Framsækni, samvinna og samtal einkenndu árið 2022 hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins (FA) og sýndi starfsfólk mikla snerpu þegar það tókst á við ný verkefni til að tryggja enn frekar jöfn tækifæri fólks undir nýju ráðuneyti félags- og vinnumarkaðar.
Unnið hefur verið að því að undirbúa aðkomu nýrra hópa að framhaldsfræðslunni. FA hæfnigreindi störf og skrifaði námskrár í nánu samstarfi við Fjölmennt til að fjölga námstækifærum fatlaðs fólks; braut námskrár sínar upp í örvottanir til að hægt væri að bjóða flóttafólki upp á fjölbreyttara námsframboð; þýddi upplýsinga- og ráðgjafarvefinn Næsta skref á ensku til að geta veitt ráðgjöf um nám og störf á fleiri tungumálum og hóf samstarf við Rafmennt um að greina hæfnikröfur starfa í skapandi greinum.
Raunfærnimatið hefur verið eitt öflugasta verkfæri framhaldsfræðslunnar og teygir anga sína inn í marga kima samfélagsins; til einstaklingsins, menntakerfisins og atvinnulífsins. Rúmlega 7.300 einstaklingar hafa fengið færni sína metna hvort sem það er á móti námi á framhaldsskólastigi eða á móti viðmiðum starfa. Nokkrir matslistar voru þýddir á ensku til að mæta fólki með erlendan bakgrunn og unnið var áfram að mótun og undirbúningi framkvæmdar námslínu í ferðaþjónustu.
Stigin voru stór skref á 20 ára afmælisfundi FA þegar nýtt verkfæri var kynnt til leiks. Fagbréf atvinnulífsins hefur verið í þróun í samstarfi við Alþýðusamband Íslands (ASÍ) og Samtök atvinnulífsins (SA) frá 2019 og á árinu var lokið við að festa sjálfbært kerfi fyrir verkfærið í sessi. Aðilar atvinnulífsins hafa sýnt Fagbréfi atvinnulífsins mikinn áhuga og er endurgjöf þátttakenda jákvæð. Fagbréf atvinnulífsins talar inn í aðgerðaáætlun stjórnvalda en eitt af langtímamarkmiðum er að huga að virkri símenntun til að ná fram aukinni verðmætasköpun og fjölgun starfa á vinnumarkaði. Það er mikilvægt að viðurkenna færni fólks svo hún nýtist til frekara náms, starfa og starfsþróunar. Samtalið er hafið við hinar ýmsu starfsgreinar um hvernig skilgreina megi með markvissum hætti mat á störfum, hlutverk, færni, ábyrgð og frammistöðu sem skapar grundvöll fyrir launasetningu og aukinn ávinning starfsfólks og fyrirtækja.
Innan framhaldsfræðslunnar hefur verið lögð áhersla á að byggja brýr á milli menntakerfa með því að bjóða upp á starfstengt þrepaskipt nám sem hefur bæði gildi í atvinnulífinu og menntakerfinu. Framhaldsfræðslan er tilbúin í enn frekara samstarf um þrepaskipt nám til að gera hæfni sýnilega og opna leiðir á milli kerfa. Umræðan um hæfni og á hvaða þrepi hæfni flokkast býr til sameiginlegan grunn á milli atvinnulífs og menntakerfis, því er mikilvægt að festa hæfniramma um íslenska menntun enn frekar í sessi. Hann er lifandi verkfæri sem stuðlar að gagnsæi og veitir fólki tækifæri til að greina stöðu sína og sjá leiðir til frekara náms.
Í samtölum við framkvæmdastjóra fræðslu- og símenntunarmiðstöðva sem vinna í samstarfi við FA kemur fram skýr vilji til þess að FA verði miðjan um þróun verkfæra og leiða á vettvangi. Samtölin voru tekin með það að markmiði að draga fram mikilvægar áherslur úr starfinu til að nýta inn í stefnumótun félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins. Þá kynnti FA fyrir ráðherra tillögur að því hvernig efla megi enn frekar leiðir fólks á vinnumarkaði sem ekki hefur lokið námi frá framhaldsskóla, til að afla sér menntunar eða bæta stöðu sína á vinnumarkaði, og kallaði eftir samstarfi.
Hjá FA starfar öflugt starfsfólk sem er útsjónarsamt, lausnamiðað og býr yfir sköpunarkrafti til að takast á við ný verkefni innan framhaldsfræðslunnar sem er fimmta stoð menntakerfisins. Ég vil þakka starfsfólki, samstarfsaðilum, stjórn og eigendum FA kærlega fyrir samstarfið á árinu.
Fræðslumiðstöð atvinnulífsins hefur vaxið, dafnað og þróast síðustu ár í samvinnu
við samstarfs- og hagaðila. Við megum vera stolt af því sem hefur áunnist innan framhaldsfræðslunnar. Nú stendur yfir heildarendurskoðun á lögum um framhaldsfræðslu á vegum félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins og eru FA og samstarfsaðilar tilbúin að takast á við ný sóknarfæri. Saman erum við sterkari.
