu skapast ótal sóknarfæri. Saman erum við sterkari og með skýra sýn að markmiðunum náum við til breiðari hóps fullorðinna sem vill efla færni sína í lífi, námi og starfi.

Hjá FA starfar hópur fólks sem er lausnamiðað, hugmyndaríkt og býr yfir ómetanlegri þekkingu og reynslu á vettvangi framhaldsfræðslunnar. Framundan er nýtt landslag og með starfsfólki og stjórn FA tökum við næsta skref.

Árangur starfsins á vettvangi framhaldsfræðslunnar 2021

Starfsemi

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins (FA) er samstarfsvettvangur og verkfærasmiðja í fullorðins- og framhaldsfræðslu á íslenskum vinnumarkaði. Hlutverk FA er að veita fólki á vinnumarkaði sem ekki hefur lokið námi frá framhaldsskóla tækifæri til að afla sér menntunar og/eða styrkja stöðu sína á vinnumarkaði. FA hefur starfað á grundvelli þjónustusamnings við mennta- og menningarmálaráðuneytið um verkefni á sviði framhaldsfræðslu samkvæmt lögum nr. 27/2010.
Í þjónustusamningi er FA jafnframt falin umsýsla með Fræðslusjóði sem starfar á grundvelli sömu laga.

Frá 2005 hefur FA hýst landstengilið Íslands í Norræna tengslanetinu um nám fullorðinna (NVL) með fjármagni frá Norrænu ráðherranefndinni. Jafnframt hefur FA frá 2017 hýst Hæfnisetur ferðaþjónustunnar sem vinnur samkvæmt þjónustusamningi við menningar- og viðskiptaráðuneytið (áður atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið), um uppbyggingu á hæfni starfsfólks í íslenskri ferðaþjónustu. Hæfnisetrið, Fræðslusjóður og NVL gefa út sínar eigin ársskýrslur.
FA heldur úti þremur vefjum auk frae.is sem hver um sig hefur skilgreind markmið og markhóp. FA er í eigu SA, ASÍ, BSRB, fjármála- og efnahagsráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Hér má sjá yfirlit yfir starfsemi FA á árinu 2021

Verkfæri framhaldsfræðslunnar

Hæfnigreiningar

Námskrár

Raunfærnimat

Ráðgjöf um nám og störf

Næsta skref

Kennslumiðstöð

EQM/EQM+ gæðavottun

Erlent samstarf

NVL

Enterprised

NOVA

Commonline

KIAL

TRANSVAL

Önnur verkefni

Hæfnisetur ferðaþjónustunnar

Umsýsla Fræðslusjóðs

Gátt

FA hvetur til samvinnu og samráðs á sem fjölbreyttustum vettvangi og heldur vefstofur, vinnufundi og námskeið fyrir fagaðila í raunfærnimati, ráðgjafa á vettvangi framhaldsfræðslunnar og umsjónarmenn hæfnigreininga.

Helstu verkefni FA

  • Greina hæfnikröfur starfa á vinnumarkaði.
  • Vinna að þróun og viðurkenningu raunfærnimats í samstarfi við atvinnulíf og fræðsluaðila.
  • Auka framboð á vottuðu námi fyrir markhópinn byggt á hæfnigreiningum.
  • Efla náms- og starfsráðgjöf meðal einstaklinga sem ekki hafa lokið námi á framhaldsskólastigi til þess að styrkja stöðu þeirra á vinnumarkaði.
  • Tryggja gæði í starfi fræðsluaðila með þróun og innleiðingu á gæðakerfi fyrir framhaldsfræðsluna.
  • Taka þátt í innlendu og erlendu samstarfi þar sem hagsmunir atvinnulífs og markhópsins eru í fyrirrúmi.
  • Miðla upplýsingum um árangur starfsins, nýjungar og þróun framhaldsfræðslu.
  • Þróa aðferðir til að styðja við framkvæmd náms og nýtingu verkfæra.

