Select Page
19. mars, 2018

Ísland tekur þátt í PIAAC

Mennta- og menningarmálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, skrifaði grein i Morgunblaðið 9. mars sl. þar sem hún kynnti áform stjórnvalda um að taka þátt í PIAAC, alþjóðlegri könnun á hæfni á vinnumarkaði. Íslendingar hafa hingað til ekki tekið þátt í þessari könnun og það er því mikið fagnaðarefni að þessi könnun verði framkvæmd hér á landi. Niðurstöður könnunarinnar munu aðstoða stefnumótendur og fræðsluaðila við móta úrræði og aðgerðir til að auka hæfni á vinnumarkaði. Grein Lilju fer hér á eftir:

Íslensk stjórnvöld hafa ákveðið að taka þátt í næstu PIAAC-rannsókn sem hefst í ár og munu niðurstöður liggja fyrir árið 2023. PIAAC (Programme for the International Assessment of Adult Competencies) er umfangsmikil rannsókn á vegum OECD á grunnfærni fullorðinna, þ.e. lesskilningi, tölulæsi og notkun upplýsingatækni við úrlausn daglegra verkefna. PIAAC er ætlað að svara til um hversu vel fólk á vinnumarkaði er í stakk búið til að takast á við ný verkefni og áskoranir nútímasamfélags.

PIAAC er að festa sig í sessi sem lykilkönnun sem stjórnvöld víða um heim styðjast við í stefnumótun. Um 40 lönd hafa tekið þátt í PIAAC og þar af öll löndin á Norðurlöndum.
Það er nokkuð ljóst að PIAAC mun í framtíðinni hafa sömu stöðu gagnvart vinnumarkaði og atvinnulífi og PISA gagnvart menntakerfinu. Ef PISA veitir innsýn í styrkleika og veikleika nemenda við lok grunnskóla í hverju landi, þá mun PIAAC veita innsýn í styrkleika og veikleika þess mannauðs sem felst í vinnumarkaði hvers lands.

Meðal þess sem PIAAC hefur nú þegar sýnt fram á er að þeir mælikvarðar sem hingað til hafa verið notaðir til að meta hæfni vinnuafls gefa ekki endilega rétta mynd af samkeppnishæfni vinnumarkaðarins í alþjóðlegu samhengi, né hversu vel hann er búinn undir að mæta þeim áskorunum sem felast í fjórðu iðnbyltingunni. Til gamans má geta að um 10 ríki OECD hafa unnið eða eru að vinna sérstaka hæfnistefnu. Norðmenn voru fyrsta OECD-ríkið til fara í slíka vinnu árið 2014 og á dögunum birtu þeir nýja hæfnistefnu sem unnin var í víðtæku samráði hagsmunaaðila.

Viðvarandi verkefni íslenskra stjórnvalda og atvinnulífs er að auka samkeppnishæfni Íslands. Í því felst að styðja við fjölbreytt atvinnulíf og að Ísland búi sig undir að mæta þeim áskorunum og nýta þau tækifæri sem felast í sífellt örari tæknibreytingum. Þeim munu fylgja nýjar kröfur um menntun og hæfni starfsfólks og að til staðar sé umhverfi sem hvetur til nýsköpunar á öllum sviðum, þ.m.t. hjá hinu opinbera og í rótgrónum greinum. Niðurstöður PIAAC munu gegna þýðingarmiklu hlutverki sem varðar stefnu og ákvarðanir stjórnvalda í menntamálum, velferðamálum og efnahagsmálum. Þá hefur PIAAC einnig gefið vísbendingar um jafnréttismál, launamisrétti, stöðu innflytjenda og lýðræðisþátttöku. Það er því fagnaðarefni að Íslandi taki þátt í PIAAC-rannsókninni í fyrsta sinn.