Select Page
19. júní, 2020

Viðtal við Ingibjörgu Hönnu Björnsdóttur, náms- og starfsráðgjafa hjá Mími – símenntun

Hversu lengi hefur þú unnið við náms- og starfsráðgjöf?

Síðan í ágúst 2015 við náms- og starfsráðgjöf hjá Mími símenntun. Þar áður má segja að það hafi verið óbeint síðan 2012 hjá Sérfræðisetri í ævilangri náms- og starfsráðgjöf.

Hvað kanntu best við í starfinu?

Þetta líflega umhverfi sem er í stöðugri þróun. Fjölbreytt og skemmtileg verkefni og ekki hvað síst að hitta margt og alls konar fólk sem maður lærir ýmislegt af. Svo er alltaf skemmtilegast að sjá fólk finna sínar leiðir, styrkja sig og fagna áföngum sem það nær.

Hver eru helstu verkefnin og hvernig skiptast þau?

Almenn ráðgjöf við gesti og gangandi ásamt tilvonandi, núverandi og fyrrverandi nemendum. Raunfærnimat- verkefnastjórn og ráðgjöf. Kynningar og kennsla. Ýmis konar þróunarverkefni er snúa að náms- og starfsráðgjöf. Allt þetta kemur inn á borð til okkar allra ráðgjafanna og er svolítið mismunandi eftir tímabilum, hvenær mesti þunginn er í hverju fyrir sig.

Í hverju felast helstu faglegu áskoranir í starfi?

Helstu almennu áskoranirnar í starfinu eru að mínu mati þegar erfiðlega gengur að finna leiðir fyrir fólk að fara í þær áttir sem það vill fara. Eins þegar sveigjanleiki innan formlega og óformlega kerfisins er ekki til staðar og margar hindranir verða á vegi fólks.

Hvernig er starfsþróun fyrir ráðgjafa háttað á þínum vinnustað?

Það er auðsótt að sækja sér endurmenntunar og ýtt undir möguleika til starfsþróunar. Það getur verið á ýmsu formi; vinnudagar, fyrirlestrar í vinnunni eða farið á námskeið og ráðstefnur um málefni tengdum síbreytilegu umhverfi okkar.

Hvaða eða hvers konar „verkfæri“ notar þú mest í ráðgjöfinni?

Er ekki klassískast að segja viðtalstæknina. En auðvitað er ýmislegt í gangi þessa dagana þar sem við erum til dæmis að taka þónokkuð af áhugasviðskönnunum og notum þá Bendil. Hvers konar sjálfsstyrking og valdefling er ávallt til taks. Að draga fram t.d sjálfsþekkingu í tengslum við raunfærnimat og  atvinnuleit með ýmsum verkefnum hvort sem er í hópi eða með einstaklingum.

Hefur Covid-19 ástandið breytt miklu í vinnunni hjá þér…og þá hvernig?

Minn vinnustaður var ágætlega undirbúinn fyrir þær aðstæður sem urðu í Covid19. Þá þegar var hafinn undirbúningur á meiri fjarkennslu og flest öllu var breytt í fjarkennslu á meðan á þessu stóð. Þetta hefur orðið til þess að ákveðið var að bjóða upp á mikið af námi og námskeiðum í fjarnámi í haust. Eins fóru ráðgjöf og raunfærnimat meira fram í síma og fjarfundi. Samstarfsfólkið var orðið ansi vant samvinnu í gegnum tölvuna og held ég að það sé nú auðveldara fyrir alla að nýta sér það umhverfi. Fólk er orðið vant því að hittast t.d. á fjarfundum og segi ég fyrir mitt leyti að ég myndi gjarnan vilja halda því meira inni þegar það á við.

Annað skemmtó?

Það hefur reynt á aðlögunarhæfnina í Kórónaveirufárinu og mun ekki síður reyna á hana í sumar því planið var að sötra Aperol Spritz í sól og sumaryl á Sikiley. Þess í stað mun ég líklegast sötra það á svölunum heima hjá mér við gráan himinn og tíu gráður.