Samstarfsaðilar FA

Starf FA grundvallast á samstarfi við aðila vinnumarkaðarins, stéttarfélög, fagfélög, fyrirtæki og stofnanir. Framkvæmd er unnin í gegnum fjármögnun Fræðslusjóðs og samninga við 14 fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar um land allt. Að auki starfar FA með fjölbreyttum hópi sérfræðinga í Evrópu í gegnum ákveðin verkefni og tengslanet.

Aðrir helstu samstarfsaðilar á árinu:
  • Eigendur FA
  • Mennta- og menningarmálaráðuneytið
  • Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið
  • Vinnumálastofnun (VMST)
  • VIRK starfsendurhæfingarsjóður
  • Framhaldsskólar
  • Háskólar
  • Fræðslu- og starfsmenntasjóðir
  • NVL – Norrænt tengslanet um nám fullorðinna
  • Menntamálastofnun (MMS)
  • Rannís

Framtíð framhalds­fræðslunnar

Guðmundur Ingi Guðbrandsson,
félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins hefur verið mikilvægur samstarfsvettvangur aðila á vinnumarkaði við fræðsluaðila um allt land um þróun og framkvæmd náms fullorðinna.

Áhrif loftslagsbreytinga og fjórða iðnbyltingin eru stórar áskoranir fyrir vinnumarkaðinn. Þetta mun kalla á fleiri tækifæri til endurmenntunar og grunnmenntunar, og skiptir þá ekki máli hvort það nám fer fram á vinnustað eða á vegum framhaldsfræðsluaðila. Við stöndum frammi fyrir tæknibyltingum sem breyta því hvernig við störfum og um leið hvernig við lærum. Við þurfum í sameiningu að finna leiðir til að nema þessar breytingar og geta brugðist við. Endurskoðun laga um framhaldsfræðslu er því tímabær og hefur verið sett á dagskrá.

Við viljum samfélag án aðgreiningar og því þurfum við að gera fólki kleift að sækja það nám sem það helst kýs og telur sig hafa gagn af. Þess vegna þurfum við að huga að fjölbreyttum og sveigjanlegum áherslum innan framhaldsfræðslunnar þar sem boðið er upp á nám sem tekur mið af einstaklings- bundnum þörfum í stórum sem smáum lærdómssamfélögum. Ég tel því mikilvægt að hvetja fatlað fólk, innflytjendur, örorkulífeyrisþega og atvinnuleitendur til náms. Ef við ætlum okkur að vera raunverulegt samfélag fyrir alla þá verða námstækifæri, þjálfunarúrræði og hlutastörf að standa öllum þessum hópum til boða.

Verkfæri framhalds­fræðslunnar

Hæfnigreiningar

Mikilvægt skref var stigið í upphafi faraldursins með þróun á rafrænni leið við hæfnigreiningar. Það mun auka möguleikana á enn frekari þátttöku óháð búsetu. Fyrirhugaðar eru hæfnigreiningar í samstarfi við Fræðslusetrið Starfsmennt, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og Fjölmennt.

Ein hæfnigreining var framkvæmd á árinu að beiðni Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og var það greining á starfi slökkviliðsmanns. Greiningin var gerð með blandaðri leið þar sem hluti hópsins nýtti nýja rafræna lausn og hluti hópsins vann hefðbundna greiningarvinnu.

Samtals liggja fyrir 49 starfaprófílar sem eru afurð hæfnigreininga. Flestir eru fyrir störf í ferðaþjónustu eða 11 og verslunar- og skrifstofustörf eða 9.

Dreifing starfaprófíla á starfsgreinaflokka 2013-2021

Námskrár

Á árinu var unnið að námskrám FA til að styðja við færnieflingu í ferðaþjónustu og byggði sú vinna bæði á ítarlegum greiningargögnum og samvinnu við fyrirtæki, framhaldsskóla og hagsmunaaðila greinarinnar. Alls litu fjórar nýjar námskrár dagsins ljós sem hlutu vottun hjá MMS. Auk þeirra var námskráin Félagsliðabrú endurskoðuð vegna breytinga sem gerðar voru á námsbraut félagsliða og haft var samráð við Borgarholtsskóla við þá vinnu. Endurskoðuð nám- skrá framhaldsfræðslunnar fékk heitið Félagsliðagátt.

