Select Page

Raunfærnimat

Raunfærnimat á Íslandi

Raunfærnimat fyrir einstaklinga sem hafa stutta formlega skólagöngu

Á Íslandi hefur verið unnið að þróun raunfærnimats fyrir markhóp framhaldsfræðslunnar frá árinu 2002.  Frá upphafi hefur atvinnulífið haft beina aðkomu að þróuninni. Mennta- og menningarmálaráðuneytið fól Fræðslumiðstöð atvinnulífsins það hlutverk að halda utan um þróunarvinnu og innleiðingu raunfærnimats í samstarfi við hagsmunaaðila á vinnumarkaði fyrir einstaklinga sem ekki hafa lokið námi á hæfniþrepi 3 (stúdents- eða sveinspróf).

Árið 2010 voru samþykkt lög um framhaldsfræðslu þar sem meðal annars er að finna skilgreiningu á því hvað raunfærnimat er, hverjir eiga rétt á raunfærnimati og um rétt til einstaklingsmiðaðrar náms- og starfsráðgjafar. Í kjölfarið kom reglugerð árið 2011.

Í lögunum um framhaldsfræðslu kemur eftirfarandi fram:

  • Raunfærnimat: Skipulagt ferli þar sem með formlegum hætti er lagt mat á alhliða þekkingu og færni einstaklingsins. Matið getur byggst á skólagöngu, starfsreynslu, starfsnámi, frístundanámi, framhaldsfræðslu, félagsstörfum og lífsreynslu viðkomandi.
  • Þau sem hafa stutta formlega skólagöngu og kjósa að leggja stund á nám sem skipulagt er á grundvelli laga þessara eða laga um framhaldsskóla eiga rétt á að einstaklingsbundin raunfærni þeirra sé metin.
  • Þeim sem hyggjast leggja stund á nám sem uppfyllir skilyrði laga þessara stendur til boða einstaklingsbundin náms- og starfsráðgjöf. Ráðherra er heimilt að setja reglur um náms- og starfsráðgjöf samkvæmt grein þessari.

Með raunfærnimati er óformlegt nám og starfsreynsla metið til jafns við formlegt nám. Þegar um er að ræða raunfærnimat á móti formlegu námi (námskrá) eru einingar sem fást með því skráðar í INNU, upplýsingakerfi skóla. Ef um er að ræða raunfærnimat þar sem metið er á móti viðmiðum atvinnulífs er gefin út skrifleg staðfesting á hæfni.

Árið 2007 hófst reglubundin fjármögnun raunfærnimatsverkefna í gegnum framlög frá Fræðslusjóði.  Fram að því voru tilraunaverkefni í gangi sem fjármögnuð voru eftir öðrum leiðum. Í fyrstu var framkvæmd einskorðuð við iðngreinar, en í dag hefur raunfærnimat verið þróað fyrir margar námskrár á framhaldsskólastigi.

Upplýsingar um raunfærnimat  fyrir einstaklinga

Samstarfsaðilar Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins sjá um að stýra einstaka raunfærnimatsverkefni. Þegar undirbúningi mats er lokið er verkefnið auglýst og myndaður hópur  einstaklinga sem hafa áhuga á að taka þátt. Einfaldasta leiðin fyrir fólk til að fá upplýsingar um raunfærnimat er að hafa samband við náms- og starfsráðgjafa sem starfa á símenntunarmiðstöð í þeirra heimabyggð.

Þar má sækja upplýsingar um hvort möguleiki er á mati á ákveðnu sviði og fá ráðgjöf um næstu skref.

Á vefnum Næsta skref er hægt að nálgast upplýsingar um greinar þar sem í boði er raunfærnimat.

Námskrár á framhaldsskólastigi

Mikill meirihluti þeirra sem hafa lokið raunfærnimati hafa fengið mat þar sem stuðst er við viðmið úr námskrám framhaldsskólanna. Þá er markmið raunfærnimatsins að staðfesta hæfni til styttingar á námi.  Nær allir sem koma í raunfærnimat á þessum forsendum hófu á sínum tíma nám í framhaldsskóla  en luku því ekki. Árið 2014 fór fram úttekt á framhaldsfræðslukerfinu og sá Capcent um framkvæmd. Hún snéri m.a. að því að kanna árangur af raunfærnimati.

