Select Page

Raunfærnimat

Hlutverk Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins í þróun raunfærnimats

Hlutverk Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins er að þróa aðferðir við mat á raunfærni og  innleiðingu raunfærnimats í samstarfi við hagsmunaaðila á vinnumarkaði.

Leiðarljós FA við þessa vinnu hefur verið:

  • Að skapa sátt um framkvæmd milli hagsmunaaðila
  • Að tryggja faglega framkvæmd, en halda kostnaði í lágmarki
  • Að sú þekking og færni sem metin er með raunfærnimati hafi sama vægi og þekking og hæfni sem aflað er innan skólakerfisins
  • Réttur einstaklingsins, m.a. með beinni aðkomu náms- og starfsráðgjafa að ferlinu.

Framkvæmd raunfærnimatsverkefna er höndum samstarfsaðila FA, sem eru fræðslu- og símenntunarmiðstöðva víða um land. Helsta hlutverk FA er að tryggja gæði, með því að miðla og veita ráðgjöf um viðurkennda aðferðafræði og aðstoða við innleiðingu í nýjum greinum. Gerð er krafa um að verkefnin séu unnin í samstarfi við hagsmunaaðila, þar með talið formlega skólakerfið ef metið er á móti námskrá. Einnig er gerð krafa um náms- og starfsráðgjöf til þeirra sem fara í raunfærnimat, en hún er talin mikilvægur hluti af vinnuferlinu.

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins er vottunaraðili EQM á Íslandi. EQM stendur fyrir European Quality Mark eða Evrópska gæðamerkið og er gegnsætt matsferli fyrir fræðsluaðila til að meta starfshætti sína út frá viðurkenndum gæðaviðmiðum. EQM byggist á sjálfsmati sem er yfirfarið af EQM viðurkenndum úttektaraðila sem kemur einnig með ábendingar um gæðamál og umbætur meðan á úttektarferlinu stendur.

Á árinu 2016 voru þróuð og prófuð gæðaviðmið fyrir framkvæmd raunfærnimats og árið 2017 hófu fyrstu samstarfsaðilar FA ferilinn að vottun. Gert er ráð fyrir því að árið 2020 hafi allir samstarfsaðila sem sjá um framkvæmd raunfærnimats fengið vottun. Nánari upplýsingar um EQM vottun og viðmið fyrir raunfærnimat er að finna hér.

Fjármögnun raunfærnimatsverkefna

Raunfærnimatsverkefni eru framkvæmd af viðurkenndum samstarfsaðilum Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins og eru fjármögnuð af Fræðslusjóði. Hlutverk Fræðslusjóðs er að stuðla að því að til séu viðeigandi námstækifæri fyrir einstaklinga með stutta formlega skólagöngu að baki. Jafnframt er það hlutverk sjóðsins að taka þátt í að skapa skilyrði fyrir því að einstaklingar geti nýtt sér slík námstækifæri.

Fræðslusjóður ráðstafar þeim framlögum sem Alþingi ákveður í fjárlögum hverju sinni. Úthlutanir Fræðslusjóðs greinast í meginatriðum í þrennt samkvæmt úthlutunarreglum sem ráðherra staðfestir:

  1. framlög til fræðsluaðila til að mæta kostnaði við kennslu og námskeiðahald,
  2. framlög til að mæta kostnaði við raunfærnimat og náms- og starfsráðgjöf,
  3. styrkveitingar til nýsköpunar- og þróunarverkefna í framhaldsfræðslu.

Upplýsingar um starfsemi Fræðslusjóðs má finna hér