Fræðslumiðstöð atvinnulífsins hefur sinnt miðlægri þjónustu við fræðsluaðila og atvinnulíf í ríflega 20 ár og býr því yfir reynslu og þekkingu til að vera leiðandi í að greina, þróa og meta hæfni. Það gerir hún með því að leiða saman ólíka aðila og efna til samtals um hvaða ný verkfæri eða nám þarf að þróa, prófa og síðan setja á laggirnar til að mæta fjölbreyttum þörfum, þannig að við öll getum vaxið af verkefnum okkar og fundið eigið virði.
Miklu skiptir að eiga hlutdeild í samfélaginu meðal annars með því að fá tækifæri til að taka þátt og vera virk í námi og starfi. Sú staða á ekki síst við um innflytjendur og fatlað fólk sem þurfa að eiga greiðari aðkomu að framhaldsfræðslu. Framhaldsfræðslan er í lykilhlutverki til að ná til viðkvæmra hópa með námi, úrræðum, ráðgjöf og raunfærnimati og um leið sá málaflokkur sem Fræðslumiðstöðin er með samning um við tvö ráðuneyti. Nú stendur yfir heildarúttekt á þeim samningi og niðurstaðna að vænta á vordögum.
Annað mikilvægt samstarfsverkefni er heildarendurskoðun á framhaldsfræðslukerfinu til að tryggja það að framhaldsfræðslan sé vel nýtt af þeim sem helst þurfa á að halda, hún sé aðgengileg án mikils tilkostnaðar, geti mætt áhuga einstaklinga, þörfum atvinnulífs og eigi svör við áskorunum fjórðu iðnbyltingarinnar og loftslagsbreytinga. Til að svo metnaðarfull markmið náist þurfum við kröftugt samtal um þróun, sem nú þegar er hafið, en um leið að styðjast við niðurstöður þeirra rannsókna og úttekta sem nú fara fram hjá nokkrum fagaðilum þar sem eru metin meðal annars gæði og viðhorf. Ég bind miklar vonir við að með endurskoðun framhaldsfræðslunnar styrkjum við hana í sessi sem fimmtu stoðina í menntakerfinu og að hún geti betur sinnt hlutverki sínu í að fjölga tækifærum fólks, stuðla að samfélagi án aðgreiningar og auka menntunarstig í landinu.
Fræðslumiðstöð atvinnulífsins (FA) er samstarfsvettvangur og verkfærasmiðja í fullorðins- og framhaldsfræðslu á íslenskum vinnumarkaði. Hlutverk FA er að veita fólki á vinnumarkaði sem ekki hefur lokið námi frá framhaldsskóla tækifæri til að afla sér menntunar og/eða styrkja stöðu sína á vinnumarkaði.
FA hefur starfað á grundvelli þjónustusamnings við mennta- og menningarmálaráðuneytið um verkefni á sviði framhaldsfræðslu samkvæmt lögum nr. 27/2010 og verið falin umsýsla með Fræðslusjóði. Áveðið var með þingsályktun í upphafi árs að færa FA undir félags- og vinnumarkaðsráðuneytið. Í lok árs var gerður samningur við mennta- og barnamálaráðuneytið og heyrir FA því undir tvö ráðuneyti.
FA er í eigu SA, ASÍ, BSRB, fjármála- og efnahagsráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Frá 2005 hefur FA hýst landstengilið Íslands í Norræna tengslanetinu um nám fullorðinna (NVL) með fjármagni frá Norrænu ráðherranefndinni. Jafnframt hefur FA frá 2017 hýst Hæfnisetur ferðaþjónustunnar sem vinnur samkvæmt þjónustusamningi við menningar- og viðskiptaráðuneytið um uppbyggingu á hæfni starfsfólks í íslenskri ferðaþjónustu.
Hæfnisetrið, Fræðslusjóður og NVL gefa út eigin ársskýrslur.
FA hélt úti þremur vefjum auk fræ.is sem hver um sig hefur skilgreind markmið og markhóp. Þeir eru: Næsta skref-upplýsingavefur um nám og störf, Gátt-veftímarit um fullorðinsfræðslu og hæfni.is þar sem finna má fræðslu- og stuðningsefni fyrir stjórnendur og starfsfólk í ferðaþjónustu.
Starf FA grundvallast á samstarfi við aðila vinnumarkaðarins, menntakerfið, stéttarfélög, fagfélög, fyrirtæki og stofnanir. Framkvæmd er unnin í gegnum fjármögnun Fræðslusjóðs og samninga við 14 fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar um land allt. Að auki starfar FA með fjölbreyttum hópi sérfræðinga í Evrópu í gegnum ákveðin verkefni og tengslanet.
Fjórir nýir samstarfsaðilar bættust við á árinu; Fjölmennt, heilbrigðisráðuneytið, Fjölmenningarsetur og Rafmennt.
Þrír stórir viðburðir voru haldnir á árinu í umsjón FA. Auk þeirra fóru fram fjölbreyttir samráðsfundir með samstarfsaðilum, þjálfun fyrir matsaðila vegna aðferðafræði Fagbréfa atvinnulífsins, vinnustofur og námskeið fyrir fagaðila í raunfærnimati, ráðgjafa og verkefnastjóra á vettvangi framhaldsfræðslunnar og umsjónarmenn hæfnigreininga. Markmiðið er alltaf að miðla reynslu, þjálfa, læra hvert af öðru og hvetja til umræðu.
Þarfir einstaklingsins eru ávallt í fyrirrúmi innan framhaldsfræðslukerfisins og er það hlutverk þess að styðja og vísa fólki áleiðis í sinni færniþróun. Þeirri sýn má aldrei breyta.
