Raunfærnimat
Ferlið í raunfærnimati
- Upplýsingar og endurgjöf
Einstaklingur á að geta tekið upplýsta ákvörðun um þátttöku og vita hvar hann stendur á öllum stigum ferlisins. Áður en kemur til raunfærnimats er mikilvægt að kynna vel markmið matsins, hlutverk matsaðila, mögulegar niðurstöður og rétt einstaklingsins í ferlinu. - Skráning
Lögð er áhersla á að einstaklingurinn líti yfir farinn veg og skrái raunfærni sem hann hefur öðlast í gegnum störf, nám og frístundir. Einstaklingurinn safnar saman viðeigandi gögnum, s.s. meðmælum frá atvinnurekendum, starfslýsingum, viðurkenningarskjölum, skírteinum, sýnishornum og verkefnum. Mikilvægt er að gott aðgengi sé að náms- og starfsráðgjafa sem leiðbeinir og veitir stuðning í þessu ferli. - Greining
Eftir að einstaklingurinn hefur skráð raunfærni sína fer fram samtal þar sem staða hans er greind. Í samtalinu koma einstaklingurinn og fagaðili saman til að finna út hver raunfærni hans er í ákveðnum færniþætti. Ráðgjafi, sem aðstoðað hefur við skráningu, getur einnig tekið þátt í samtalinu þar sem hann hefur innsýn í raunfærni og styrkleika einstaklingsins. - Staðfesting
Þegar komið er í ljós hvað til greina kemur að meta, skal sannreyna eða staðfesta raunfærnina. Staðfesting á raunfærni fer fram samkvæmt matsáætlun, í samráði við fagaðila og ráðgjafa. Hér er verið að bera saman raunverulega færni og færniviðmið. - Mat og viðurkenning á raunfærni
Námsáfangi telst metinn þegar hann hefur verið færður í námsferilsskrá einstaklings sem loknum eða metnum. Mikilvægt er að mat og viðurkenning á raunfærni sé tekin gild af viðeigandi hagsmunaaðilum og að þeir séu vel upplýstir um framkvæmd raunfærnimats.
Myndbönd um raunfærnimat á íslensku og ensku