Við skrif námskránna var hugað að því að mæta þörfum þeirra sem ekki hafa íslensku að móðurmáli.

Námskrár sem fengu vottun 2021:
  • Ferðaþjónusta I (5 feiningar)
  • Ferðaþjónusta II (5 feiningar)
  • Ferðaþjónusta – Móttaka á gististöðum (6,5 feiningar)
  • Ferðaþjónusta – Veitingasalur (6,5 feiningar)
  • Félagsliðagátt (endurskoðuð námskrá, 86 feiningar)

Heildstæð námslína í ferðaþjónustu

Unnið var að heildstæðri námslínu fyrir störf í ferðaþjónustu í samvinnu við Framhaldsskólann í Austur-Skaftafellssýslu, sem hlaut styrk til verksins frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Með námslínunni verður opin leið fyrir alla sem vilja auka hæfni sína fyrir störf í ferðaþjónustu óháð aldri. Tryggt er jafngilt mat milli kerfa framhaldsfræðslu og framhaldsskóla sem og greið leið fyrir þá sem vilja halda áfram námi innan framhaldsskóla og í háskóla. Námslínan skiptist í grunnnám og sérhæfingar með námslokum bæði á 2. og 3. þrepi. Alls 90 feiningar með námslokum á öðru hæfniþrepi þar sem grunnur er 40 feiningar og greinist svo í sérhæfingar sem hver er 50 feiningar. Sérhæfingar fyrir starfsfólk í móttöku, fjallaferðamennsku og veitingum eru tilbúnar en auk þess er sérhæfing fyrir náttúrubaðstaði í vinnslu. Námslínan er nú í formlegu vottunarferli hjá MMS.

Raunfærnimat

Alls fóru 580 einstaklingar í gegnum mat á raunfærni á vegum framhaldsfræðslunnar á árinu, meirihluti voru karlar eða 68%. Meðalaldur allra var 37,7 ár. Langflestir þátttakenda voru Íslendingar eða 90%. Flestir fóru í gegnum raunfærnimat í húsasmíði eða samtals 70 og í almennri starfshæfni eða 54 talsins. Raunfærni var metin á móti formlegu og óformlegu námi sem og viðmiðum starfa. Sífellt bætast ný svið við þar sem hægt er að fá reynslu af vinnumarkaði metna. Samtals hafa 6.748 einstaklingar lokið raunfærnimati frá árinu 2004.

Raunfærnimat 2021

Fjöldi einstaklinga í raunfærnimati eftir árum

Þjóðerni einstaklinga í raunfærnimati 2021

Flestir fóru í gegnum raunfærnimat í eftirtöldum greinum

FA þjálfar fagaðila í raunfærnimati og voru haldin fjögur námskeið þar af eitt fyrir nemendur Háskóla Íslands sem hluti af námskeiðinu Mat og vottun. Þátttakendur á námskeiðum FA komu víða af landinu og var almenn ánægja með stafræna útfærslu á þeim.

Rafrænt raunfærnimat

Unnið var að þróun rafræns umsýslukerfis um raunfærnimat í samvinnu við Advania og Iðuna, sem leiðir verkefnið. Þegar nýja kerfið verður tekið í notkun verða öll gögn vistuð á einum stað sem tryggir meðal annars að framkvæmdaraðilar vinni ávallt með nýjustu útgáfur matslista. Kerfið mun styðja þá þjónustu sem veitt er þátttakendum í raunfærnimati og að allt ferlið geti farið fram í stafrænu umhverfi þegar það á við. Kerfið verður prufukeyrt og tilbúið til notkunar 2022.