Til að gera verkfæri framhaldsfræðslunnar aðgengilegri og að tækifærin verði í takti við breytingar á atvinnuháttum, þarf að auka sveigjanleika kerfisins meðal annars með nýtingu stafrænnar tækni. Menntunarþarfir markhópa framhaldsfræðslunnar þarfnast uppfærslu og verða jafnan að liggja fyrir. Þá þarf að nýta kerfið betur til að efla hæfnigreiningar starfa og hæfnispár á vinnumarkaði, sem og til að svara betur þörfum innflytjenda, meðal annars um mat á þekkingu, fyrra námi og reynslu, og þeirra sem vilja læra íslensku.
Framhaldsfræðslukerfið getur brugðist mun hraðar við samfélagsbreytingum heldur en formlega skólakerfið. Því er tilvalið að nýta það til dæmis til að þjóna þörfum atvinnulífsins sem snúa að tæknibreytingum, sjálfbærni á vinnumarkaði, réttlátum umskiptum, starfsendurmenntun, virkni til náms og fleira. Skoða þarf störf og atvinnugreinar sérstaklega eftir landssvæðum þar sem vænta má mestu breytinganna. Nú þegar eru símenntunarmiðstöðvar í snertingu við þann hóp sem er í viðkvæmustu stöðunni, meðal annars gagnvart tæknibreytingum og mjög mikilvægt er að ná til þeirra sem eru verst settir á vinnumarkaði.
Í nýlegri könnun SA og Gallup kom fram að innan við helmingur stjórnenda teldi að núverandi menntakerfi myndi koma til með að uppfylla þarfir atvinnulífsins vel næstu fimm árin. Kostir framhaldsfræðslunnar verða ekki oftaldir í þessu samhengi þar sem að þunglamalegt skólakerfið mun ekki taka stakkaskiptum á þeim hraða sem þarf.
Framhaldsfræðslan hefur sýnt mátt sinn er kemur að því að mæta ólíkum þörfum einstaklinga með stutta skólamenntun að baki eða skerta færni, sem dæmi. Framhaldsfræðslan er ekki síður mikilvæg þegar kemur að því að undirbúa vinnumarkaðinn undir hraðar samfélagsbreytingar. Vinnustaðir bera ríka ábyrgð á símenntun starfsfólks síns og mikilvægt að öll umgjörð fóstri viðhorf og leikni í að endurmennta og bæta við þekkingu þar sem færni mætir þörf atvinnulífsins. Vaxandi misræmi á milli menntunar og starfa á vinnumarkaði hefur ýmis neikvæð áhrif í för með sér, til dæmis í formi efnahagslegs kostnaðar.
Lykilatriði er að fjárfest sé í réttri færni og þar munu færnispár spila stórt hlutverk. Af mörgum þörfum atvinnulífsins má segja að auknar kröfur til STEAM kunnáttu tróni þar efst. Þá verða raunfærnimat og fagbréf enn mikilvægari verkfæri til að greina, meta og auka hæfni í atvinnulífinu.
FA þróar verkfæri innan framhaldsfræðslunnar í samstarfi við atvinnulífið og fræðsluaðila. Hæfniviðmið eru grunnur verkfæranna með tengingu við þrep íslenska hæfnirammans um menntun. Eitt nýtt verkfæri bættist við safn verkfæra framhaldsfræðslunnar á árinu undir heitinu Fagbréf atvinnulífsins.
Raunfærnimat framhaldsfræðslunnar gekk vel á árinu. Fjöldi þeirra sem fer í gegnum kerfið takmarkast við það fjármagn sem veitt er til þess í gegnum Fræðslusjóð og þær áherslur sem markaðar hafa verið með stjórnvöldum í framkvæmd. Þegar um er að ræða mat til styttingar á námi er samstarf við framhaldsskóla gott. Þegar kemur að mati á móti hæfniviðmiðum starfa (Fagbréf atvinnulífsins) hafa viðtökur atvinnulífsins verið góðar en á næstu tveimur til þremur árum kemur í ljós hvort það nær að festa sig í sessi.
Alls fóru 567 einstaklingar á gegnum mat á raunfærni á vegum framhaldsfræðslunnar á árinu, meirihluti voru karlar eða 58,2% og meðalaldur allra var 37,7 ár. Samtals voru 12% þeirra sem fóru í gegnum raunfærnimat innflytjendur. Flestir fóru í gegnum raunfærnimat í almennri starfshæfni (55) og leikskólaliða (45). Raunfærni var metin á móti formlegu og óformlegu námi sem og viðmiðum starfa. Sífellt bætast ný svið við þar sem hægt er að fá reynslu af vinnumarkaði metna og vottaða. Samtals hafa 7.315 einstaklingar lokið raunfærnimati frá árinu 2007.
Áherslur FA í aðferðafræði raunfærnimats á vettvangi taka mið af þörfum markhópsins, en það er sá hópur sem hefur mestan ávinning af því að fara í raunfærimat.