Þegar spurt var um skólagöngu að loknu raunfærnimati voru svörin eftirfarandi:

Ég fór í nám eftir raunfærnimat og hef lokið því námi 34,1 %
Ég fór í nám eftir raunfærnimat og það er enn í gangi 27,7%
Hef í hyggju að fara í nám 13,8%
Hef ekki í hyggju að fara í nám 7,6%
Ég er meðvitaðri um starfsþróun mína 16,7%

Þegar hópurinn sem hafði lokið námi eða var í námi var spurður; hvernig gekk/gengur námið? voru svörin eftirfarandi

Vel 90,0%
Hvorki né 8,9%
Illa 1,2%

Könnunina í heild má nálgast hér.

Viðmið atvinnulífs

Þó nokkur verkefni hafa verið framkvæmd þar sem raunfærnimatið miðast við skilgreindar hæfnikröfur ákveðinna starfa. Þar má nefna þjónustufulltrúa og gjaldkera í bönkum, starfsmenn í vöruhúsum, hljóðtækna og starfsfólk á rannsóknarstofum. Sú nálgun hefur gefið góða raun. Vel hefur gengið að greina hæfniviðmið fyrir störfin og meta hvort fólk uppfylli þau. Í þeim hæfniviðmiðum sem sett eru upp fyrir störf er vægi persónulegra hæfniþátta eins og samskipta, frumkvæðis, getu til að starfa í hóp oft áberandi.  Þetta eru hæfniþættir sem stundum er nefndir mjúkir hæfniþættir (soft skills)  og yfirfæranleg hæfni (transferable skills).

Árið 2018 hófst vinna við tilraunaverkefnið Raunfærnimat á móti viðmiðum atvinnulífsins fyrir styrk úr Fræðslusjóði og eru meginmarkmið verkefnisins:

  • Að þróa aðferðafræði við mat og staðfestingu á færni sem aflað hefur verið utan formlega skólakerfisins og nýtist á vinnumarkaði
  • Að tryggja gildi niðurstaðna matsins á vinnumarkaði
  • Að byggja grunn að sjálfbæru kerfi

FA stýrir verkefninu í samstarfi við Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands. Valin voru fimm störf sem metið verður á móti og byggir matið á greiningum á þeirri hæfni sem þarf til að inna tiltekið starf vel af hendi. Lesa má um hæfnigreiningar FA hér. Unnið verður með eftirtalin störf í verkefninu: Matvælavinnsla, þjónusta í sal, verslunarstörf, móttaka á gististöðum og starf fulltrúa hjá opinberum stofnunum. Umsjón raunfærnimatsins verður í höndum samstarfsaðila FA. Áætlað er að verkefninu ljúki á fyrri helmingi ársins 2020.

Raunfærnimat á háskólastigi

Árið 2015 var komið á nefnd á vegum Háskóla Íslands til að kanna möguleika á raunfærnimati á því skólastigi. Það er ljóst að áhugi er fyrir að þróa raunfærnimat, annarsvegar til að uppfylla inntökuskilyrði í deildir og hins vegar til styttingar á námi. Hér má finna niðurstöðu vinnuhópsins.

Tölulegar upplýsingar um raunfærnimat á Íslandi

Frá árinu 2004 t.o.m. 2016 luku  3.952 einstaklingar  raunfærnimati. Til að tengja þessa tölu fjölda á vinnumarkaði  voru að jafnaði 199.300 manns á aldrinum 16–74 ára á vinnumarkaði í apríl 2017 (vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands) og þar af er markhópur framhaldsfræðslunnar um 20%. Mikilvægt er að muna að talan sýnir  aðeins þau sem hafa lokið raunfærnimati, ekki fjölda þeirra sem hófu eða luku námi í kjölfar raunfærnimats.

Árið 2018 í tölum

Alls luku 577 einstaklingar raunfærnimati árið 2018. Þetta er nokkur fjölgun frá árinu 2017 en þá luku 439 raunfærnimati. Með því hafa 4.968 lokið raunfærnimati frá árinu 2004. Sveiflur á milli ára skýrast að hluta til af því að skil á verkefnum eru ekki bundin við áramót.

2018 Fjöldi  Hlutfall Meðal-aldur  Meðalfjöldi eininga  Fjöldi eininga  Konur  Karlar 
Starfsnámsbrautir   304 53% 40 52                15,833 57% 43%
Iðngreinar   243 42% 35.6 51                12,482 2% 98%
Viðmið atvinnulífs   20 3% 37.9 Á ekki við Á ekki við 80% 20%
Almennar bóklegar greinar   10 2% 38.6 19.5 195 10% 90%
Samtölur   577 100% 38.03                  28,510    

Árið 2018 fóru flestir í gegnum raunfærnimat í fsiktækni (85), verslunarfulltrúa (45), Félagsliðabraut (39) og rafvirkjun (36). Nánari tölfræði má nálgast hér.