Raunfærnimat á móti viðmiðum starfa

Niðurstöðum úr tilraunaverkefninu Raunfærnimat á móti viðmiðum starfa var fylgt eftir á árinu. Þá var hlutverk FA sem miðja fyrir kerfið endanlega mótað. Í því felst að FA tryggir gæði, gildi niðurstaðna og miðlar upplýsingum um raunfærnimatskerfið, uppfærir hæfniviðmið, gefur út fagbréf, þjálfar fagaðila og viðurkennir ábyrgðaraðila fyrir framkvæmd.

  • Kynning á inntaki raunfærnimats
  • Stuðningur við gerð hæfni- og matsviðmiða
  • Ráðgjöf um aðferðafræði og verkfæragerð
  • Þjálfun fagaðila, verkefnastjórn, matsaðilar og ráðgjöf
  • Ráðgjöf um framkvæmd
  • Rýni með þátttakendum, kennurum og sérfræðingum HÍ um niðurstöður
  • Minnisblað um niðurstöður og ábendingar um næstu skref

Raunfærnimatsferlið

Tveimur verkefnum undir hatti tilraunaverkefnisins lauk á árinu með afhendingu fagbréfa. Nokkur dráttur varð á að unnt væri að ljúka þjálfun vegna heimsfaraldurs en það tókst og 13 útskrifuðust með fagbréf í matvælavinnslu, 15 með fagbréf sérhæfðs þjónustufulltrúa og 20 með fagbréf í verslunarstörfum. Jafnframt var stutt við raunfærnimat innan verslunarinnar í samstarfi við Mími, VR og Verzlunarskólann, þar sem fleiri fyrirtæki komu inn í ferlið á árinu. Flest fyrirtækjanna eru innan verslunar- og þjónustu.

Ráðgjöf um raunfærnimat – leikskólakennarafræði við Háskóli Íslands

Samið var við Háskóla Íslands um ráðgjöf FA við mótun, undirbúning og framkvæmd raunfærnimats fyrir leikskólakennarafræði. Samningurinn tekur til eftirfarandi atriða:

  • Kynning á inntaki raunfærnimats
  • Stuðningur við gerð hæfni- og matsviðmiða
  • Ráðgjöf um aðferðafræði og verkfæragerð
  • Þjálfun fagaðila, verkefnastjórn, matsaðilar og ráðgjöf
  • Ráðgjöf um framkvæmd
  • Rýni með þátttakendum, kennurum og sérfræðingum HÍ um niðurstöður
  • Minnisblað um niðurstöður og ábendingar um næstu skref

Ráðgjöf um nám og störf

Vegna áhrifa heimsfaraldurs hafa fræðsluaðilar verið í auknu samstarfi við VMST og VIRK á árinu og dregið úr vinnustaðaheimsóknum. Meirihluti fólks sem kom í ráðgjöf hjá fræðslu- og símenntunarmiðstöðvunum á árinu voru Íslendingar eða um 81%. Er það sambærilegt við árið á undan. Höfuðborgarbúar voru rétt rúmur helmingur notenda eða 51,2% en á landsbyggðinni voru það Norðlendingar sem flestir sóttu ráðgjöfina eða 16,5%.

Á vinnufundi FA með ráðgjöfum var unnið að eflingu færni ráðgjafa í að nýta rafræna miðla og öpp til að koma upplýsingum á framfæri, hvetja og styðja við fólk.

Ráðgjafarviðtöl eftir þjóðerni - samanburður á milli ára

Hlutfall viðtala eftir landshlutum 2021

Ráðgjafarviðtöl eftir stöðu fólks á vinnumarkaði 2021

Helstu niðurstöður viðtals er að fólk ákveður að fara í raunfærnimat (23%), það fær upplýsingar um formlegt nám (16%), það fær aðstoð við starfsleit og gerð ferilskrár (11%) og velur sér leið til sjálfsstyrkingar (10%). Aðrar niðurstöður eru aðstoð við ýmsar hindranir, upplýsingar um styttri námskeið, námstækni, áhugasviðsgreining og tilvísun til annarra sérfræðinga.