Það eru öll þau sem:
Styrkleikar íslenska raunfærnimatskerfisins liggja meðal annars í því að frá upphafi var sú ákvörðun tekin af atvinnulífi og stjórnvöldum að horfa til leiðbeininga Evrópu (e. European guidelines for validating non-formal and informal learning) um framkvæmd. Leiðbeiningarnar eru uppfærðar reglulega út frá reynslu ríkja sem hafa virk kerfi, samtöl við hagsmunaaðila og upplýsingum af viðburðum eins og til dæmis Raunfærnimatstvíæringnum (4th VPL Biennale). Þriðja stóra uppfærsla leiðbeininganna verður gefin út á árinu 2023. Hugsanlega verða þar áherslur sem eiga erindi í endurskoðun laga- og reglugerðar um framhaldsfræðslu.
Í nýrri uppfærslu verður meðal annars horft til niðurstaðna Raunfærnimatstvíæringsins (4th VPL Biennale) frá því í vor. Hvert land markar sér síðan sínar áherslur og verða áherslurnar á Íslandi þær að gefa einstaklingnum rými til að tengja færni sína við hæfniviðmið úr námskrá og veita aðgengi að ráðgjöf til þeirra sem þurfa á henni að halda.
Markvisst hefur verið unnið að því á undanförnum árum að fjölga leiðum í raunfærnimati á starfsmenntabrautum utan iðngreina. Með því nær verkfærið til fleiri hópa og starfa þar sem þörf er á starfsfólki. Opnun nýrra leiða krefst ákveðinnar undirbúningsvinnu með hagsmunaaðilum sem tengjast starfsgreininni. FA hefur sinnt því hlutverki að ryðja brautina með því að skapa sátt og mynda traust á niðurstöðum í gegnum það samstarf. Ef tekið er meðaltal síðustu þriggja ára má sjá að hlutfall þátttakenda í raunfærnimati á starfsmenntabrautum og þátttakenda í raunfærnimati í iðngreinum sem lýkur með sveinsprófi hefur jafnast.
Samhliða fjölgun leiða á starfsmenntbrautum verður breyting á kynjahlutfalli þátttakenda og það fjölgar í hópi kvenna sem ljúka raunfærnimati til styttingar á námi. Það hangir á því að mörg starfanna eru að miklu leyti mönnuð af konum. Hlutfall kvenna er marktækt að aukast þegar horft er til síðustu ára. Dæmi um starfsmenntabrautir þar sem tekist hefur vel til eru fisktækninám, sjúkraliðar, matartækni, félagsliðar og skipstjórn.
Við raunfærnimat til styttingar á námi er metið á móti hæfniviðmiðum áfanga eða þátta í námskrá. Metnir áfangar eru skráðir í INNU og styttist námið sem því nemur.
Á árinu fengu 31 fagaðili þjálfun í aðferðafræði raunfærnimats til styttingar á námi. Samtals hafa 684 fagaðilar fengið þjálfun hjá FA frá árinu 2007.
Til umhugsunar
Á afmælisfundi FA í nóvember var Fagbréf atvinnulífsins kynnt. Fagbréf atvinnulífsins er staðfesting á færni starfsfólks til að sinna ákveðnu starfi og er afrakstur verkefnis sem unnið var í samstarfi við hagaðila.
Ávinningurinn af þessu nýja verkfæri er margþættur. Um leið og það veitir starfsfólki staðfestingu á færni sinni gefur það atvinnurekendum tækifæri til að kortleggja færni og þekkingu starfsfólks, leggja grunn að starfsþróun, markmiðasetningu og launasetningu. Horft er til starfa sem ekki krefjast formlegrar menntunar og eru líkleg til að taka miklum breytingum í náinni framtíð.
Mikil þróunarvinna átti sér stað á árinu vegna uppbyggingar á sjálfbæru kerfi fyrir þetta nýja verkfæri. Það gengur út á að draga fram og raunfærnimeta hæfni í starfi, bjóða upp á þjálfun í því sem upp á vantar (ef svo er) og votta hæfni í starfi út frá hæfniviðmiðum sem byggja á hæfnigreiningarferli FA.
Hlutverk FA er að vera miðja fyrir þetta sjálfbæra kerfi. Í því felst að:
Við þessa vinnu hefur verið horft til reynslu Svíþjóðar þar sem notkun sambærilegra kerfa er að aukast hratt.
Samhliða vinnu við að byggja upp kerfi fyrir Fagbréf atvinnulífsins var að frumkvæði FA tekið upp samtal við starfsmenntasjóði í þeirri von að fyrirtæki og starfsfólk gætu nýtt rétt sinn í sjóðunum til að kosta framkvæmdina. Það raungerðist á haustdögum og í framhaldi af því lagði FA til að Fræðslusjóður gerði breytingar á sínum úthlutunarreglum til samræmis við það sem síðan var samþykkt af stjórn Fræðslusjóðs.
Seint á síðasta ári var lokið við gerð hluta kjarasamninga á almennum markaði. Í þeim er víða að finna bókanir sem snúa að því að meta færni, reynslu og það óformlega nám sem starfsmaður öðlast á vinnustað. FA hefur verið ráðgefandi fyrir atvinnulífið í þessari vinnu.
Þátttakendur í þróunarvinnunni á vettvangi FA
Samtals hafa 43 innri matsaðilar úr 15 fyrirtækjum fengið þjálfun í að raunfærnimeta á móti hæfnikröfum starfs.
Fjórar hæfnigreiningar voru gerðar af hæfniteymi FA á árinu. Greint var starf við eldvarnareftirlit að beiðni Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, starf við sjúkraflutninga að beiðni heilbrigðisráðuneytisins og starf við umönnun á hjúkrunarheimilum og starf í eldhúsi að beiðni Fjölmenntar.
