Select Page
15. október, 2020

Viðtal við Rakel Steinvöru Hallgrímsdóttur, náms- og starfsráðgjafa hjá IÐUNNI fræðslusetri

Hversu lengi hefur þú unnið við náms- og starfsráðgjöf?

Ég útskrifaðist með meistarapróf í náms-og starfsráðgjöf frá Háskóla Íslands árið 2008.  Ég vann fyrstu árin sem ráðgjafi hjá Mími-símenntun, vann svo einn vetur í grunnskóla en sl. 9 ár hef ég starfað hjá IÐUNNI fræðslusetri.

Hvað kanntu best við í starfinu?

Samskipti við fólk er það sem ég met mest í starfinu og ég hef gaman að fjölbreyttum og ólíkum verkefnum.  Mér finnst alltaf jafn gefandi að hjálpa fólki í gegnum raunfærnimatsferlið og sjá það  hefja nám að nýju.

Hver eru helstu verkefnin og hvernig skiptast þau?

Helstu verkefnin hjá mér eru að vinna við ráðgjöf og raunfærnimat og á síðustu þremur árum hef ég líka unnið í þróunarverkefnum sem hafa tekið talsverðan tíma en gera starfið jafnframt enn skemmtilegra.

Í hverju felast helstu faglegu áskoranir í starfi?

Það hafa ýmsar faglegar áskoranir komið upp í kjölfar Covid.  Það að færa ráðgjöfina og svo raunfærnimatið á rafrænt form var talsverð áskorun til að byrja með, þar sem okkur var að sjálfsögðu mikið í mun að halda gæðum  sem mestum og sinna ráðgjöfinni af fagmennsku.  Því þurfti að leita leiða til að leysa mörg praktísk atriði og við lærðum margt af þessu öllu. 

Hvernig er starfsþróun fyrir ráðgjafa háttað á þínum vinnustað?

Við ráðgjafarnir hjá IÐUNNI sækjum ýmis námskeið sem tengjast starfinu auk samstarfsfunda hjá FA þar sem gott er að hitta aðra ráðgjafa í framhaldsfræðslunni.  Persónulega finnst mér mikil starfsþróun felast í að taka þátt í ólíkum þróunarverkefnum, kynnast nýju fólki, nýjum hugmyndum og taka þátt í að þróa raunfærnimat og ráðgjöf áfram.

Hvaða eða hvers konar „verkfæri“ notar þú mest í ráðgjöfinni?

Þau verkfæri sem mest eru notuð í raunfærnimati eru færnimappan, gátlistar og fleira sem tengist raunfærnimatinu.  Almennt í viðtölum nota ég viðtalstækni sem að ég lærði í náminu en tengi hana ekki beint við einn kenningarsmið, heldur er þetta meira bland af því sem að mér þykir henta. Eins er mikilvægt að hafa aðgang að ýmsum upplýsingum og síðum á netinu og má þar nefna frábæra síðu, Næsta skref, sem er stútfull af gagnlegum upplýsingum.

Hefur Covid19 ástandið breytt miklu í vinnunni hjá þér … og þá hvernig?

JÁ!  Það er eiginlega hægt að segja að það sé flest breytt varðandi það vinnulag sem að áður tíðkaðist.  Nú í október erum við aftur komin í það, eins og var í mars og apríl, að húsið er lokað fyrir utanaðkomandi þannig að öll ráðgjöf og raunfærnimat er á rafrænu formi.  Starfsfólki er skipt upp til að ekki séu allir í húsi í einu og auk þess eru starfsmannafundir og ýmsir samstarfsfundir á Teams eða Zoom. 

Annað sem þér dettur í hug

Ég held að þetta Covid-ástand hafi kennt mér meira en nokkurt námskeið sem ég man eftir.  Bara það að reyna að lifa í núinu, þakka fyrir það sem við getum gert og hugsa um allan lærdóminn sem hefur fengist með nýjum aðferðum og leiðum í samskiptum við fólk, bæði tengt vinnu og einkalífi.  Svo verðum við bara að muna eftir að hlægja reglulega og vona að þetta ástand gangi yfir fyrr en síðar.