Upplýsingavefurinn Næsta skref.is

Notkun vefjarins hefur farið mjög vaxandi ár frá ári og notendafjöldi 2021 rétt tæp 60.000. Horft hefur verið til formlegrar samvinnu og aðkomu MMS og ráðuneytis að verkefninu í anda sambærilegra vefsvæða nágrannalanda. Á árinu lauk því samtali án skýrrar niðurstöðu.

Því var fókusinn á ný færður að framhaldsfræðslukerfinu og má segja að þar standi þrennt upp úr:

  • Þýðing vefjarins á ensku. Styrkur fékkst úr Þróunarsjóði innflytjendamála sem gerir kleift að þýða um 2/3 hluta meginefnis vefjarins. Er sú vinna vel

    á veg komin og birtist notendum haust 2022.

  • Miðlægt kerfi utan um námsleiðir og námskeið framhaldsfræðslunnar er nú fullbúið og virkar í samræmi við upphafleg markmið.
  • Rafræn ráðgjöf. Hvort tveggja erindi sem berast ráðgjafarhluta vefjarins sem og almenn aukning í rafrænum samskiptum benda eindregið til sóknarfæra

    í þeim efnum og eðlilegt að horfa til reynslu Dana og Norðmanna sem hafa komið á virkum ferlum og umgjörð fyrir rafræna ráðgjöf á sínum upplýsingavefjum. Á árinu fór fram töluverð umræða um málefnið, meðal annars í tengslum við vefinn.

Hópur ráðgjafa af símenntunarmiðstöðvum kemur á næstunni til með að mynda bakhóp sem mun hafa það hlutverk að taka þátt í þróun vefjarins; hugmyndavinnu og stefnumótun, með þarfir notenda þjónustu framhaldsfræðslunnar í huga.

Kennslumiðstöð

Hjá kennslumiðstöð var haldið áfram að þróa ný verkefni fyrir leiðbeinendur fullorðinna. FA býður einnig leiðbeinendum og kennurum í framhaldsfræðslu upp á þjálfun og ráðgjöf til að efla og tryggja gæði náms.

Helstu afurðir á árinu:
  • Gerð sjálfsmatslista í samvinnu við Háskóla Íslands.
  • Gerð vegvísis (e. Roadmap) um starfsþróun leiðbeinenda og gagnagrunnur fyrir námskeið og aðrar mögulegar leiðir til starfsþróunar. Vegvísirinn styður beint við niðurstöður sjálfsmats.
  • Endurskoðun á námskeiðum til að miðla nýjungum í kennslufræði í tengslum við aukna áherslu á stafræna kennslu.

Í gegnum samstarf í neti um hæfni leiðbeinenda á vegum NVL var unnið að tilraunaverkefnum þar sem notaðar voru kennsluaðferðir byggðar á samsköpun (e. co-creation). Verkefninu er fylgt eftir af rannsakendum frá Háskólanum í Árósum.

EQM/EQM+ gæðavottun

Endurskoðun á gæðaviðmiðum EQM og EQM+ lauk á árinu 2020 og fóru fyrstu fræðsluaðilarnir í úttekt samkvæmt nýjum viðmiðum á árinu 2021. EQM og EQM+ gæðaviðmiðin hafa verið í þróun hjá FA í yfir 10 ár. Upphaflega náði gæðavottunin eingöngu yfir fræðslu, en í dag er í boði vottun vegna náms- og starfsráðgjafar og raunfærnimats, auk fræðslu. Í árslok voru 19 fræðsluaðilar og fyrirtæki með vottun; annað hvort EQM eða EQM+. Allir 14 samstarfsaðilar FA á vettvangi framhaldsfræðslunnar eru með EQM+ gæðavottun.

Erlent samstarf

FA nýtir sér erlend tengsla- og samstarfsnet um nám fullorðinna í þróunarvinnu sinni. Viðfangsefni verkefna eru sérvalin út frá þörfum markhópsins og niðurstöðum miðlað inn í framkvæmd á vettvangi framhaldsfræðslunnar. Auk NVL voru tímabundin erlend verkefni á árinu fimm talsins.