Í öllum tilvikum hæfnigreininganna var tilgangur verkkaupa að nýta greiningu starfsins annað hvort til að endurskoða þá námskrá sem er í notkun með uppfærslu og endurbótum á náminu í huga eða að nýta greininguna til að byggja upp nám/námskeið sem ekki er fyrir hendi en sem á að nýtast fólki svo það geti sinnt starfinu af þeirri þekkingu, leikni og hæfni sem gerð er krafa til. Fleiri ástæður geta legið að baki hæfnigreiningum starfa, til dæmis gerð matlista fyrir raunfærnimat og gerð starfslýsinga.
Allar hæfnigreiningarnar voru unnar samkvæmt forskrift þess kerfis sem FA notar við greiningarferlið. FA nýtir jafnframt rafrænar leiðir við hæfnigreiningar til að fá sem flesta til þátttöku óháð búsetu. Í dag eru hæfnigreiningar almennt gerðar með slíkri blandaðri aðferð. Til þess að mæta breiðari hópi þátttakenda í hæfnigreiningum hafa bæði ferli og vinnugögn verið aðlöguð þátttakendum með fötlun.
Á árinu voru skrifaðar tvær námskrár, Smiðjur nr. 1 og 2 á hæfniþrepi 1, í samvinnu við Fjölmennt. Mikil þörf hefur verið fyrir fjölbreytt nám og námskeið fyrir þann hóp sem Fjölmennt einskorðar sig við að sinna. Með því skrefi sem þar var stigið er leitast við að koma til móts við hóp sem framhaldsfræðslan hefur mjög takmarkað sinnt fram að því.
Megintilgangur með námi í Smiðju er að nemar kynnist fjölbreyttum vinnuaðferðum þar sem reynir á samþættingu huga og handa, sköpunarkraft, verkkunnáttu og fjölbreytt tjáningarform. Að nemar styrki verklega hæfni sína með hagnýtum viðfangsefnum og þjálfist í að leysa verkefni starfsins eða hluta þess. Verkefni í Smiðju er starf, eða hluti af starfi, sem tilheyrir fjölbreyttum atvinnuvettvangi, einkum í tengslum við list- og verkgreinar.
Alls luku 2.247 námi í námsleiðum FA á árinu, þar af luku 108 námi í Smiðju. Flest eru búsett á höfuðborgarsvæðinu eða 32%.
FA hefur unnið að því að brjóta námskrár framhaldsfræðslunnar upp í örvottanir (módúla) þannig að færri námsþáttum er raðað saman í styttri námslotur. Það er gert til að koma til móts við þarfir markhópsins, fyrirtækja og stofnana. Einnig er í vinnslu að bjóða upp á vottun á færni á þrepi í formi Fagbréfa. Er sú þróun í takt við áherslur í Evrópu í tengslum við örvottanir (e. micro-credentials).
Hæfnisetur ferðaþjónustunnar og FA hafa unnið með fræðsluaðilum þvert á skólastig (framhaldsfræðsla, framhaldsskóli, háskóli) að því að móta og taka upp nám í ferðaþjónustu í takt við þarfir atvinnugreinarinnar. Til grundvallar vinnunni liggur skýrslan Hæfni er grunnur að gæðum þar sem greindar voru þarfir ferðaþjónustunnar fyrir nám.
Námslínan byggir á sveigjanleika, starfstengdu námi og starfstengdum verkefnum auk þess sem fólk hefur valkosti um útskrift eftir tiltölulega stutt nám en einnig möguleika á að halda áfram, síðar eða strax. Ekkert sambærilegt nám hefur hingað til verið í boði á Íslandi fyrir fólk sem sér fyrir sér og vill starfa innan ferðaþjónustu.
Uppbygging námsins byggir á kjarna og sérhæfingum. Lögð er áhersla á að námið verði aðgengilegt fyrir þau sem eru starfandi í ferðaþjónustu og einnig fyrir þau sem hafa erlendan bakgrunn.
Áætlanir gera ráð fyrir að framhaldsfræðslan og framhaldsskóli skili inn námskrám til vottunar í maí 2023, raunfærnimat til styttingar á námi fari fram haustið 2023 og nám hefjist á vorönn 2024.
Á öllum fræðslu- og símenntunarmiðstöðvum er aðgengi að ráðgjöf sem snýr að námi og starfsþróun. Ráðgjöfinni er ætlað að ná til markhópsins með upplýsingar og hvatningu til símenntunar. Fjöldi ráðgjafarviðtala á árinu með endurkomum var 8.760. Af þeim sem komu í ráðgjöf eru langflest í starfi eða 62%.
Algengasta inntak ráðgjafar tengist raunfærnimati, þar sem um 31% viðtala tengist raunfærnimatsferli einstaklinga (skimun, færnimöppugerð, stuðningur í matssamtali og eftirfylgni). Einnig er mikið um að fólk komi til að afla sér upplýsinga um nám og til að leita sér aðstoðar við ferilskrárgerð. Rúmur helmingur þeirra sem kom í viðtal á árinu gerði það að eigin frumkvæði.
Flest viðtalanna fóru fram á höfuðborgarsvæðinu hjá Iðunni-fræðslusetri og Mími. Viðtölum fjölgaði mest á svæði Fræðslunets Suðurlands eða um 72,8% á milli ára.
Rafræn viðtöl voru 43% á árinu á móti staðbundnum viðtölum. Markvert er að í fyrsta skipti eru konur í meirihluta þeirra sem koma í ráðgjafarviðtal, þó ekki muni nema einu prósentustigi. Aldurskipting breytist ekki mikið, en flest sem sækja ráðgjöfina eru á aldrinum 26-35 ára eða 35% og þar á eftir 36-45 ára eða 24%. Þá hafa flest í hópnum hafið nám á framhaldsskólastigi en ekki lokið því eða 63% og þau sem eingöngu höfðu lokið grunnskóla voru 18%. Alls 87% þeirra sem koma í ráðgjöf eru í markhópi framhaldsfræðslunnar.
Töluvert hefur fjölgað í hópi innflytjenda og telja þeir 24% þeirra sem sækja sér ráðgjöf um nám og störf. Flest koma frá Póllandi, Úkraínu og Litháen. Á samráðsfundum um ráðgjöfina hefur komið fram að á sumum svæðum hefur orðið mikil aukning innflytjenda í ráðgjöf. Mesta þörfin er fyrir aðstoð við gerð ferilskráa auk þess sem óskað er eftir stuðningi inn í starf og nám.
Haldnir voru tveir örfundir (á netinu) með starfsfólki frá fræðslu- og símenntunarmiðstöðvum og fulltrúum frá Vinnumálastofnum sem á árinu fékk aukið hlutverk hvað þjónustu við innflytjendur varðar. Þörf var á samtali á milli framhaldsfræðslunnar og Vinnumálastofnunar um hlutverk aðila og vinnuferla. Nokkuð er um að fólk án kennitölu leiti til símenntunarmiðstöðva til að fá ráðgjöf, en þar til fólk fær kennitölu er það Vinnumálastofnun sem veitir því ráðgjöf og stuðning.
Á þessum fundum kom fram að skýra þurfi samstarf þjónustuaðila og þróa áfram á svæðum markhópnum í hag. Einnig þarf að greina hvaða gögn þurfi að gera aðgengileg á fleiri tungumálum innan þeirra leiða sem framhaldsfræðslan býður upp á og leita fjármögnunar fyrir þá vinnu.
Á árinu hélt fjöldi notenda áfram að vaxa, líkt og síðustu ár og hefur haldist stöðugur vel yfir 60.000 heimsóknir á ári.
Vandséð var hvernig ætti að halda í við þessa þróun á sama tíma og fjármagn til verkefnisins var afar takmarkað og samvinna við formlega skólakerfið ekki komið á, þrátt fyrir, að því er virtist, áhuga og vilja beggja aðila.
Samt sem áður hélt þróun vefjarins áfram og stærsta breytingin var þýðing á meginefni hans yfir á ensku fyrir tilstuðlan styrks úr Þróunarsjóði innflytjendamála. Var sú þýðing aðgengileg á vefnum haustið 2022.
Þá fékkst á árinu styrkur úr Fræðslusjóði til að útbúa „Starfavegvísi“ að norrænni fyrirmynd en mikil þörf var á fleiri stafrænum verkfærum á vefinn sem styðja við upplýst og ígrundað náms- og starfsval. Var vinna við Starfavegvísinn komin vel af stað þegar ákveðið var að leggja vefinn niður og loka aðgengi að honum í maí 2023 þar sem ekki tókst að tryggja rekstrarlega framtíð hans.
Einnig var hafin vinna við mikið breytta framsetningu efnis vefjarins. Eru þær hugmyndir í ætt við hraðvirkt vefapp sem vonast var til að myndi trekkja að enn fleiri notendur, ásamt því að fela í sér meira öryggi og gera vefinn betur sniðinn að hverjum og einum notanda.
Á vef FA er að finna nýjan Vegvísi sem ætlað er að auðvelda leiðbeinendum fullorðinna að sækja starfsþróun og auka þannig hæfni sína. Hann geymir sjálfsmsatslista fyrir leiðbeinendur og fjölbreyttar leiðir til hæfniþróunar. Hefur hann verið kynntur fyrir starfsfólki á vettvangi og eru verkefnastjórar símenntunarmiðstöðva og mannauðs-/fræðslustjórar fyrirtækja hvattir til að vísa sínum leiðbeinendum á hann.
Áfram var unnið að endurskoðun á námskeiðum til að miðla nýjungum í kennslufræði í tengslum við aukna áherslu á stafræna kennslu til samstarfsaðila.
FA heldur utan um heildarferli vegna gæðavottunar viðurkenndra fræðsluaðila og gerir samning við fyrirtæki til að sjá um úttekt í samræmi við þá staðla sem í gildi eru hverju sinni. Úttekt hjá fræðsluaðilum fer fram á þriggja ára fresti en milli þess skila fræðsluaðilar sjálfsmatsskýrslu til FA.
Gæðavottunarkerfi FA hefur verið í stöðugri þróun með samstarfsaðilum frá því það var fyrst tekið í notkun árið 2008. Þá var því einungist ætlað að ná utan um fræðslustarfið en í dag nær það einnig utan um raunfærnimat og náms- og starfsráðgjöf. EQM vottunin er fyrir aðila sem eingöngu óska vottunar vegna fræðslustarfsemi en EQM+ vottunin er fyrir fræðsluaðila sem einnig óska vottunar vegna raunfærnimats auk náms- og starfsráðgjafar.