NVL - Norrænt tengslanet um nám fullorðinna

Fulltrúar FA taka þátt í fjölbreyttum netum á vegum NVL sem hvert um sig vinnur að afmörkuðum verkefnum út frá áherslusviðum hverju sinni. Starfandi net á árinu voru átta talsins:
  1. Grunnleikni
  2. NVL Digital (Stafræn hæfni)
  3. Raunfærnimat
  4. Ráðgjöf fullorðinna
  5. Hæfni leiðbeinenda
  6. Alfaráðið
  7. Sjálfbærni
  8. Menntun í fangelsum
Helstu afurðir NVL neta á árinu:
  • Norræni gæðavitinn hefur verið þýddur á íslenska tungu. Gæðavitinn er safn verkfæra til að meta framkvæmd raunfærnimats, stefnumótandi gögn og ferla, sem og hæfni þeirra sem koma að framkvæmd raunfærnimats.
  • Samantekt um pólitíska stefnumörkun er varðar gæði í raunfærnimati á Norðurlöndunum var gefin út á íslensku.
  • Kortlagt var hvernig starf NVL neta hefur áhrif á Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og stuðlar að framtíðarsýn Norrænu ráðherranefndarinnar.
  • Netið um sjálfbærni safnaði saman hugmyndum og aðferðafræði fyrir kennslu um sjálfbæra þróun í Innblástursbók.
  • Þemasíða um stafræna þátttöku.
  • Netið um stafræna hæfni gaf út skýrslu um stafræna bilið á Norðurlöndunum og heldur áfram á nýju ári með rannsókn um hvernig sé hægt að brúa bilið með því að auka stafræna hæfni.
  • Netið um grunnleikni birti ritefni sem samanstendur af verkefnum á Norðurlöndunum sem stuðla að aukinni grunnleikni og stafrænni hæfni einstaklinga.
  • Net um hæfni leiðbeinenda var með tilraunaverkefni í Noregi, Finnlandi, Svíþjóð, Færeyjum og á Íslandi þar sem beitt var samskapandi (e. co-creation) aðferðafræði í norrænu samhengi. Niðurstöður rannsóknar eru væntanlegar árið 2022.

Starfið á Íslandi

NVL kom að nokkrum viðburðum á Íslandi á árinu:
  • Íslendingar sem sitja í norrænum sérfræðinetum NVL og aðrir sem koma að starfi NVL á Íslandi hittast tvisvar á ári til að miðla upplýsingum um afurðir NVL og þróun verkefna í netum. Fundirnir skapa umræðuvettvang fyrir starfsemi NVL, stuðla að samvinnu og styrkja tengslanetið.
  • Á streymisviðburði voru stjórnendur hjá HK-dir (Hæfnistofnun Noregs) fengnir til að miðla hvernig rafræn, miðlæg og einstaklingsmiðuð starfsferilsráðgjöf í gegnum vefinn Karriereveiledning.no var byggð upp, gæðum í ráðgjöfinni og reynslunni af rafrænni ráðgjöf hingað til. Viðburðurinn var haldinn af NVL á Íslandi og FA í samvinnu við Euroguidance á Íslandi (Evrópumiðstöð náms- og starfsráðgjafar). Grein um málefnið var birt í Gátt eftir viðburðinn.
  • NVL styrkti fræðslufundi ráðgjafa framhaldsfræðslunnar, þar á meðal vinnustofu um rafræna ráðgjöf.
  • NVL stuðlaði að þátttöku norræns fyrirlesara á ráðstefnu Kvasis, samtökum fræðslu- og símenntunarmiðstöðva á Íslandi. Erindi fyrirlesarans fjallaði um greiningu á þörfum Zeta og Alfa kynslóðanna, til að framhaldsfræðslan verði í stakk búin til að mæta áhuga og þörfum komandi kynslóða. Grein um efnið var birt í Gátt.