Við lok ársins 2022 voru 19 fræðsluaðilar og fyrirtæki með vottun; flest eru með EQM+ og einstaka hafa EQM þar sem starfsemin snýst einvörðungu um fræðslu. Allir 14 samstarfsaðilar FA á vettvangi framhaldsfræðslunnar eru með EQM+ gæðavottun.
Fulltrúar FA og fleiri hagaðila á Íslandi taka þátt í fjölbreyttum netum á vegum NVL og miðla þekkingu um nám fullorðinna á norrænum vettvangi. Hvert net vinnur að afmörkuðum verkefnum út frá áherslusviðum hverju sinni.
Tveimur verkefnum lauk á árinu, Enterprised og KIAL, og tvö ný verkefni bættust við. Auk NVL voru tímabundin erlend verkefni á árinu fimm talsins.
Fulltrúar FA og fleiri hagaðila á Íslandi taka þátt í fjölbreyttum netum á vegum NVL og miðla þekkingu um nám fullorðinna á norrænum vettvangi. Hvert net vinnur að afmörkuðum verkefnum út frá áherslusviðum hverju sinni. Starfandi net á árinu voru átta talsins, þar af eitt nýtt. Þau eru:
Helstu afurðir NVL neta á árinu:
Starfið á Íslandi
NVL kom að nokkrum viðburðum á Íslandi á árinu:
Raunfærnimatstvíæringurinn (4th VPL Biennale)
FA hafði yfirumsjón með og var gestgjafi alþjóðlegu raunfærnimatsráðstefnunnar sem haldin var í maí. Stýrihópur fyrri tvíæringa lagði inn beiðni til FA um að halda fjórða tvíæringinn hér á Íslandi í ljósi þess að þróun raunfærnimats og árangur þess á vettvangi framhaldsfræðslunnar hefur vakið mikla athygli annarra landa.
FA hélt utan um undirbúning og inntak í samstarfi við alþjóðlegan stýrihóp verkefnisins, stýrði verkefnahópi í samstarfi við NVL og sá um að bjóða fyrirlesurum til landsins og markaðssetja viðburðinn.
Heimsfaraldurinn hafði töluverð áhrif þar sem aflétting lokana varð ekki fyrr en í mars og ráðstefnan haldin 19.-20. maí. Með samstilltu átaki tókst að fylgja áætlunum eftir og var mikil ánægja á meðal þátttakenda sem komu hingað til lands. Ráðstefnan var suðupunktur þekkingar í málaflokknum þar sem helstu sérfræðingar og hagsmunaaðilar komu saman.
Á heimasíðu ráðstefnunnar liggur efni sem kynnt var.
NOVA – Nordic (Erasmus KA2)
NOVA verkefnið er norrænt samstarfsverkefni um leiðir til að tengja óformlegt nám við innlenda hæfniramma. Á árinu var haldin málstofa á Íslandi til að kynna stöðu mála og tengja við hæfnigreiningar, örvottanir og raunfærnimat
Flest óformlegt nám er hægt að formgera ef skýrir ferlar eru til staðar. Unnið var að því að draga fram fyrirmyndardæmi og greina helstu þætti samanburðarkönnunar sem gerð var á Norðurlöndunum. Á Íslandi var unnin greining á stöðu mála með Menntamálstofnun og mennta- og barnamálaráðuneytinu.
Lokaráðstefna verkefnisins verður haldin 2023. Er þess vænst að með vinnu hagsmunaaðila opnist á aukna tengingu óformlegs náms á innlenda hæfniramma með auknum sýnileika á færni almennt og aukinni útbreiðslu á nýtingu hæfniviðmiða í þjálfun, fræðslu og námi.
TRANSVAL (Erasmus KA3)
FA er þátttakandi í TRANSVERSAL Skills verkefninu í gegnum NVL. Verkefnið gengur út á að þróa og prufa raunfærnimat í yfirfæranlegri hæfni og draga fram þá ráðgjöf sem þörf er á í ferlinu.
FA hefur miðlað ferlinu í rannsóknarskýrslu um efnið og tók þátt í þróunarfundum samstarfsaðila á netinu og þjálfunarbúðum hjá samstarfsaðilum á Ítalíu. Unnið var að framsetningu viðmiða, þjálfunarefni var prufað og ferlið prufukeyrt í fimm löndum. Von er á fullunnum afurðum á næsta ári sem gefa efninu samevrópskan tón og byggja á ítarlegri rannsóknarvinnu.
Com(m)online (Erasmus KA2)
Verkefnið miðar að því að skapa, leiðbeina og styðja við námssamfélög á netinu með því að skoða ákjósanlega blöndu náms fyrir fullorðið fólk.
Haldnir voru sjö fundir á árinu þar sem farið var í vettvangsferðir til Spánar, Makedóníu, Skotlands og Belgíu auk þess sem samstarfsaðilar komu til Íslands. FA tók þátt í sex af þessum fundum. Skoðaðar voru aðstæður hjá samstarfsaðilum og á Íslandi með því markmiði að leggja fram tillögur og ábendingar fyrir uppbyggingu á námssamfélögum á netinu.
Raddir ungs fólks af erlendum uppruna – Inngilding í nám, starf og samfélag
Vegna formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni var leitað til FA um að vinna að umsókn um verkefni í samstarfi við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, mennta- og barnamálaráðuneytið og NVL.