Tímabundin erlend verkefni

Enterprised verkefnið (Erasmus KA2)

Vinnu við verkefnið lauk á árinu. Unnið var að þremur megin afurðum sem snúa að eflingu hæfni starfsfólks í ferðaþjónustu, þar á meðal handbók um aðferðafræði við gerð og fyrirlögn aðstæðubundinnna raundæma og dæmabanka sem getur nýst beint inn í störf í ferðaþjónustu. Aðferðafræðin er yfirfæranleg á önnur störf. Samstarfsaðilar í tilraunahluta verkefnisins voru Landnámssetrið, Íslandshótel, Blue Car, Höldur, Mímir og Gerum betur ehf.

NOVA verkefnið (Erasmus KA2)

Markmið verkefnisins er að finna og gera sýnileg fyrirmyndardæmi þar sem óformlegt nám er tengt inn á hæfniramma og síðan útbúinn grunnur að ferlum og verkfærum til að auðvelda það. Sótt var um árs framlengingu á verkefninu og nú er gert ráð fyrir að því ljúki haustið 2023.
Helstu afurðir á árinu:
  • Málstofa með umfjöllunarefninu: Should non-formal learning/qualifications be included in National Qualifications Frameworks and be possible to acquire through validation?
  • Söfnun fyrirmyndardæma um tengingar á óformlegu námi við hæfniramma landa í Evrópu.
  • Lagður grunnur að samanburðarrannsókn á fyrirmyndadæmum.

Com(m)online (Erasmus KA2)

Verkefnið fjallar um nýungar í kennsluháttum og því er ætlað að finna leiðir til að mæta áskorunum í stafrænni og blandaðri (rafrænt/á staðnum) kennslu. Það byggist upp á vettvangsheimsóknum og mati milli samstarfsaðila og lá af þeim sökum að mestu niðri í heimsfaraldrinum. Fyrirhugaðar eru sex heimsóknir á nýju ári og þar af tvær á Íslandi. Íslenskir þátttakendur eru FA og Starfsmennt. Verkefninu lýkur um mitt ár 2023.

KIAL – Nordplus verkefni

Unnið var að lýsingum á mismunandi starfsferilsþróun hjá einstaklingum sem og lýsingum á því hvernig starfsferilsráðgjöf getur stutt við fullorðið fólk í atvinnulífinu. Innlendur bakhópur ráðgjafa tók saman dæmi af vettvangi hér á landi. Efnið verður gefið út á skýrsluformi í gegnum NVL, en NVL net um ráðgjöf fullorðinna var bakhópur verkefnisins.

TRANSVAL – Erasmus KA3 verkefni

Á árinu var unnið að lýsingu á raunfærnimati í almennri starfshæfni eins og það er framkvæmt hér á landi. Lýsingin er hluti af samanburðarrannsókn þátttökulanda sem miðar að því að skoða raunfærnimatsferli og þátt leiðsagnar og ráðgjafar þegar unnið er með að draga fram og meta yfirfæranlega færni fólks. Jafnfram voru dregnir fram hæfniþættir fyrir yfirfæranlega færni og lögð til endurgjöf á mótun samevrópsks ramma.

Rekstur

Árið 2021 var félaginu erfitt á margan hátt. Heimsfaraldurinn hafði mikil áhrif á möguleika FA til að afla sér verkefnatekna og drógust þær saman um 22,7 m.kr. milli ára. Þá var gengisþróun óhagstæð og var gengistap tæpar 2,7 m.kr., en árið 2020 var gengishagnaður tæpar 5,1 m.kr. Þegar ljóst var í hvað stefndi var gripið var til afgerandi aðhaldsaðgerða, en niðurstaðan er engu að síður umtalsvert tap á árinu, eða rúmlega 23 m.kr., sem er langversta afkoma félagsins frá upphafi. Líkt og undanfarin ár er launakostnaður Hæfnisetursins og Næsta skrefs færður beint á þau verkefni og því hluti af rekstrar- og verkefnakostnaði. Það fé sem stóð undir rekstri vefjarins Næsta skref.is kláraðist á síðustu mánuðum ársins og eftir það féllu launaskuldbindingar og annar kostnaður beint á FA. Ljóst er að ef halda á vefnum áfram úti þarf að finna honum rekstrargrundvöll til framtíðar.

Verkefnatekjur drógust saman um 20% frá 2020 og yfir 30% ef miðað er við árið 2019. Ljóst er að næstu misseri munu verða erfið og lítið svigrúm til útgjalda.

Mannauður

Alls voru unnin 15,8 ársverk hjá FA en í árslok störfuðu þar 17 manns í 14,65 stöðugildum, þar af þrír karlmenn í þremum stöðugildum og 14 konur í 11,65 stöðugildum. Fjöldi verkefnastofna gerir kröfu um að sérfræðingar FA búi yfir víðtækri þekkingu og reynslu. Áhersla er lögð á samvinnu starfsfólks og að nýta styrkleika þess og þekkingu í gegnum teymisvinnu innan hvers verkefnastofns, sem einn til tveir sérfræðingar verkstýra. Starfsfólk er almennt í fleiri en einum verkefnastofni.

Heimsfaraldurinn hefur ekki aðeins haft áhrif á fjármálin, heldur einnig á starfsfólk. Samskipti fólks, bæði starfsfólks innbyrðis, en ekki síður út á við hafa breyst; fjarfundir eru orðnir frekar regla en undantekning og heimavinna orðin algengari. Dæmi um birtingarmynd þessara breytinga er að allir fundir stjórnar FA á árinu voru fjarfundir. Hefur starfsfólk FA sýnt mikla þolinmæði og æðruleysi við krefjandi aðstæður og á hrós skilið.

Nemendabókhald

Uppgjör á framkvæmd ársins 2021 í vottuðum námsleiðum, raunfærnimati og náms- og starfsráðgjöf fór fram samkvæmt skráningum í Innu. Allar fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar sem eru í samstarfi við FA hafa aðgang að Innu og skrá þar fyrrgreindar upplýsingar.

Kynningarmál

Hafist var handa við að uppfæra vefsíðu FA á árinu með það fyrir augum að gera hana notendavænni. Send var út könnun á póstlista FA og kallað eftir sýn notenda á síðuna. Nýttust þær ábendingar sem bárust við endurbæturnar. Leiðarljósið í allri vinnunni var meiri léttleiki, myndræn framsetning og samræmi. Ný heimasíða FA var opnuð á ársfundi FA í febrúar 2022.

Helstu nýjungar á síðunni eru:

  • Mælaborð FA þar sem nálgast má tölur yfir árangur af starfinu frá upphafi eða frá 2003.
  • Vegvísir sem ætlað er að styðja við starfsþróun leiðbeinenda fullorðinna og matslistar svo þeir geti metið eigin hæfni.

Samhliða uppfærslu á vef var gerð ný litapalletta fyrir FA og nýtt sniðmát fyrir kynningarglærur.
Eitt kynningarmyndband var framleitt á árinu, ætlað til birtingar á ársfundi FA. Markmiðið með gerð myndbandsins var að kynna FA og verkfæri framhalds- fræðslunnar. Útlit er í samræmi við uppfærðan vef.

Ákveðið var að færa ársfund FA fram í febrúar 2022 í tilefni af því að það árið á FA 20 ára afmæli. Undirbúningur fundarins fór fram í lok árs og voru uppfærð heimasíða og kynningarmyndband hluti af þeirri vinnu.

FA gefur út veftímaritið Gátt með það að markmiði að efla umræðu um framhaldsfræðslu og menntun á vinnumarkaði. Á árinu voru birtar 18 greinar í Gátt eftir erlenda og innlenda höfunda.

Dæmi um efni greinanna í Gátt:

  • Kostir og gallar rafrænnar ráðgjafar
  • Raunfærnimat í atvinnulífinu
  • Leiðbeinendur í fullorðinsfræðslu
  • Sveigjanlegir kennsluhættir
Maí 2022
Útgefandi: Fræðslumiðstöð atvinnulífssins