Ákveðið var að vinna að því að greina raddir ungra innflytjenda á Íslandi hvað varðar aðgengi að námi, starfi og samfélagi; setja upp bakhóp hagaðila til að greina stöðu mála og rýna jafnframt í stöðuna innan fyrirtækja.
Umsóknin var samþykkt í lok árs og hófst þá vinna við að stofna bakhóp og leggja upp rannsóknarvinnuna.
Árið 2022 var líkt og árið á undan félaginu erfitt. Aðhaldsaðgerðir sem gripið var til undir lok árs 2021 til að bregðast við erfiðum rekstri skiluðu sér ekki fyrr en komið var fram undir mitt ár 2022 og hafa áhrif á rekstarniðurstöðu ársins. Einnig hefur ekki tekist að finna vefnum Næsta skref framtíðar rekstrarfyrirkomulag, þrátt fyrir ýmsar þreifingar og samtöl. Rekstur vefjarins lenti því af fullum þunga á FA á árinu. Samt sem áður tókst að snúa rekstrinum við og ánægjulegt er að sjá jákvæða niðurstöðu rekstrar í árslok. En það var ekki gert án fórna. Þannig lækkar launakostnaður milli ára um tæp 8% og stöðugildum um tvö.
Þennan árangur má þakka vinnu og aga í rekstri og á starfsfólk FA miklar þakkir skildar fyrir þolinmæði og umburðarlyndi á erfiðum tímum.
Líkt og áður hefur verið gert, er launakostnaður Hæfniseturs ferðaþjónustunnar færður á verkefnið og því hluti af rekstrar- og verkefnakostnaði FA.
Alls voru unnin 13,8 ársverk hjá FA en í árslok störfuðu þar 13 manns í 11,7 stöðugildum, þar af þrír karlmenn í 2,7 stöðugildum og 10 konur í níu stöðugildum. Fjöldi verkefnastofna gerir kröfu um að sérfræðingar FA búi yfir víðtækri þekkingu og reynslu. Áhersla er lögð á samvinnu starfsfólks og að nýta styrkleika þess og þekkingu í gegnum teymisvinnu innan hvers verkefnastofns, sem einn til tveir sérfræðingar verkstýra. Starfsfólk er almennt í fleiri en einum verkefnastofni.
Uppgjör á framkvæmd ársins 2022 í vottuðum námsleiðum, raunfærnimati og náms- og starfsráðgjöf fór fram samkvæmt skráningum í Innu. Allar fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar sem eru í samstarfi við FA hafa aðgang að Innu og skrá þar fyrrgreindar upplýsingar. FA veitir aðstoð við notkun og skráningu til samstarfsaðila þegar þess er óskað.
FA safnar og miðlar upplýsingum meðal annars í gegnum útgáfu fréttaefnis á vefjum FA og á samfélagsmiðlum. FA stendur að jafnaði fyrir fjölda smærri og stærri viðburða í samvinnu við samstarfs- og hagsmunaaðila, innlenda og erlenda, og tekur þátt í viðburðum þegar tækifæri gefst til kynningar. Til að vekja athygli á stærri viðburðum er sendur út póstur á póstlista og fréttatilkynningar á fjölmiðla.
fræ.is
Vefsíða FA var uppfærð í nýtt útlit í ársbyrjun 2022. Við hönnun á nýrri síðu var áhersla lögð á aðgengilegar upplýsingar og notendavæna síðu. Hópurinn sem nýtir sér þjónustu FA er fjölbreyttur og var markmiðið með uppfærslunni að þjóna honum sem best.
Árið 2022 fékk vefurinn tæpar 9.500 heimsóknir í samanburði við tæpar 8.000 heimsóknir árið 2020. 85,3% þessara heimsókna var fyrsta heimsókn á vefinn.
FA lét framleiða fyrir sig fjölbreytt kynningarefni, svo sem myndbönd á íslensku og ensku til nýtingar á samfélagsmiðlum, hlaðvörp og annað auglýsingaefni í tengslum við viðburðina á árinu.
Auk stóru viðburðanna þriggja tók FA þátt í Menntadegi atvinnulífsins og kynnti þar verkfæri framhaldsfræðslunnar. Brugðið var á leik með yfirskrift dagsins til að vekja athygli á fræ.is og freistuðu gestir gæfunnar í happdrætti þar sem þeir drógu starfaprófíla upp úr potti.
Raunfærnimatstvíæringurinn (4th VPL Biennale) vakti athygli fjölmiðla. Spegillinn á RÚV birti viðtal við framkvæmdastjóra FA, Hildi Betty Kristjánsdóttur, og Síðdegisútvarpið á RÚV birti viðtal við Jón Gnarr, einn af fyrirlesurum á ráðstefnunni. Morgunblaðið birti aðsenda grein frá FA sem fjallaði um raunfærnimat og síðar aðra aðsenda grein í tengslum við afmælisfund FA og Fagbréf atvinnulífsins.
Á árinu voru birtar 15 greinar í Gátt eftir erlenda og innlenda höfunda, um helmingur þeirra fjallar um raunfærnimat enda var þeim ætlað að vekja athygli á verkfærinu í tengslum við Raunfærnimatstvíæringinn (4th VPL Biennale).
Dæmi um greinarnar í Gátt: